Burnley – Everton 0-2

Mynd: Everton FC.

Everton á leik í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag og kemur Sean Dyche til með að stýra liði Everton gegn sínum fyrri atvinnurekendum, Burnley, á heimavelli þeirra. Þær fréttir bárust af því fyrir leik að Burnley hefðu bannað spjöld í stærð A4 á leikvangi sínum, sem er augljós tilraun til að kæfa mótmæli stuðningsmanna Everton gagnvart ensku úrvalsdeildinni. Bentu á að „hægt væri að kaupa leyfilega fána í Burnley-búðinni við völlinn“. Einmitt. Flautað verður til leiks kl. 17:30.

Nokkrir eru fjarverandi í dag en Gueye og Branthwaite eru í leikbanni og Coleman og Young meiddir. Dele og Gomes eru einnig frá.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Tarkoswki (fyrirliði), Patterson, Garner, McNeil, Onana, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Campbell, Metcalfe, Hunt, Dobbin, Danjuma, Chermiti, Beto.

Ritari horfði á leikinn án hljóðs á litlum írskum pöbb í Dublin, þannig að afsakið villur – ef einhverjar.

Þetta var erfið byrjun á leiknum, Burnley menn mikið með boltann í upphafi og Everton komst varla fram yfir miðju til að byrja með. Fyrsta færið samt Everton megin, þar sem McNeil skallaði rétt framhjá fjærstöng hægra megin eftir háa fyrirgjöf. Burnley menn stálheppnir þar.

Patterson og Harrison náðu vel saman á hægri kanti stuttu síðar, og sá síðarnefndi sendi háan bolta fyrir, beint á pönnuna á Calvert-Lewin. Hann náði frábærum skalla á mark, sem markvörður þeirra varði með undraverðum hætti í horn. McNeil tók hornið, sendi háan bolta fyrir og þar stökk Onana manna hæst og skallaði inn. 0-1 fyrir Everton! 

Everton fékk aukaspyrnu á 25. mínútu, og Pickford sendi varnarmenn sína inn í teig Burnley, áður en hann sendi háan bolta upp völlinn. Þar fann hann Tarkowski, utan teigs, sem skallaði áfram í hlaupalínuna hjá Keane, sem komst inn í teig og reyndi skot. Skotið var varið, en boltinn barst til hans aftur og honum brást ekki bogalistin í seinna skiptið og setti boltann í netið. 0-2 fyrir Everton! 

Ekki mikið markvert að frétta eftir þetta. Everton með undirtökin, þó Burnley væru mikið með boltann. Leikmenn Everton voru eins og býflugur um allan völl í hápressunni og Burnley menn ekkert að höndla það sérstaklega vel.

Rétt fyrir lok hálfleiks fengu Burnley menn algjört dauðafæri. Komust aftur fyrir vörnina hægra megin, frá þeim séð, og sendu frábæran bolta fyrir teig. Rétt á milli varnar og markvarðar, sem tók Pickford út úr myndinni. Sóknarmaður þeirra sem ætlaði að taka við boltanum þurfti bara að pota í boltann til að setja hann í opið markið, en hver var þar mættur, annar en Godfrey, í skriðtæklingu sem gerði honum kleift að bjarga í horn. Maður trúði varla eigin augum.

0-2 í hálfleik.

Ein breyting í hálfleik. Dobbin inn á fyrir Doucouré, sem líklega fékk högg.

Burnley menn mættu virkilega einbeittir til leiks í seinni hálfleik, en varð litið áleiðis, enda að mæta Everton vörn sem hafði ekki fengið á sig mark þrjá leiki í röð. Allt í járnum.

Á 63. mínútu hefði Keane getað skorað sitt annað mark í leiknum og þriðja mark Everton. Hornspyrna frá McNeil frá vinstri, frá Everton séð. Kraðak í teignum, markvörður missti af boltanum, sem barst til Keane upp við endalínu og hann reyndi að skófla boltanum inn, en í stöng og út. Þaðan fór boltinn til varnarmanns Burnley, sem mér sýndist reyna það sama – setti boltann aftur stöngina. Heppnir þar.

Burnley menn reyndu skot af löngu færi strax í kjölfarið og Pickford þurfti aldeilis að taka á honum stóra sínum og slá þann yfir markið. Stefndi í glæsimark! Ekkert kom úr horninu.

Lítið að frétta í sóknarleik Burnley eftir það þangað til á 79. mínútu, þegar þeir náðu þrumufleyg í tréverkið og út — samskeytin sýndist mér.

Beto inn á fyrir Calvert-Lewin á 82. mínútu. En Burnley menn höfðu engin svör við sterkri frammistöðu Everton í kvöld. Everton líklegra til að bæta við en Burnley að minnka muninn.

Beto komst í færi stuttu eftir lok venjulegs leiktíma en markvörður náði að koma út og loka á skotið.

Þremur mínútum bætt við. Burnley menn reyndu enn eitt langskotið en vel framhjá og þar með fjaraði út von þeirra. Tveggja marka sigur Everton staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Patterson (7), Tarkowski (8), Keane (8), Godfrey (7), Harrison (7), Onana (7), Garner (7), McNeil (7), Doucoure (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Dobbin (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports: Michael Keane.

10 Athugasemdir

  1. Albert skrifar:

    Verður erfiður leikur. Þeir þekkja sinn gamla stjóra! Vonandi verður sami andinn yfir liðinu eins og síðustu leiki. ekki veitir af.

  2. Eirikur skrifar:

    Hvað finnst mönnum um DCL? Finnst vanta einhvern neista og ákefð í hann. Heillar mig ekki. Vona að hann setji sokk upp í mig og skori í dag.Gott mark hjá Onana og Burnley ekki sannfærandi.

    • Ari S skrifar:

      Mér finnst DCL oftast nokkuð góður. Hann er einn af þeim sem að eru sívinnandi og hleypur vel. Virkar fínt í þessa hreyfanlegu pressu sem að til dæmis markið fyrsta kom upp úr. Ef við værum með sterkara lið þá myndi hann sennilega hreyfa sig minna og „bíða“ eftir boltanum. DCL er ekki svoleiðis í þessu liði.

  3. Ari S skrifar:

    Frábær pressa hjá okkar mönnum sem að leiddi til þess að DCL átti flottan skalla og upp úr því hornspyrna sem að Onana hamraði boltanum í netið. Vel gert Everton!

  4. Eirikur skrifar:

    Eflaust þarf DCL bara að ná að setja 1 til 2 mörk og þá dettur hann í gírin.

    • Ari S skrifar:

      Núverandi „velgengni“ liðsins byrjaði þegar DCL hætti að vera meiddur. Er það tilviljun að þa gerist á sama tíma? Nei held ekki.

  5. Kiddi skrifar:

    Flottur fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum, Onana og Harrison góðir. Vinnuframlag allra til fyrirmyndar.
    Get varla beðið eftir seinni hálfleik 😂😂

  6. Eirikur skrifar:

    Michael Keane maður leiksins🤪 Baráttan til fyrirmyndar 🤗

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Flottur sigur og góð frammistaða hjá öllu liðinu, meira að segja ekkert hægt að kvarta yfir Keane og Godfrey. Hvar var Mykolenko?
    Erfitt að velja mann leiksins í dag þar sem mér fannst enginn standa upp úr en kannski Onana eða Garner.

  8. Finnur skrifar:

    Tveir í liði vikunnar að mati BBC (Tarkowski og Onana):
    https://www.bbc.com/sport/football/67747397?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA