Tottenham – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 18. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og í þetta skiptið er það strembin viðureign við Tottenham á þeirra heimavelli. Nóvember og fyrri helmingur desember reyndust Tottenham mjög erfiðir, þar sem þeir töpuðu fjórum og gerðu eitt jafntefli (jafntefli við City en töpin voru gegn Chelsea heima, Wolves úti, Aston Villa heima og West Ham heima). Þeir virðast þó komnir á beinu brautina aftur eftir sigur á löskuðu liði Newcastle (heima) og Nottingham Forest (úti). Á móti reyndar benda á að gengi Everton í síðustu fimm leikjum í deild, eftir fjóra sigurleiki í röð, er á við liðin í efstu þremur sætum deildarinnar (12 stig af 15 mögulegum).

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, Gana, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Godfrey, Keane, Gomes, Hunt, Danjuma, Chermiti, Beto.

Það er nokkuð högg að sjá að Doucouré er enn meiddur en hann er markahæstur í liði Everton í augnablikinu og þar munar um minna. Mykolenko og Gomes voru hins vegar metnir góðir af sínum meiðslum; Mykolenko fer beint í byrjunarliðið en Gomes er á bekknum. Jarrad Branthwaite tekur einnig stöðu sína í miðverðinum og því eru Keane og Godfrey á bekknum.

Hjá Tottenham eru Micky van de Ven, James Maddison, Rodrigo Bentancur, Ivan Perisic og Manor Solomon allir frá vegna meiðsla en Yves Bissouma og Destiny Udogie eru í leikbanni.

Ritari átti í smá vandræðum með útsendinguna í fyrri hálfleik og sá t.d. bara glefsur af fyrstu mínútunum. Sá að Tottenham átti fyrsta skotið, sem var utan teigs, en boltinn í jörðina (sem tók allan kraft úr skotinu) og Pickford greip auðveldlega. Mykolenko, hinum megin teigs, átti skot af veikari fæti sínum og því lítil hætta.

En á 9. mínútu skoraði Richarlison eftir vel útfærða sókn frá Tottenham. Komust aftur fyrir Mykolenko og sendu lágan bolta fyrir mark þar sem Richarlison komst aftur fyrir Tarkowski og setti boltann í netið í fyrstu snertingu af stuttu færi. 1-0 fyrir Tottenham. Þeir voru svo næstum búnir að tvöfalda forskotið með nákvæmlega eins marki, í þetta skiptið upp vinstri kantinn, en skotið yfir slána.

Calvert-Lewin fékk dauðafæri á um 15. mínútu eftir háa sendinginu frá Mykolenko af vinstri kanti. Calvert-Lewin náði ágætis skalla á mark, en markvörður varði vel.

Tottenham bættu svo við marki á 18. mínútu eftir smá sofandahátt í vörn Everton eftir horn. Pickford varði skot á mark með því að slá boltann frá, en beint til Son sem þrumaði inn. 2-0. Smá heppnir þar.

Á 24. mínútu meiddist Gana eftir að hafa tæklað Richarlison. Gomes kom inn á fyrir hann.

En Everton færði sig upp á skaftið eftir því sem leið á og setti góða pressu á mark Tottenham, sérstaklega undir lok fyrri hálfleiks. Garner átti t.d. lágt fast skot af nokkuð löngu færi á 35. mínútu en markvörður náði að kasta sér fyrir það. Harrison komst í skyndisókn og var fremstur um tíma en þeir náðu að hlaupa hann uppi og stöðva skotið. McNeil komst inn í teig, umkringdur varnarmönnum, og mér sýndist hann vera tæklaður — ekki viss, og sá ekki endursýninguna. Tottenham menn voru mjög mistækir í vörninni, sérstaklega undir lokin, en Everton náði ekki að nýta sér það.

Rétt fyrir lok hálfleiks hefði Everton klárlega getað fengið víti þegar Kulusevski hékk í skyrunni á Onana eftir horn. Þulirnir höfðu á orði að ef hann hefði bara látið sig detta hefði verið auðvelt fyrir dómara að dæma víti.

2-0 í hálfleik.

Everton skoraði snemma í seinni hálfleik, þegar Gomes vann boltann af miðjumanni Tottenham, sendi strax á Calvert-Lewin inn í teig sem lagði boltann í hliðarnetið vinstra megin, framhjá markverði. 2-1? Nei, það kom í ljós í endursýningu að Gomes hafði brotið á Tottenham manninum. Frekar soft brot samt — Tottenham menn margir hverjir með brauðfætur.

Garner komst í dauðafæri hægra megin í teig á 62. mínútu eftir að Harrison setti hann inn fyrir. Svipað færi og Calvert-Lewin fékk og Garner náði fínu skoti, sem virtist ætla að stefna í hliðarnetið en fór í stöngina og út. Því miður þannig dagur í dag. Fullt af færum en inn vildi boltinn ekki.

