Brighton – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Brighton í dag í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og var hann leikinn á heimavelli Brighton.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Godfrey, McNeil, Garner, Gueye, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virgínia, Keane, Patterson, Coleman, Young, Onana, Hunt, Chermiti, Beto.

Everton byrjaði leikinn af mikilli ákefð, greinilega staðráðnir í að gefa Brighton engan frið á boltanum, vinna hann af þeim og bruna í skyndisókn. Brighton menn greinilega fyrirskipað að gefa langa bolta upp kantinn á vinstri kantmann sinn, Adingra. Engin dauðafæri fyrsta korterið en Brighton meira að hóta og miklu meira með boltann en aðallega samt í að vinna hornspyrnur sem ekkert kom úr.

Dunk með fyrstu tilraun sem rataði á rammann, skalli eftir horn en beint á Pickford sem greip boltann auðveldlega.

Doucouré komst í flott skotfæri inni í teig eftir sendingu af kantinum, einn á móti markverði en Dunk var fljótur til baka og potaði boltanum aftur fyrir endalínu áður en Doucouré náði skoti.

Calvert-Lewin fékk dauðafæri eftir að Mykolenko komst upp vinstri kant og gaf frábæran háan bolta fyrir mark. Calvert-Lewin mættur til að skalla inn en Dunk var á undan í boltann og skallaði rétt framhjá eigin marki í horn.

Everton nálægt því að skora undir lok fyrri hálfleiks, en varnarmaður bjargaði í horn en Doucouré ranglega dæmdur rangstæður í aðdragandanum.

0-0 í hálfleik.

Á 48. mínútu gerði Dyche breytingu á liðinu þegar hann setti Onana inn á fyrir Gueye. Vissulega þvinguð breyting, þar sem Gueye fann eitthvað til í nára (?). En strax tíu mínútum síðar var varamaðurinn Onana hársbreidd frá því að skora. Fékk háan bolta inn í teig frá vinstri og var óvaldaður hægra megin. Tók viðstöðulaust skot á mark, kom boltanum framhjá markmanni en varnarmaður rétt náði að skalla frá af marklínu. Besta færi leiksins fram að því.

Beto kom svo inn á fyrir Calvert-Lewin á 68. mínútu og hann fékk strax skallafæri upp við mark en náði ekki að stýra boltanum á mark. Brighton svöruðu með skoti á mark, en enn á ný beint á Pickford. Leikurinn svolítið að opnast og loksins kom markið.

Á 73. mínútu fékk Everton aukaspyrnu í eigin hálfleik og Pickford tók hana, sendi langan háan bolta inn í teig sem Brighton rétt náðu að stoppa með skalla. Boltinn féll hins vegar vel fyrir Branthwaite, sem var utarlega í teig vinstra megin og smurði boltanum upp í samskeytin hægra megin. 0-1 fyrir Everton!

Á 82. mínútu versnaði svo staða Brighton þegar Billy Gilmour var rekinn út af fyrir ljóta tæklingu á Onana.

Everton hamingjusamir með að sitja nokkuð djúpt og beita skyndisóknum. Í einni slíkri komst Beto í færi hægra megin í teig, stuttu síðar, eftir flott hlaup inn fyrir vörn Brighton. Var hins vegar eltur uppi af tveimur varnarmönnum og skotið slakt.

Ansu Fati með skot af löngu sem Pickford þurfti að hafa sig allan við að slá frá út við stöng. Young kom svo inn á fyrir Doucouré á 89. mínútu.

Níu mínútum bætt við og á 5. mínútu uppbótartíma gaf Everton horn og upp úr því skoruðu Brighton jöfnunarmarkið. Everton náði reyndar að hreinsa fyrirgjöfina úr horninu en boltinn beint til Brighton aftur utan teigs, og þeir sendu á kantinn og náðu þar fyrirgjöf sem Dunk skallaði inn alveg út við stöng hægra megin. Óverjandi.

Harrison fékk svo frábært skotfæri hægra megin í teig undir lokin en sneri boltanum rétt framhjá stöng vinstra megin. Það reyndist síðasta færi leiksins.

1-1 því niðurstaðan. Brighton áfram taplausir á heimavelli frá því í október en Everton aðeins hársbreidd frá því að rjúfa sigurlausa göngu sína undanfarið.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

12 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Ég segi aftur burt með Dyche, Everton getur ekkert einu sinni manni fleiri

  2. Diddi skrifar:

    “Ef þú getur ekki unnið leik, reyndu þá að tapa ekki” var stundum sagt, en af hverju þegar þú ert marki yfir og manni yfir á 81. mín setur þú ekki annan framherja inná og reynir að drepa leikinn frekar en að bíða í 10 mín og taka þá sóknartengilið útaf og setja gamlan bakvörð inná ? Dyche er algjör aumingi

  3. Þór skrifar:

    Everton ekki unnið í níu leiki! Þökk sé vörubílstjórafótbolta Dyche. Það er hrein tilvlijun að sjá liðið gefa þrjár sendingar á samherja í röð. Varla hægt að horfa á þetta rugl?

    • Diddi skrifar:

      Svo rétt, væri fróðlegt að sjá video af síðustu æfingu fyrir leiki. Hljóta að æfa hver getur sent boltann fjærst samherja

      • Orri skrifar:

        Sæll félagi.Maðurinn veit nákvæmlega ekkert hvað hann er að gera með liðið,hann veit greinilega ekki að það árið 2024.

  4. Diddi skrifar:

    Jæja þá erum við búin að fá 4stig til baka og erum í 15. Sæti með 25 stig! Ljómandi

    • Orri skrifar:

      Þetta hið besta mál.

      • Ari S skrifar:

        Bahhh…. það er nú bara Sean Dyche að kenna að við fengum ekki öll tíu til baka.

        • Orri skrifar:

          Sæll Ari minn.Èg hef nú ekki trú à að hann hafi eitthvað með að gera.

          • Ari S skrifar:

            Sæll Orri minn. Nei ekki ég heldur. Þetta var líka bara smá grín. Vonandi verður síðari refsingin ekki svona fúl heldur.

  5. AriG skrifar:

    Glæsilegt að fá 4 stig til baka. Frábært framtak hjá lögfræðingum Everton. Núna þurfa sóknarmenn Everton að fara að skora mörk. Vill setja Calvert Lewin á bekkinn næsta leik. Setja Chermiti inná í næsta leik. Svo má setja Beto inná í seinni hálfleik ef ekkert gengur að skora. Sean Dyche stendur sig eins og hetja og finnst mjög ósanngjarnt að skella skuldinni á hann á frekar slöppu gengi Everton á þessu ári. Hann hefur ekkert eytt í leikmenn síðan hann tók við. Ættum frekar að gagnrýna aðra fyrrverandi stjóra fyrir ofsaeyðslu í kaup á lélegum leikmönnum.

    • Ari S skrifar:

      Youssuf Chermiti og Nathan Patterson hafa verið fluttir í 21árs liðið til að fá sér leikæfingu. Nýjustu fréttir.