Everton – Chelsea 2-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og í þetta sinn mæta Chelsea á Goodison Park, en flautað verður til leiks kl. 14:00 að íslenskum (og breskum) tíma.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, McNeil, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Godfrey, Patterson, Hunt, Onana, Danjuma, Dobbin, Chermiti, Beto.

Sem sagt, Coleman ekki í hóp eftir að hafa meiðst í 3-0 sigurleik gegn Newcastle í síðustu umferð en Garner kom inn í byrjunarliðið fyrir hann og Young því í hægri bakverði. Onana var orðinn nægilega góður af sínum meiðslum til að taka sér stöðu á bekknum.

Það var ágætis kraftur og ákefð í leik Everton frá upphafi þrátt fyrir að hafa fengið degi minna í hvíld frá síðasta leik en Chelsea menn. Það voru hins vegar Chelsea menn sem fengu fyrsta færið, þegar Mudryk komst inn fyrir Young, vinstra megin í teig (frá þeim séð). Hann komst þó ekki langt, því hann var stoppaður af og þurfti að gefa út á félaga sem kaup á hlaupinu inn í teig og náði skoti. Pickford var hins vegar vel á verði og varði út í teig. Sami maður fékk frákastið en hann skaut vel bæði yfir og framhjá marki í annarri tilraun.

Everton náði ágætis skyndisókn á 6. mínútu sem endaði með því að Harrison sendi flottan bolta fyrir frá hægri, mitt á milli varnarlínu og markvarðar, en Calvert-Lewin ekki nógu framarlega til að pota inn.

Everton hafði greinilega verið uppálagt að nota hápressu á varnarlínu og þá sérstaklega markvörð Chelsea, enda höfðu þeir höndlað svoleiðis pressu mjög illa í síðasta leik þeirra. Í eitt skiptið náði Calvert-Lewin að setja svo mikla pressu á markvörð, alveg upp við marklínu, að maður sá fyrir sér að markvörður myndi sparka boltanum í lappirnar á Calvert-Lewin og þaðan færi hann inn. En markvörður rétt náði að hreinsa (í innkast ef ég man rétt).

Cole Palmer átti svo nokkuð gott skot af löngu færi, fyrir utan teig, eftir horn sem var tekið stutt, en Pickford, aftur, vandanum vaxinn. 

Harrison reyndi sömuleiðis skot af löngu færi hinum megin, á 25. mínútu. Fékk til sín skallahreinsun út úr teig og náði viðstöðulausu skoti sem fór rétt framhjá stöng hægra megin. Sanchez, í marki Chelsea, hefði líklega ekki komið neinum vörnum við ef Harrison hefði hitt örlítið betur.

Young út af fyrir Patterson á 41. mínútu og Everton setti fína pressu á vörn Chelsea það sem eftir lifði hálfleiks. Fengu meðal annars tvö horn í röð en náðu ekki að nýta sér það.

0-0 í hálfleik.

Sean Dyche gerði eina breytingu í hálfleik þegar Onana kom inn á fyrir Gana, sem var á gulu spjaldi. Chelsea menn voru búnir að vera mikið með boltann í fyrri hálfleik og það hélt áfram í seinni hálfleik, án þess þó að þeir næðu að skapa mikið.

Þeir fengu þó í seinni hálfleik, líkt og í fyrri hálfleik, fyrsta færi hálfleiksins, sem var langskot sem Pickford var ekki í neinum vandræðum með. McNeil átti hins vegar mun betra skot hinum megin, var alveg við D-ið og reyndi lágt fast skot sem Sanchez þurfti að hafa sig allan við að verja í horn, með útrétta hönd alveg út við stöng niðri vinstra megin (frá okkur séð).

Á 54. mínútu komst Everton svo í skyndisókn. McNeil fékk boltann á vinstri kanti og hóf sprettinn. Gerði vel í að hrista af sér brot varnarmanns, sem reyndi að stoppa hann og sendi frábæra stungusendingu inn fyrir vörnina, í hlaupaleið Calvert-Lewin. Hann náði skoti á mark, en beint í kassann á markverði Chelsea, og út í teig aftur þar sem Doucouré lúrði, í sínum 100. leik fyrir félagið. Hann var hægra megin í teig og fagnaði þeim áfanga með því að setja boltann, af nokkuð löngu færi, framhjá markverði og í hornið niðri vinstra megin. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton.

Chelsea settu aukna pressu á Everton í framhaldinu en varnarvinna Everton var mjög góð allan leikinn. Næsta færi leiksins fékk svo Everton, eftir fyrirgjöf frá hægri, frá Harrison, þar sem Beto skallaði á mark á 75. mínútu. Hann hafði komið inn á fyrir Calvert-Lewin á 67. mínútu.

Cucurella reyndi skot af löngu færi strax í næstu sókn Chelsea en skotið var lágt og beint á Pickford. Engin hætta. Chelsea menn juku pressuna eftir því sem leið á en Everton vörnin hélt vel. Alltaf var leikmaður á réttum stað til að blokkera skot eða stoppa hlaup og nokkrum sinnum var maður með hjartað í buxunum eftir það sem leit út fyrir að vera stórhættuleg tækling inni í teig, en reyndist alltaf vera fullkomlega lögleg tækling.