Danjuma kom svo inn á fyrir Harrison á 66. mínútu og hann átti eftir að lífga frekar upp á sóknarleik Everton undir lokin.

Kulusevski fékk reyndar færi í millitíðinni, á 75. mínútu, eftir að hafa brotið á Patterson, komst inn í teig og náði skoti, en Pickford varði vel í horn, sem ekkert kom úr. 

Beto kom svo inn á fyrir Onana á 79. mínútu, þannig að Dyche blés til sóknar síðustu 10 mínúturnar, enda virkaði vörn Tottenham brothætt.

Everton fékk horn á 82. mínútu sem var hreinsað frá marki, en ekki lengra en til Gomes sem var við vítateigshornið hægra megin og hlóð í algjöran þrumufleyg í hliðarnetið vinstra megin. 2-1!! Game on!

Everton miklu hættulegri aðilinn það sem eftir lifði leiks. Danjuma komst í dauðafæri vinstra megin í teig, eftir geggjaðan bolta fram frá McNeil. Náði skoti á markið en markvörður Tottenham rétt svo náði að slá yfir. Heppnir þar.

Danjuma fékk annað færi inni í teig eftir frábæra sendingu frá Gomes upp völlinn, en setti boltann yfir markið. Hefði átt að gera mun betur þar.

En Danjuma var ekki hættur og McNeil ekki heldur, því sá síðarnefndi var utan teigs hægra megin rétt fyrir leikslok og sendi frábæran háan bolta frá hægri yfir á fjærstöng, sem Danjuma náði að stýra í neðanverða slána og — að mér sýndist — inn í markið, í lærið á markverði og svo út aftur. Spurning um einhverja millimetra mögulega en línuvörður flaggaði rangstöðu og þulirnir minntust á að kannski hafi þetta þess vegna ekki verið skoðað í VAR. Stuttu síðar var leikurinn flautaður af. Uppfært (daginn eftir): Sá loks endursýninguna og það mátti bara hársbreidd muna að Everton næði að jafna, en boltinn fór ekki allur yfir línuna.

Ótrúlegar lokamínútur en inn vildi boltinn ekki og Tottenham menn stálheppnir að landa þremur stigum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Patterson (6), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Harrison (5), Onana (5), Gueye (6), Garner (7), McNeil (7), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Gomes (7), Danjuma (5), Beto (6).

Maður leiksins: markvörður Tottenham.

8 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Fáum aldrei neitt þarna, vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

 2. Eirikur skrifar:

  Ánægjulegt að sjá Gomes koma inná, og strax farinn að sína hvað hann hefur fram að færa. Mætti taka Onana af velli og setja t.d Godfrey inn á miðjuna eða Dobbin á kantinn og svo mætti setja Beto inná eftir 15 mín í seinni.Held að við fáum ekkert út úr þessum leik því miður, 2-0 er of mikið enn við vonum það besta🤗

 3. Ari S skrifar:

  Sá ekki mikið afþeim fyrri en hver vegna fór Gana Gueye útaf?

 4. Diddi skrifar:

  Dómarinn fær lægstu einkunn, Gomes var frábær í dag en Danjuma virðist vera sami aulinn og gray, er ekki að spila fyrir liðið, heilt yfir sáttur samt

 5. Eirikur skrifar:

  Gana meiddi sig við að brjóta af sér. Sérstakt að dómari og línuvörður sjá vel þegar Gomes vinnur boltann en samt þarf Var að hafa aðra skoðun. Og dómarinn stendur ekki við sína ákvörðun☹️ En Gomes kom vel inn í þetta, Danjuma vildi of mikið skora á móti því liði sem hann var hjá. Vonandi lærir hann af því, annars var ég nokkuð sáttur eftir að hafa lent undir.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hryllileg óheppni að taka ekki amk stig í dag.
  Vinnum bara City á miðvikudaginn.

 7. Finnur skrifar:

  Enn á ný er Everton með hærri Expected Goals stuðul en andstæðingurinn þó að stigin endurspegli það ekki. Svona er þetta stundum en þetta er ekki alslæmt — sérstaklega þar sem þetta var á útivelli gegn sterku liði.

  Gomes kom hins vegar skemmtilega á óvart í dag enda var ég eiginlega búinn að afskrifa hann. Það er auðvelt að líta á hann sem hálaunaðan mann sem er bara að gera sér upp meiðsli til að klára restina af samningi sínum, en hann stimplaði sig inn með eftirminnilegum hætti.

 8. Diddi skrifar:

  Er ekki Gomes að spila fyrir nýjum samningi eða sölu í janúar? Óttast það. Ef hann fær nýjan samning þá leggst hann niður og deyr. Ekkert nýtt yndir sólinni. Vonandi hef ég rangt fyrir mér (eins og oftast) og hann er kominn til baka sem nýr og bættur liðsmaður! Gleðileg jól

Leave a Reply