Crystal Palace – Everton 0-0 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Jæja, þá er stund milli stríða, allavega hvað úrvalsdeildina varðar, því nú er komið að ensku FA bikarkeppninni en Everton fékk erfiðan drátt hvað fyrsta leik varðar, útileik gegn úrvalsdeildarliði Crystal Palace.

Uppstillingin: Virginia, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Onana, Garner, McNeil, Harrison, Danjuma, Calvert-Lewin.

Varamenn: Pickford, Keane, Godfrey, Patterson, Gomes, Chermiti, Dobbin, Hunt, Beto.

Smá vesen á útsendingunni hjá mér aftur, en held ég hafi náð mestu.

Palace menn með fyrsta skot á mark, á 3. mínútu, en skotið slakt og þó Virginia varði það hefði það líklega farið framhjá marki. Danjuma með næsta skot, innan teigs vinstra megin á 16. mínútu, en í hliðarnetið utanvert (varið í horn).

Everton annars betra liðið í fyrra hálfleik en náðu ekki að brjóta niður varnarlínu Palace.

Á 27. mínútu voru Palace menn nokkuð heppnir þegar boltinn sigldi framhjá öllum eftir hornspyrnu, og endaði á að rata á rammann þar sem markvörður þurfti skyndilega að bregðast hratt við til að forðast mark, með því að hreinsa frá á marklínu.

Bæði lið fengu skotfæri undir lok fyrri hálfleiks. Crystal Palace menn skutu rétt yfir mark en Garner, hinum megin, náði skoti á rammann, sem var blokkerað af aftasta varnarmanni.

Smá líf í Palace mönnum undir lok fyrri hálfleiks, en engin færi til að tala um.

0-0 í hálfleik.

Engin breyting á liðunum í hálfleik en Everton var líka betra liðið í seinni hálfleik og mun líklegri til að skora.

Garner átti fyrsta skot seinni hálfleiks þegar hann reyndi sveig upp í hægra hornið af löngu færi en boltinn framhjá marki. Engin hætta. Hinum megin náði Eze skot á mark Everton, en Virginia sló það í horn sem ekkert kom úr.

Calvert-Lewin komst í mjög gott færi á 63. mínútu þegar miðjumaður Everton náði að blokka bolta frá miðjumanni Palace og beint í hlaupaleiðina hjá Calvert-Lewin en Henderson í marki Palace náði að verja skotið í horn (sem Everton náði ekki að nýta). Danjuma fékk svo skotfæri utarlega hægra megin í teig, eftir snögga sókn Everton á 74. mínútu, en skotið varið.

Á 79. var dómarinn svo skyndilega sendur í VAR sjána til að skoða tæklingu frá Calvert-Lewin sem við fyrstu sýn virtist vera frábærlega útfærð. Ekki nokkur sála á staðnum, hvorki dómarinn, aðstoðardómararnir, andstæðingurinn eða þá áhorfandi hafði séð neitt athyglisvert við tæklinguna en dómarinnn gaf Calvert-Lewin rautt eftir skoðun í VAR sjánni. Þetta var afar ströng túlkun á reglubókinni og manni fannst vanta alla skynsemi í þetta hjá VAR dómaranum. Vissulega rétt snerti hann fótinn á Palace manninum en það var nákvæmlega engin kraftur í tæklingunni og mér sýndist Palace maðurinn ekki sýna nein viðbrögð! 

Maður veltir líka fyrir sér — hvenær ætla dómarar að hafa kjark til að segja, „takk fyrir endursýninguna, en veistu… ég held ég hafi haft rétt fyrir mér þegar ég dæmdi ekkert“. Lesendur vita að ég er mikill VAR-kall, en þetta finnst mér vera misnotkun á VAR tækinni, ég verð bara að segja það. Það eru allavega fyrstu viðbrögð og ég þarf að sjá þetta aftur.

Everton því manni færri. þegar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, og Beto kom inn á fyrir Danjuma strax þar á eftir. Stuttu síðar kom Gomes inn á fyrir McNeil sem meiddist, að því virtist illa. 

9 mínútum bætt við en ég missti eiginlega af þeim öllum, því miður. En Everton landaði jafntefli, sem verður að teljast afar frústrerandi niðurstaða miðað við yfirburðina og var keypt dýru verði (rautt spjald á Calvert-Lewin og meiðsli á McNeil). Ekki eins og liðið megi við því.

Minnir að Sky Sports gefi ekki út einkunnir leikmanna fyrir bikarleiki. Held að það yrði ekki fallegt, allavega ekki fyrir leikmenn Palace.

9 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Mjjög athyglisvert að sjá Virginia byrja. Vonandi er hann orðinn það góður að hann eigi skilið að fá séns.

    COYB!

  2. Eirikur skrifar:

    Jæja skipta inná takk.

  3. Þór skrifar:

    Enn ein snargeðveika VAR ákvörðunin!

    Hvað er í gangi með enskan fótbolta?

  4. Þór skrifar:

    Enn ein snarklikkaða VAR ákvörðunin!

    Hvað er í gangi með enskan fótbolta?

    • Ari S skrifar:

      Þetta er allt orðið mjög skrýtið. Furðulegt að þetta skuli hafa verið dæmt rautt á DCL. Og það í VAR!

      Fyndin skammstöfunin á VAR…

      Video Assistant Referee.

  5. Þór skrifar:

    Dómarinn stóð 500 cm frá atvikinu og dæmdi ekki einu sinni brot!

    Þessi tækni átti að fækka mistökum – í staðinn hefur bara sýnt fram á að enskur fótbolti í dag snýst bara um peniga.

    Er Everton gróft lið? 13 rauð spjöld á síðustu þrjú og hálft tímabil! (Eitt and andstæðinga Everton).

  6. Eirikur skrifar:

    Því miður ( eflaust veit Dyce hvað hann er að gera) þá gerum við ekki skiptingar fyrr enn of seint. Hefði viljað sjá DCL og McNeil fara af velli eftir um 60 mín og jafnvel Harrison og nýta það að við vorum mun betri enn Palace. Við erum oft ekki nógu klókir á síðasta þriðjung vallarins. Gaman að sjá Colemann skila 90 mín og vonandi er í lagi með McNeil. Tarky var óvenju slakur enn Branthwaide okkar besti maður. Enn við fáum annan séns og þá klárum við Palace. Þurfums nauðsynlega að fá Doucoure til baka sem fyrst.

  7. Finnur skrifar:

    Þá er komið í ljós hver næsti leikur verður, ef Everton vinnur Crystal Palace á Goodison Park í FA bikarnum:

    Everton myndi þá mæta Luton Town eða Bolton Wanderers (úr C deildinni) og leikið yrði á heimavelli Everton í lok þessa mánaðar.