Harrison var svo skipt út af fyrir ungliðann, Dobbin, á 86. mínútu, og hann átti síðasta orðið.

Sjö mínútum hafði verið bætt við þegar Everton fékk hornspyrnu á 92. mínútu. Hár bolti fyrir mark sem varamarkvörður Chelsea (sem hafði komið inn á fyrir Sanchez skömmu áður) náði bara að slengja hendi í. Boltinn barst út í teig til Lewis nokkurs Dobbin, sem var nýkominn inn á og hann þrumaði boltanum í netið. Staðan því orðin 2-0 fyrir Everton og Dobbin að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið!

Eftir það þurfti bara að loka leiknum með því að vængstífa Chelsea, sem höfðu engin svör við sterkum varnarleik Everton. Everton landaði þar með geggjuðum og verðskulduðum sigri á Chelsea í dag. Þetta var þriðji sigur Everton í röð, eftir að hafa unnið Newcastle og Nottingham Forest í síðustu leikjum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (5), Tarkowski (7), Branthwaite (7), Mykolenko (8), Harrison (6), Gueye (6), Garner (7), McNeil (7), Doucoure (8), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Patterson (6), Onana (6), Beto (6), Dobbin (8).

Maður leiksins, að mati Sky, var Mykolenko. Enginn í liði Chelsea náði yfir 6 í einkunn og það var slatti af fimmum til að dreifa.

12 Athugasemdir

  1. Thor skrifar:

    Stórkostlegt!!!

    Everton eru ódrepandi hafi e-r efast.

  2. Diddi skrifar:

    Flottur leikur og liðsheildin maður minn. Það sagði einn púlari vinur minn að eftir stigatapið þjöppuðu menn sér saman og ynnu alla leiki, nálguðust toppinn hægt og sígandi, svo yrði áfríunin afgreidd í maí og þá fengjum við 8 stig til baka og yrðum meistarar 💙💙🍺

  3. AriG skrifar:

    Ótrúlegur sigur Everton. Geggjuð barátta eins og liðið hafa fengið aukakraft eftir að tekinn af þeim 10 stig mjög óverðskuldað. Mykolenko og Branthwhaiter stórkostlegir. McNeil er að blómstra aftur og Doucoure er magnaður leikmaður. Hef samt miklar áhyggjur af breiddinni í vörninni ef annar miðvörðurinn meiðist. Fínt að fá Onana aftur miklu betri en Gana.

  4. Eirikur skrifar:

    Frábær sigur, sigur liðheildarinnar.
    Miko kannski extra góður í dag.
    Gott að fá menn af bekknum sem setja mark sitt á leikinn.

  5. Finnur skrifar:

    Ótrúleg seigla og vinnusemi í þessu liði. Tek hatt minn ofan fyrir Sean Dyche fyrir það sem hann er búinn að skapa.

    Þessi leikmannahópur var að ströggla illa á síðustu tveimur tímabilum, en er núna búinn að vinna þrjá í röð. Ég spyr… hversu langt aftur í tíma þurfum við að fara (og hversu marga stjóra) til að finna þrjá sigurleiki í röð?

  6. Ari S skrifar:

    Carlton Palmer verður 60 ára á næsta ári.

    Frábær sigur hjá okkar mönnum í dag. Mykolenko verður bara betri og betri. Var frábær í dag enda Chelsea mikið með boltann. Dobbins með sitt fyrstamark?

    Geggjuð vika hjá okkar mönnum.

    Til hamingju allit/öll!

    • Þór skrifar:

      3 sigrar á 8 dögum og höldum hreinu í þeim öllum

    • Finnur skrifar:

      Takk Ari! Cole Palmer heitir hann víst. En mér til varnar virtust Chelsea menn allir vera sextugir í þessum leik, sem skýrir kannski mistökin. 😉

  7. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Frábær úrslit í þremur síðustu leikjum, og vonandi verður fjórði sigurinn í röð næsta laugardag. En ekki er hægt að neita því að það hefur reynit mikið á taugarnar að horfa á þessa síðustu leiki.

  8. Finnur skrifar:

    Svona til að svara minni eigin spurningu, þá þarf að fara tvö ár og þrjá stjóra aftur í tímann, til að finna síðasta skipti sem Everton vann þrjá í röð (Ancelotti). Það er allt of langt, en þetta er klárlega eitt af mörgum merkjum um framfarir hjá liðinu.

    • Þór skrifar:

      Eftir aðeins eigin minni:
      Fram að komu Ancelotti höfðum við ekki unnið þrjá leiki í röð síðan 1993 þegar Howard Kendall byrjaði tímabilið með stæl með þremur sigrum.

      Held að David Moyes hafi aldrei þetta – sem er hálf hlægilegt.

      Kendall sagði upp áður tímabilinu 1993-1994 var lokið. Típískt Everton.