Nottingham Forest – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 14. umferð í ensku og nú mæta okkar menn Nottingham Forest á útivelli.

Uppstillingin: Picford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, McNeil, Garner, Harrison, Doucouré, Beto.

Varamenn: Virginia, Keane, Dogfrey, Patterson, Coleman, Chermiti, Danjuma, Dobbin, Hunt.

Stóra atriðið í þessari uppstillingu er að Calvert-Lewin er hvergi sjáanlegur, hvorki í byrjunarliðinu, né bekknum, en fram kom fyrir leik að hann væri tæpur vegna „stífleika í vöðva“. Beto kemur inn fyrir hann, en það er eina breytingin frá síðasta leik (við Man United). Onana er einnig frá vegna meiðsla í kálfa, en hann missti einnig af síðasta leik vegna meiðsla. En þá að leiknum…

Hvorugu liðinu tókst að skapa almennileg færi til að byrja með. Everton þó með undirtökin í leiknum eftir um 15 mínútur.  Beto fékk dauðafæri á 22. mínútu þegar markvörður Forest reyndi að slá boltann út úr teig en rakst í eigin varnarmann og sóknarmann Everton. Laus bolti inni í teig, sem Beto reyndi við, en hann endaði rétt yfir slánni. Gott færi fór forgörðum þar sem markvörður Forest átti ekki séns í að verja.

Everton var allt í öllu fyrri part hálfleiks og engin tilraun til skots á mark kom frá Forest fyrsta hálftímann. En svo kom það loks, frá Elanga, besta manni Forest fram að því. Engin hætta þó, því boltinn skoppaði framhjá hægri stöng (frá sjónarhóli Forest) með bæði Pickford og Tarkowski á réttum stað til að koma í veg fyrir mark.

Everton fékk annað dauðafæri á 43. mínútu þegar McNeil fékk sendingu frá Doucouré og komst inn fyrir vörnina vinstra megin. McNeil náði að koma boltanum framhjá markverði, en varnarmaður þeirra, Murillo, náði að bjarga á línu. Murillo meiddist hins vegar við hreinsunina og maður velti fyrir sér hvort Forest þyrfti að skipta einhverjum út í hálfleik, því hann var þriðji maðurinn til að meiðast hjá Forest (sóknarmaður þeirra, Chris Wood, og báðir miðverðir þeirra eitthvað að ströggla).

Everton mun betra liðið í fyrri hálfleik, að mati þulanna, sem voru varla búnir að sleppa orðinu þegar Forest menn fengu lokafæri fyrri hálfleiks. Gibbs-White þar að verki, og náði skoti á mark, hægra megin í teig (frá þeim séð) en framhjá marki.

Forest menn heppnir að vera ekki marki eða tveimur undir í hálfleik.

Seinni hálfleikur

Willy Boly var skipt út af í hálfleik hjá Forest. Maður átti kannski von á því að Morillo færi á undan, en hann byrjaði seinni hálfleik og kláraði leikinn. Þulirnir minntust á það í upphafi seinni hálfleiks að Forest þyrftu að gera mikið betur til að fá eitthvað út úr leiknum, enda ekki náð skoti á mark í fyrri hálfleik. Ekki hægt að mótmæla því.

En það fyrsta markverða í seinni hálfleik var að Forest menn hefðu getað fengið víti, þegar Doucouré togaði niður einn Forest manninn inni í teig. En, Michael Oliver, sem mér hefur oft fundist láta andstæðinga Everton sleppa létt með brot, var greinilega réttur maður í VAR herberginu í þetta skiptið, því hann mat það sem svo að þetta hefðu ekki verið augljós mistök af hálfu dómara að láta þetta afskiptalaust. Er það ekki líka það sem fólk hefur verið að kvarta mest yfir VAR (að verið sé að leita að snertingum)? Ekki kvörtum við, í þetta skiptið allavega…

En Everton skoraði loks á 67. mínútu og sú forysta var verðskulduð. Harrison á hægri kanti sendi háan bolta fyrir mark og tveir Forest varnarmenn (og Beto að auki) reyndu að skalla. Engum tókst það þó og boltinn barst því til McNeil, sem lagði boltann fyrir sig með fínni snertingu, vinstra megin í teig, og þrumaði svo upp í hornið hægra megin. Geggjað mark. Staðan orðin 0-1 fyrir Everton!

Þulirnir minntust á að þetta væri fyrsta mark McNeil á tímabilinu, sem er hálf undarlegt, þar sem hann var markahæstur á síðasta tímabili. Það sem hljómaði hins vegar betur var að Everton hefur aldrei tapað leik, ef þeir skora fyrst, undir Sean Dyche. Það reyndist aftur raunin í dag.

Forest menn áttu ágætlega útfærða aukaspyrnu á 73. mínútu þar sem Elanga komst inn fyrir vörnina og náði skoti á mark, en boltinn var kominn aftur fyrir endalínu og skotið hvort eð er í utanvert hliðarnetið.

Á 80. mínútu átti Felipe, varnarmaður Forest að fá sitt seinna gula spjald, þegar hann braut á Beto sem var kominn framhjá honum. Átti engan séns í boltann. Alltaf gult spjald. Dómarinn, hins vegar, ekki sammála. 

Chermiti kom svo inn á fyrir Beto á 82. mínútu og Divock Origi inn á fyrir Forest stuttu síðar. Skrifað í skýin að Origi myndi skora gegn Everton? Nei — hann kom eiginlega ekkert við sögu síðustu mínúturnar. 

Forest menn voru samt ekki dauðir úr öllum æðum. Fengu tvö færi í kjölfarið — Mangala fékk færi einn á móti markverði sem Pickford náði að koma út á móti og loka vel á hann og það seinna þegar varnarmaðurinn, Marillo, reyndi skot af löngu færi á 86. mínútu, en Pickford aftur vel á verði og sló boltann til hliðar. Ekkert of mikil hætta, samt.

Felipe braut svo aftur af sér á 88. mínútu — og í raun hægt að halda fram að þetta hefði verið hans þriðja gula spjaldið í leiknum. Hvernig stendur á þessu, eiginlega? Allt í lagi…

Í síðasta færi leiksins var Elanga ekki langt frá því að ná skoti á mark með bjúgverpli* utarlega í teig vinstra megin (frá þeim séð) en rétt framhjá stöng hægra megin. Pickford líklega með það samt ef þetta hefði verið nær.  

Forest menn reyndu hvað þeir gátu, en Everton vörnin hélt og landaði þremur stigum í kvöld. Lyftu sér þar með af botninum, þó mann gruni að refsingin verði milduð í áfrýjunarferlinu og liðið því í raun komið af botninum nú þegar. En, pressan til að gera betur er svo sem ekki slæm. Meira svona.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (6), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Gueye (6), Garner (7), Harrison (6), McNeil (7), Doucoure (7), Beto (5). Varamenn: Chermiti (6).

Maður leiksins, að mati Sky Sports var: Dwight McNeil.

* Daddi frá Vestmannaeyjum… þetta innlegg var sérstaklega hugsað fyrir þig. 🙂 (sorry, smá local húmor)

17 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  Ánægður að sjá young í liðinu, þá er Dyche bara sami hálfvitinn og hann hefur verið, fyrirgefðu Elvar neikvæðnina. Vonandi hættir þú ekki að koma hingað inn 😂

  • Ari S skrifar:

   Þetta er nú meira bull innleggið hjá þér Diddi. En samt gott að þú ert sjálfum þér samkvæmur í persónulega bullinu þínu.

   Til hamingju með sigurinn í dag 🙂

  • Orri skrifar:

   Ég er galgörlega sammála þèr Diddi furðulegt að hann skuli vera látinn byrja miðað við frammistöðuna ì síðasta leik óskiljanlegt.

   • Ari S skrifar:

    Orri, ertu að segja að Dyche sé hálfviti?

   • Ari S skrifar:

    Ég sjálfur bjóst við því að Dyche myndi setja Patterson inn í liðið. En kannski er hann ekki tilbúinn að mati snillingsins og Sean Dyche. Og er þetta ekki enn einn leikurinn sem við höldum hreinu með Young í liðinu. Hann var nú ekki svo slæmur í dag…

  • Elvar Örn skrifar:

   Elsku Diddi

   Satt er að ég hata neikvæðni en hér er ég þér sammála :). Young á ekki að byrja hjá Everton. Patterson allan daginn og Coleman þegar hann er tilbúinn. En Young var samt ok í dag svo það sé sagt. Beto skelfilegur en Garner frábær og Gana fínn, fannst Pickford líka skila sínu þegar á þurfti að halda. Góður sigur í dag.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Everton búið að vera miklu betra liðið í fyrri hálfleik og nokkuð ljóst að þessi leikur getur bara endað á einn veg…….1-0 fyrir Forest. Vonum það besta samt.

  • Elvar Örn skrifar:

   Herra svartsýnn klikkar sem betur fer með sína spá 🙂

   • Diddi skrifar:

    Hahaha en eitt þoli ég illa og það er þegar ungum manni er skipt inná (chermiti) og 10 min + eftir og hann nennir ekkk að hreyfa sig. Mér fannst Beto latur en þessi drengur er alveg skítaklessa. Svo að mínu mati hefði ég frekar skipt t.d. Godfrey fyrir beto og sett á miðjuna

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hahaha já sem betur fer. En eins og þetta var að spilast þá minnti það mjög á leikina gegn Fulham og Wolves og aðra leiki sem hafa spilast svona en endað með tapi okkar manna.

 3. Finnur skrifar:

  Magnað hvað sveiflurnar eru miklar. McNeil markahæstur á síðasta tímabili en var bara að skora sitt fyrsta í dag. Og Everton virtist, á síðasta tímabili, vera nær ómögulegt að skapa sér færi, sérstaklega á útivelli, en veður í færum á þessu tímabili og var að vinna enn einn sigurinn á útivelli. Nú þarf bara að bæta heimaleikjaformið…

  Talandi um það – nú er lag: tveir heimaleikir í röð.

  • Elvar Örn skrifar:

   Fyrsta skipti í hvað ég veit ekki mörg ár þá erum við mikið betri á útivelli. 3 útisgrar í röð er sjaldgæft. Þurfum að bæta okkur á Goodison Park.

 4. Gestur skrifar:

  Ég hef ekki tjáð mig mikið hérna lengi [þótt viljan vanti ekki] en það er gott að fá Elvar hér inn. Þessi sigur var alveg nauðsinnilegaur vegna þess að næsti 5 leikir verða mjög erfiðir og 5 stig væru mjög góð. En það er góður andi og vonandi næst það

 5. Finnur skrifar:

  Pickford og McNeil í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/67609476?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA

Leave a Reply