Everton – Man City 1-3

Mynd: Everton FC.

Það var risaleikur á dagskrá í 19. umferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar Everton tók á móti nýkrýndum heimsmeisturum Manchester City kl. 20:15 á Goodison Park. Verkefnin gerast líklega ekki stærri en þetta, nema kannski ef frá er skilinn útileikurinn við sama lið.

Það kom á óvart að Calvert-Lewin var á bekknum fyrir leik en Beto kom inn fyrir hann. Það kom hins vegar minna á óvart að Gomes var í byrjunarliðinu, en hann kom óvænt inn — og átti stórleik — í tapleiknum á útivelli við Tottenham á dögunum, sem reyndist vera rán um hábjartan dag.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, Onana, McNeil, Garner, Harrison, Gomes, Beto.

Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Coleman, Hunt, Danjuma, Dobbin, Chermiti, Calvert-Lewin.

Lítið að gerast framan af í leiknum, en svo fengu City menn dauðafæri á 14. mínútu, þar sem Alvarez komst í ákjósanlega stöðu fyrir framan mitt markið, en Pickford varði glæsilega frá honum í tvígang.

Grealish reyndi svo lúmskt skot á 23. mínútu, innan teigs með tánni, en Pickford vel á verði.

Everton komst hins vegar yfir, gegn Englandsmeisturunum, á 28. mínútu þegar Rodri átti slæma sendingu aftur á varnarmann, sem McNeil komst inn í (rétt utan teigs), brunaði í gegnum varnarlínuna til að ná til boltans, og fór að endalínu vinstra megin. Þar sendi hann fyrir og hver annar var mættur en Harrison til að pota inn. Kantmennirnir okkar að ná vel saman. 1-0 fyrir Everton!

Everton fékk horn stuttu síðar, sem Gomes tók. Sendi háan bolta inn í teig, sem Harrison fékk og hlóð í einn þrumufleyg í samskeytin uppi vinstra megin en Ederson með geggjaða vörslu með fingurgómunum. Þar hefði staðan alveg getað verið 2-0 fyrir Everton.

Beto var næstur í færi strax þar á eftir, eftir langa sendingu fram frá Pickford en Stones náði að hreinsa rétt áður en Beto lagði boltann framhjá Ederson. Stones fór svo meiddur út af í kjölfarið.

Loftið fór hins vegar svolítið úr City blöðrunni við þetta og hálfleikurinn (og fjórar mínútur í uppbótartíma) fjöruðu út.

1-0 í hálfleik. Engin breyting á liðunum.

Ekkert að gera fyrstu mínútur seinni hálfleiks en á 52. mínútu fékk Foden boltann vel utan teigs, Patterson gat valið úr þremur mönnum til að dekka og valdi Foden (sem var með bolta) seint, kannski skiljanlega enda menn í dauðafæri bak við hann. Foden, hins vegar, hlóð í skot og smellhitti boltann af löngu færi í hornið niðri hægra megin (frá þeim séð). Jafnt, 1-1. Mjög svekkjandi mark upp úr engu. City menn áttu svo annað skot á mark á 60. mínútu, beint úr aukaspyrnu, en Pickford varði í innkast.

En á 62. mínútu fengu City menn víti þegar þeir áttu skot (sem mér sýndist vera að sigla vel framhjá marki) en fór í hendina á Onana, sem var með höndina yfir öxlinni (sem er eiginlega alltaf víti). Dómarinn þar með alltaf að fara að dæma víti og engin leið fyrir VAR að grípa inn. Alvarez fór á punktinn og setti boltann í mitt markið en Pickford reyndar ekki langt frá því að setja fótinn í boltann. En inn fór hann og staðan því orðin 1-2.

Gomes og Beto fóru strax í kjölfarið út af fyrir Calvert-Lewin og Keane en 25 mínútur eftir fyrir Everton að reyna að jafna metin.

Calvert-Lewin fékk dauðafæri á 75. mínútu, tíu mínútum síðar, eftir sendingu frá Harrison, en boltinn endaði rétt framhjá marki. City menn mjög heppnir þar og þetta var ákveðinn vendipunktur í leiknum. Hefði verið athyglisvert að sjá hvað hefði gerst ef Everton hefði jafnað þar.

Harrison fór svo út af fyrir Danjuma á 80. mínútu en City menn fengu mark á silfurfati á lokamínútunum. Pickford var aðþrengdur inni í teig vinstra megin (frá okkur séð), lék út úr teig og reyndi hreinsun, sem City maður rétt náði að setja fótinn fyrir til að breyta stefnu boltans. Boltinn hrökk svo af fætinum á Branthwaite og þaðan í hlaupaleiðina hjá Silva, sem þurfti bara að leggja hann í autt netið. City menn mjög heppnir þar og staðan orðin 1-3.

Þeir náðu einu skoti í stöng og út eftir lok venjulegs leiktíma en svo tók reitaboltinn bara við hjá þeim. Foden náði skoti á mark af löngu færi, sem Pickford sló frá, en lítið að frétta annað. Sérstaklega í sóknarleik Everton undir lokin.

1-3 niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Patterson (6), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Andre Gomes (6), Onana (6), Harrison (8), Garner (6), McNeil (7), Beto (5). Varamenn: Keane (6), Calvert-Lewin (6), Danjuma (6).

5 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Mjög flott frammistaða í fyrri hálfleik!

 2. Eirikur skrifar:

  Mikil vinnusemi og vel upp settur leikur. Nú er bara að halda hreinu🤗 Væntanlega kemur DCL inn fyrir Beto eftir 15-20 mín í seinni. Beto búinn að standa fyrir sínu eins og allt liðið.

  • Ari S skrifar:

   Hjartanlega sammála með vinnusemina Eiríkur, nú krossleggur maður fingur 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Svekkjandi úrslit. Fín barátta, hefði viljað sjá hvað myndi gerast ef Calvert-Lewin hefði jafnað, en svona er þetta stundum.

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Frekar fúlt. Ég spáði okkur reyndar sigri í þessum leik í einhverju fáránlegu bjartsýniskasti, ég geri það ekki aftur enda á maður að vita það að Evertonmenn geta ekki leyft sér slíkan munað sem bjartsýni er, hún er fyrir einhverja aðra.

Leave a Reply