Man United – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Stórleikur helgarinnar er viðureign Everton við Manchester United í 28. umferð úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks á heimavelli United kl. 12:30. Þetta er viðureign sem hefur reynst Everton erfið í gegnum tíðina og ekki bætir úr skák að United menn hafa verið sterkir frá upphafi árs, 7 sigrar af 10 möguleigum, eitt jafntefli (gegn Tottenham) og aðeins tvö töp — þar af annað gegn verðandi Englandsmeisturum Manchester City (og hitt gegn Fulham).

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Godfrey, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Doucouré, Beto.

Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Coleman, Young, Gomes, Chermiti, Dobbin, Calvert-Lewin.

Mjög shaky byrjun hjá United, sem töpuðu boltanum í sífellu á fyrstu mínútunum og virkuðu sofandi. Harrison komst í dauðafæri í upphafi leiks, alveg upp við mark eftir háa sendingu fyrir mark frá McNeil, sýndist mér. Onana (okkar) tók við boltanum í teig og framlengdi á Godfrey, sem var stutt hjá — báðir upp við mark en Onana (þeirra) í marki United, varði glæsilega skotið frá Godfrey. Þulurinn vildi meina að markið hefði ekki fengið að standa þar sem boltinn fór í hendina á (okkar) Onana, sem er ekki rétt, því að boltinn fór af líkama Onana og þaðan í hendina, sem er ekki brot. Godfrey mögulega rangstæður, hins vegar, ekki víst. Everton hættulegri frá upphafi, en United þunglamalegir og aðeins hættulegir úr skyndisóknum.

Í einni slíkri á 10. mínútu gaf Tarkowski United ódýrt víti þegar hann rétt snerti leðrið á skónum hjá Garnacho, sem lét sig detta með leikrænum tilburðum út við jaður vítateigsins vinstra megin (frá þeim séð). Lítið við því að gera, dómarinn alltaf að fara að dæma víti (og við hefðum viljað víti hinum megin). Portúgalski tannálfurinn, Bruno Fernandes, á punktinn og rétt svo skoraði niðri hægra megin (frá þeim séð), en Pickford giskaði á rétt horn og var ekki langt frá því að verja. Staðan orðin 1-0 fyrir United, gegn gangi leiksins.

McNeill átti flott viðstöðulaust skot á 13. mínútu, miðaði upp í skeytin vinstra megin en ekki langt framhjá. Harrison reyndi svo skot á 19. mínútu, rétt utan teigs, en hitti ekki á markið. En Everton hélt áfram að banka á dyrnar, Garner og Onana (okkar) áttu báðir skot í sömu sókninni, skotið frá Garner rataði á markið en vel varið. Boltinn barst til Onana inni í teignum, en skotið frá honum slakt og yfir markið.

Á 27. mínútu braut (okkar) Onana af sér rétt utan eigin teigs og fékk gult fyrir. Fernandes tók þá aukaspyrnu, smellhitti boltann hátt og til vinstri (frá honum séð) en Pickford varði glæsilega með því að slá boltann hátt og til hliðar.

En Everton hélt áfram að sækja og á 30. mínútu átti McNeil fast lágt skot frá vinstri í teignum, sá tækifæri til að setja boltann niðri í hægra hornið alveg út við stöng, en boltinn sleikti stöngina utanverða. United heppnir þar.

Og þá var kominn tími á að gefa Garnacho annað víti á silfurfati en í þetta skiptið var það Godfrey sem reyndi tæklingu inn í teig, missti af boltanum og steig á ristina á Garnacho. Alltaf víti. Rashford á punktinn og skoraði örugglega. 2-0 fyrir United. Það er erfitt að vinna leiki þegar maður gefur hinu liðinu tvö víti á silfurfati.

Lindelof reyndi skot utan teigs á 48. mínútu en Pickford þurfti ekki að hafa neitt fyrir því að verja það, enda skotið laust og nánast beint á hann.

