Manchester City – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og það er ærið verkefni sem Everton fær, þar sem þeir mæta Englandsmeisturum Manchester City á þeirra heimavelli.

Uppstilling: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Godfrey, Gana, McNeil, Garner, Young, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Coleman Onana, Chermiti, Hunt, Dobbin, Beto.

Sem sagt, enn er enginn Doucouré í hóp og því er Harrison (væntanlega) áfram í holunni fyrir aftan Calvert-Lewin og Young á hægri kanti með Godfrey fyrir aftan sig í hægri bakverði. 

Stór nöfn á bekknum hjá City í dag: Kevin De Bruyne, Jack Grealish, Kyle Walker og Bernardo Silva. Þulurinn benti á að Jack Grealish einn og sér hafi kostað jafn mikið og allt byrjunarlið Everton. (andvarp)

City menn þvinguðu Everton í lága varnarblokk strax frá upphafi leiks en gátu ekki brotið vörnina niður og það voru Everton sem voru tvisvar, á fyrstu 10 mínútunum, nærri því að komast í dauðafæri.

City menn með boltann 75-80% í fyrri hálfleik en áttu í mestu vandræðum með að finna sér leið gegnum vörn Everton, enda vinnusemi Everton til fyrirmyndar. Helst að Doku væri líflegur á kantinum en afgreiðslurnar frá honum inn í teig alltaf á Everton varnarmann og skotin (frá þeim öllum) í lappirnar á City manni. 

City því með enga tilraun sem rataði á mark í fyrri hálfleik. Everton með eina.

0-0 í hálfleik.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Á 54. mínútu dró til tíðinda þegar Godfrey þurfti að fara af velli. Þulirnir sögðu eitthvað um að hann væri með einhver flensueinkenni og Coleman kom inn á fyrir hann. Í kjölfarið komu De Bruyne og Walker inn á fyrir City, og þá hugsaði maður… Game over.

En City menn héldu áfram að streða og sköpuðu ekkert. Þangað til korteri seinna.

Því á 70. mínútu fengu City menn horn, sem þeir áttu ekki að fá — öll varnarlína Everton (að Pickford meðtöldum) réttu upp hönd til merkis um það að boltinn hefði farið af City manni (enda skallaði Calvert-Lewin boltann í hausinn á City manni og út af) en dómarinn á öðru máli. Há fyrirgjöf úr horni frá De Bruyne endaði í smá pinball inni í teig og boltinn barst til Haaland, utarlega í teig og hann tók skotið í fyrstu snertingu og þrumaði inn með viðkomu í Pickford. 1-0 fyrir City.

Onana og Beto skipt inn á fyrir Young og Calvert-Lewin á 78. mínútu. Bernardo Silva inn á fyrir City (andvarp).

Beto komst einn inn fyrir vörn City á 81. mínútu, eftir stungu frá Onana, en dæmdur rangstæður og hitti hvort eð er ekki markið.

Þulurinn hafði á orði á 85. mínútu að Everton væri að spila mun betri fótbolta og hann hafði varla sleppt orðinu þegar City menn komust í skyndisókn þar sem De Bruyne setti Haaland í hlaupaleiðina hjá Haaland með stungusendingu. Haaland hafði betur í baráttu einn á móti einum við Branthwaite, komst einn upp að marki og lagði boltann framhjá Pickford. 2-0 fyrir City.

Dobbin og Chermiti inn á fyrir Gueye og McNeil á 88. mínútu. Grealish inn á fyrir City.

Beto náði að koma tuðrunni í netið á 90. mínútu eftir fína stungusendingu frá Dobbin, en Beto augljóslega rangstæður og markið taldi því ekki.

10 mínútum bætt við og á 95. mínútu bættu City menn loksins við þriðja skotinu sem rataði á rammann í öllum leiknum, þegar Foden átti slakt skot af löngu færi sem Pickford þurfti ekkert að hafa fyrir.

City menn fengu eitt dauðafæri í lokin, þegar Bruyne fékk stungusendingu frá varnarmanni og var óvaldaður með bara Pickford fyrir framan sig, nokkuð langt út úr markinu. De Bruyne reyndi að vippa yfir hann, en boltinn rétt yfir slána.

2-0 sigur City staðreynd.

Fín frammistaða frá Everton heilt yfir í leiknum og synd að þeir skyldu ekki fá neitt fyrir sinn snúð. En það er svo sem engin skömm svo sem af því að tapa á útivelli fyrir besta liði Englands undanfarin ár.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (7), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Young (6), Garner (7), Gueye (7), McNeil (6), Harrison (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Coleman (6), Beto (5), Onana (6), Dobbin (6), Chermiti (6).

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Shocker!!

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er víst að vænta niðurstöðu frá „óháðu“ áfrýjunarnefndinni í þessari viku. Spennandi að sjá hvaða djöflasýru við fáum nú yfir okkur, því það er ekki séns í helvíti að það verði eitthvað jákvætt.