Dómsúrskurðurinn (fyrri helmingur)

Mynd: Everton FC.

Eins og við vitum og fram hefur komið á þessari síðu, þá féll á dögunum dómur í máli ensku úrvalsdeildarinnar gegn Everton. Þann dóm má lesa í þessari frétt um málið frá ensku úrvalsdeildinni (sjá hlekk sem vísað er í þar). 

Dómurinn er rétt rúmar 40 blaðsíður að lengd, þannig að ég lái fólki ekki að sjá sér ekki fært um þann lestur, enda örugglega meira spennandi lestrarefni á náttborðinu. En við ætlum að reyna að gera hér skil fyrri helmingi þessa skjals og rétt að benda á að mestmegnis af þessu er merkt sem staðreyndir í dómsúrskurðinum, þannig að það er minna um túlkunaratriði. 

Inngangur

Í inngangi dómsúrskurðsins segir að í hnotskurn snúist þetta mál um tímabilið 2021/22. Öll félög úrvalsdeildarinnar, þurfa að gangast undir PSR reglur (Profit and Sustainability Rules), sem setur liðunum fjárhagsramma og þar kemur fram að hámarks tap má vera 105M punda per tímabil (á þriggja ára tímabili, öllu jafna). Everton er ásakað um að hafa farið 19.5M punda fram yfir á efnahagsreikningi sínum á því tímabili, sem í prósentum talið er 9% meira tap en leyfilegt er, skv. PSR reglunum.

Everton játaði á endanum brot á þessum reglunum, en segir upphæðina rétt um helmingur sem haldið er fram, eða 9.7M punda (en ekki 19.5M punda) og tiltekur jafnframt margt sem ætti að koma til refsilækkunar. Ég held reyndar að 9.7M sé prentvilla, því tvisvar annars staðar í skjalinu er talað um 7.9M punda, en ekki 9.7M punda. En það gildir einu.

Á bls. 3 og 4 er farið yfir nöfn helstu aðila, sem spila stóra rullu í þessu máli, og kennir þar ýmissa grasa, en þar voru ekki bara nöfn núverandi fyrirmanna innan raða Everton (og víðar), heldur einnig Carlo Ancelotti, Richarlison, „Player X“ (sem að öllum líkindum er Gylfi) og „Player Y“ (sem sagður var „mögulega til sölu sumarið 2020“). Kannski Tosun?

Heimsfaraldrinum eru gerð ágæt skil á bls. 6, til að greina frá þeirri spennitreyju sem félögin voru í á þessum tíma, en þar kemur fram að úrvalsdeildin stöðvaðist vegna veirunnar frá 13. mars 2020 fram til 17. júní 2020. Eftir það voru engir áhorfendur leyfðir á leikjum úrvalsdeildarinnar. Næsta tímabil var svo leikið fyrir luktum dyrum og það var ekki fyrr en á tímabilinu 2021/22 sem áhorfendur voru aftur leyfðir. Reglugerð PSR var svo rýmkuð í kjölfarið á Covid og félögum heimilt að undanskilja tap sem beint mátti rekja til Covid en auk þess voru meðaltalstölur notaðar yfir þrjú tímabil (2020-22) þegar taprekstur var skoðaður.

Staðreyndir málsins reyfaðar

Á síðu 6-7 er metnaður Moshiri tilgreindur, bæði innan sem utan vallar. Hann tók við félaginu 2016 og blés til sóknar. Ekki bara átti að byggja nýtísku völl sem sæmir bestu liðum úrvalsdeildarinnar, heldur einnig mynda lið sem reglulega átti að keppa í Evrópukeppnum. Enginn annar klúbbur í úrvalsdeildinni hafði reynt þetta tvennt — á sama tíma. Stefnt var á 3ja til 4ra ára fjárfestingartímabils í leikmannakaupum, sem ætti að skila sér í auknum: a) árangri, b) tekjum af Evrópukeppnum og c) verðgildi leikmanna, með Everton í baráttunni í efsta fjórðungi úrvalsdeildar. Þetta var óneitanlega metnaðarfullt plan, en það er hægara um að tala en í að komast, eins og við þekkjum.