Rétt áður en dómarinn flautaði til loka fyrri hálfleiks fékk Everton frábært færi, unnu boltann framarlega og komu honum í teig þar sem United voru fáliðaðir og McNeil komst í skotfæri í miðjum teignum en United sluppu með skrekkinn.

2-0 í hálfleik og athygli vakti að tölfræðin sýndi að United voru með Expected Goal upp á 2.0 (þar af tvö víti) og Everton með 1.0.

Engin breyting á liðunum í hálfleik en seinni hálfleikurinn var frústrerandi á að horfa, daufari en sá fyrri, allavega og Everton bitlausir fram á við.

Doucouré fékk flott skotfæri á 50. mínútu eftir vel útfærða aukaspyrnu utan af vinstri kanti, en fast skot frá honum blokkerað af McTominey.

Garnacho fékk tvö ágætis færi hinum megin en í bæði skiptin náði varnarmaður Everton að loka á hann á síðustu stundu.

Á 61. mínútu gerði Dyche þrefalda skiptingu. Doucouré, Harrison og Beto fóru út af og inn á komu Gomes, Dobbin og Calvert-Lewin. Fernandes átti stuttu síðar fínt lúmskt skot frá hægri inni í teig en Pickford með hendi á því og varði vel í horn.

Everton slapp svo með skrekkinn eftir horn á 63. mínútu þegar boltinn endaði í einhverri þvögu United manna rétt fyrir framan mark, en þeir spörkuðu hver í annan þangað til Johnny Evans sýndi þeim hvernig ætti að gera þetta og náði að pota boltanum í átt að marki, en beint á Pickford. Young kom svo inn á fyrir Garner á 75. mínútu.

Everton fékk dauðafæri á 76. mínútu sem Calvert-Lewin hefði átt að skora úr. Hann og McTominey (?) reyndu við háan bolta inni í teig, sem fór framhjá þeim báðum en til Dobbin sem kom boltanum fyrir mark frá vinstri. Frábær bolti, Onana (þeirra) náði ekki til hans og Calvert-Lewin, sem hélt að færið væri búið, sá að boltinn kom skyndilega til hans fyrir opnu marki en hann var aðeins of seinn að átta sig og náði ekki að stýra boltanum í autt netið. Boltinn sigldi framhjá öllum og rúllaði í átt að hliðarlínu.

Onana (okkar) reyndi skot utan teigs stuttu síðar, hjólhestaspyrna sem hann náði að koma á mark en Onana (þeirra) var ekki í miklum erfiðleikum með það. Calvert-Lewin náði svo skalla á mark úr horni á 81. mínútu en náði ekki nægum krafti í skallann sem fór beint á Onana (þeirra) í markinu.

United skipti svo langbesta manni sínum í leiknum, Garnacho, út af og settu handónýtan 80M punda kantmann, Antony, inn á í hans stað. Þar með var hættan af þeim kantinum farin og Chermiti kom svo inn á fyrir Mykolenko á 88. mínútu. Tilviljun? 🙂

Þetta rann svo út í sandinn hjá Everton og niðurstaðan því tap. Everton reyndi að gefa United þriðja vítið í leiknum á 95. mínútu, þegar Branthwaite tók út Rashford inni í teig, rétt fyrir lok leiks en línuvörður kom þeim til bjargar og dæmdi Rashford (réttilega) rangstæðan í aðdragandanum.

2-0 sigur United staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Godfrey (5), Tarkowski (6), Branthwaite (7), Mykolenko (5), Harrison (6), Onana (6), Garner (6), McNeil (7), Doucoure (5), Beto (5). Varamenn: Calvert-Lewin (5), Gomes (6), Dobbin (6), Young (6), Chermiti (6).

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Stefnir í það samt, nenni ekki að horfa á meira þetta er tapað.

 2. Eirikur skrifar:

  Var að koma að skjánum og það er jákvætt að það er gerð þreföld skipting.

 3. Eirikur skrifar:

  Kvarta ekki yfir úrslitum vikunar. Við enn í 16 sæti og eigum leik inni.

Leave a Reply