Everton – Luton 1-2 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik gegn úrvalsdeildarliði Luton ensku FA bikarkeppninnar kl. 15:00 í dag. Þetta var fjórða umferð keppninnar, eftir verðskuldaðan sigur á heimavelli gegn Crystal Palace á dögunum.

Þetta var jafnframt í fyrsta sinn síðan tímabilið 1980/81 sem Everton leikur við úrvalsdeildarlið í bæði þriðju og fjórðu umferð.

Uppstillingin: Virginia, Mykolenko, Tarkowski (fyrirliði), Branthwaite, Patterson, McNeil, Garner, Onana, Harrison, Beto, Calvert-Lewin.

Varamenn: Pickford, Lonergan, Keane, Godfrey, Young, Hunt, Danjuma, Dobbin, Chermiti.

Nokkuð sterkt lið en Virginia fær að halda sæti sínu í liðinu frá síðasta leik, sem var einnig FA bikarleikur. Athyglisvert að sjá Beto og Calvert-Lewin saman í framlínunni. Líklega 4-4-2 uppstilling af þessu að dæma, en nokkuð hefur verið kallað eftir því að Dyche prófi þá saman og það er bara hið besta mál. En þá að leiknum.

4-4-2 báðum megin vallar.

Everton var lengi í gang og Luton menn gengu á lagið og voru pínu skeinuhættir frá upphafi án þess að skapa sér almennileg tækifæri.

Beto fékk svo frábært skotfæri rétt utan teigs á 5. mínútu en skaut rétt framhjá stöng hægra megin. Hefði allavega átt að koma boltanum á mark.

Stuttu síðar komst McNeil einn innfyrir vörn Luton en línuvörður flaggaði rangstöðu, sem endursýning sýndi að var ansi tæpt og því hefði hann átt að láta VAR um málið eftir að McNeil skoraði.

Luton menn fengu dauðafæri á 23. mínútu eftir háa sendingu inn í teig utan af vinstri kanti og Adebayo náði skalla, en rétt framhjá vinstri stöng.

Beto fékk geggjað færi á 36. mínútu þegar boltinn fór í bakið á Luton manni, sýndist mér, og datt fyrir Beto fyrir framan mark en Luton varnarmaður gerði vel, náði að trufla hann og pota boltanum út af.

Skömmu síðar átti Mykolenko (McNeil) skalla að marki, en engin hætta.

Luton menn komu boltanum í netið á 40. mínútu eftir horn og markið var náttúrulega kolólöglegt því Barkley hrinti í bakið á Calvert-Lewin, sem reyndi að skalla frá, og boltinn því í Mykolenko og þaðan inn. Ekkert dæmt fyrir bakhrindinguna, skil þetta ekki. Símon Hooper að dæma. Íslenski þulurinn sannfærði áhorfendur að VAR myndi taka markið af þeim en ekki gerðist það. Ekkert minna en dómaraskandall.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Luton menn áttu frábært skallafæri á 51. mínútu, eftir horn. Náðu að skalla boltann nokkuð hátt út við stöng vinstra megin eftir háa fyrirgjöf, en Virginia varði glæsilega. McNeil reyndar tilbúinn að skalla frá á línu.

En á 55. mínútu náði Everton að jafna. Beto sendi frábæra sendingu frá miðju yfir á hægri kant, þar sem Harrison tók á móti honum, fíflaði varnarmann og hlóð í þrumufleyg utan teigs. Tim Krul í markinu náði að verja, en skotið svo fast að boltinn lak inn. 1-1! Game on!

Á 58. mínútu fékk Luton dauðafæri þegar Adebayo komst einn inn í teig með boltann og mætti þar Virginia. Reyndi frábært skot upp í vinkilinn hægra megin, en Virginia varði meistaralega! Aldeilis að vinna fyrir kaupi sínu.

Þeir fengu svo annað dauðafæri á 63. mínútu, komust framhjá Virginia í markinu, reyndu skot af stuttu færi, en Patterson hreinsaði af línu!

Beto komst í flott skotfæri á 73. mínútu, þegar hann fékk stungu inn fyrir. Maður hélt að færið væri dautt, en Beto gerði frábærlega í að skýla boltanum, halda færinu á lífi og ná skoti, sem þeir rétt náðu að blokka í horn.

McNeil og Calvert-Lewin út af fyrir Danjuma og Chermiti á 78. mínútu.

Beto fékk aftur gott færi inni í miðjum teig, þegar boltinn datt fyrir hann inni í teig en skotið frá honum fór yfir. Aftur hefði maður búist við meira frá honum.

5 mínútum bætt við og þegar 30 sekúndur voru eftir fengu Luton menn horn. Þið vitið að sjálfsögðu hvað gerist undir svoleiðis kringumstæðum.

1-2 Luton.

Eitt ólöglegt mark og eitt suckerpunch mark nóg til að fella Everton úr leik.

Jæja, þá er allavega hægt að einbeita sér 120% að deildinni.

7 Athugasemdir

 1. Eirikur skrifar:

  Er Harrison litblindur ☹️

 2. Finnur skrifar:

  Ný regla í fótbolta. Það má hrinda fyrrum liðsfélögum.

 3. Eirikur skrifar:

  Hvað viljum við sjá í seinni hálfleik? Breytingar á liðinu fljótlega? Eða bara gefa á samherja 🤔

 4. Eirikur skrifar:

  Það á semsagt ekki að skipta fyrr en við erum lentir undir.

 5. Eirikur skrifar:

  Sorry einn heima að horfa á boltan 🫣
  Beto vs DCL í dag?

 6. Eirikur skrifar:

  I raun bara sáttur að tapa úr því sem komið var, þurfa ekki að fara í auka útileik þegar við þurfum á öllu okkar að halda til að hanga uppi. Onana okkar besti maður í dag, Tarky eitthvað pirraður og vildi bara slást.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hjálpi mér allir heilagir!! Þetta Evertonlið er hryllilega lélegt og hefur ekki hugmynd um hvað það á að gera þegar Doucoure er ekki með.
  Þetta sigurmark Luton hefði auðvitað bara átt að vera jöfnunarmark en það þýðir ekki að væla yfir því, Evertonliðið átti bara að mæta af fullum krafti í þennan leik en ekki með hálfum hug eins og virtist vera raunin, sérstaklega í fyrri hálfleik og upphafi þess seinni.
  Það er áhyggjuefni að það virðist vera ómögulegt fyrir leikmenn Everton að senda boltann reglulega á samherja. Liðið er líka orðið lélegra í að verjast föstum leikatriðum, sérstaklega hornspyrnum og framávið gerist allt svo hægt og hikandi að liðið er ekki að skapa nein færi og þarf því að treysta á einstaka augnablik eins og varnarmistök í leikjum til að skora eða vinna.
  Við getum þakkað Virginia að þetta var ekki stærra tap í dag en Luton átti svo sem alveg skilið að vinna, þeir voru betri.