Einnig var rætt um kostnaðinn við nýja völlinn, sem nú er metinn að muni verða 760M punda þegar uppi verður staðið, og var vellinum að hluta til ætlað að vera fjármagnaður með lánum en einnig af Moshiri, eftir að hann hafði borgað upp 55M punda skuldir Everton gagnvart utanaðkomandi aðilum (sem hann og gerði). 

Ég skal alveg viðurkenna að ég missti smá þráðinn í lestrinum þegar kom að lýsingu á tæknilegum lánaútfærslum en í kjölfarið kemur það sem marka má sem lykilatriði í þessu öllu saman: árið 2019 kom inn „umtalsverð fjárfesting“ fyrir nýja völlinn — en það gerðist áður en deiliskipulag fyrir völlinn hafði verið samþykkt og það er mikið til það sem er verið að rífast um. Þetta þýddi að það þurfti að bókfæra upphæðina sem kostnað á efnahagsreikningi Everton, þegar kom að PSR, en ekki á efnahagsreikningi þess rekstrarfélags sem sér um byggingu vallarins.

Ef þetta hljómar í þínum eyrum eins og eitthvað sem eingöngu skiptir máli fyrir bókhaldara, þá er erfitt að vera því ósammála. Í kjölfarið var svo minnst á í dómsúrskurðinum að aðrir klúbbar hafi mátt haga bókhaldi sínu með sama hætti (undanskilja upphæðir við vallarbyggingu frá PSR reglunum).

Everton hafði samband við úrvalsdeildina í október 2019, til að tryggja að jafnræðis yrði gætt (svo hægt væri að undanskilja þennan kostnað frá PSR) en talaði fyrir daufum eyrum. Everton hélt áfram, síðla árs 2020 og inn í árið 2021, að reyna að komast að niðurstöðu um málið. Í janúar 2021 gaf úrvalsdeildin það svo út að ef þessi kostnaður væri undanskilinn hefði Everton ekki gerst brotlegt gegn PSR reglunum en benti á að aðrir klúbbar hefðu fengið að undanskilja sambærilegan kostnað, vegna þess að deiliskipulag (í þeirra tilfellum) hefði legið fyrir nógu snemma. Eftir þetta var bara talað um refsingu fyrir brot Everton á PSR reglum.

Á síðu 10 er svo eftirfarandi klausa:

On 23 February 2021 Everton received planning permission from Liverpool City Council. On 26 March 2021 the Secretary of State confirmed that the issue would not be called in. It is now common ground that the effect of the grant of planning permission is that stadium expenditure incurred in and after FY 2021 (ie from 1 July 2020) could be capitalised.

Við erum sem sagt að tala um það að ef deiliskipulagið hefði legið fyrir fyrr, væri þetta mál ekki einu sinni til staðar. Og jú, þetta er óneitanlega grænt ljós eftirá, en ætti málið ekki að falla niður með þessu? Af hverju skiptir þessi tæknilega útfærsla svona miklu máli?

Í framhaldinu er rætt um að þetta hafi sett samningaviðræður aftur af stað milli Everton og úrvalsdeildarinnar, sem hafi lokið með gerð samnings í ágúst 2021 um að Everton mætti undanskilja þennan kostnað, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í dómsúrskurðinum eru þau skilyrði upptalin, en eftir að hafa lesið lagatextann (þrisvar!) get ég ekki séð að neins staðar sé minnst á að úrvalsdeildin sé að nokkru leyti að slaka á kröfum varðandi þennan tæknifeil í bókhaldinu heldur einfaldlega haldi öllu sínu til streitu. 

Eftir þetta berst talið að leikmanna-kaupum og -sölum. Áréttað er að „Player X“ hafði reyndist klúbbnum vel, þangað til hann var handtekinn og spilaði ekki fleiri leiki fyrir félagið. Það eru ekki margir leikmenn sem koma til greina þar… Everton ákvað að lögsækja ekki „Player X“ fyrir brot á samningi, sem skv. fréttum hefði leiðrétt bókhaldið um allavega 10M punda, ef ekki meira. Það segir kannski ákveðna sögu um Everton að félagið tók sálarástand „leikmanns X“ framyfir eigin fjárhagslega stöðu. Eru mörg önnur félög sem hefðu tekið sömu ákvörðun? Ef einhver hnýtir í það að Everton sé ekki ‘Family Club’, eins og haldið hefur verið fram, þá ætti að vera nóg að benda á þetta sem fordæmi.

Fram kemur í dómsúrskurðinum að handtakan, sem og meiðsli annarra leikmanna, hafi valdið því að halla hafi farið undan fæti í gengi liðsins eftir þetta og hvert sæti sem félagið féll niður töfluna hafi kostað klúbbinn 2.1M punda í verðlaunafé, sem hafi sett allar fjárhagslegar áætlanir úr skorðum. Einnig var nefnt að önnur félög hafi litið á meint brot Everton á PSR reglum sem tækifæri til að nýta sér fjárhagslega neyð Everton og fá félagið til að rétta af skútuna með því að samþykkja undirboð í leikmenn. Sérstaklega var salan á Richarlison til Tottenham nefnd, sem verðmetinn var á 80 milljónir punda en seldur á 60M punda.

Fleiri atriði voru tínd til, sem var ætlað að sýna fram á „good faith“ hvað Everton varðar — þeas. að ástæða var ætla að ekki hafi verið vilji til að fara fram úr fjárhagsáætlunum. Til dæmis voru nefndir viðskiptasamningar, sem búið var að ná við „USM“ fyrirtækið, sem hefði gefið Everton 10M punda á ári í 20 ár (200M punda samningur!), en rifta þurfti þeim samningi þegar kom til stríðsins í Úkraínu þegar lokað var á viðskipti við rússneska aðila.

Everton skilaði inn endurskoðuðum reikningum fyrir árið 2021, þar sem færð voru rök fyrir því að undanskilja ætti ýmislegt frá PSR útreikningunum, eins og:

– 17.4M punda vaxtagreiðslur sem Everton hafði borgað af láni vegna nýja vallarins (fjárfesting í nýjum velli á að vera undanskilinn PSR reglum). 

– 61M punda sem töpuðust á því að verðgildi leikmanna minnkaði vegna Covid (enda var óeðlilegt ástand á markaðnum). 

– 10M punda sem töpuðust þar sem félagið lögsótti ekki áðurnefndan „leikmann X“ vegna vanefnda á samningi.

– 5.8M pund var upphæð sem Everton greiddi til úrvalsdeildarinnar og rennur, allavega að hluta, til ungmennastarfs (ungmennastarf á einnig að vera undanskilið PSR reglum).

Úrvalsdeildin hafnaði hins vegar fjárhagsreikningum Everton fyrir 2021, sem byggðu á ofangreindum atriðum, sem og endurskoðuðum reikningum sem félagið skilaði inn í mars 2023 fyrir fjárhagsárið 2022 og hóf úrvalsdeildin málsókn gegn félaginu, byggt á ofansögðu.

Everton reyndi að tína allt til, eins og gefur að skilja, en niðurstaðan virðist vera sú að Everton gekkst á endanum undir að hafa brotið PSR reglur úrvalsdeildarinnar (eftir að hafa reynt að sýna fram á hið gagnstæða), en heldur því fram að brotið nemi aðeins 7.9M punda, en ekki 20M punda, eins og úrvalsdeildin heldur fram.

Lokaorð

Restin af dómsúrskurðinum fer yfir framgang málsins en í blaðsíðum talið nær þessi umfjöllum yfir rétt tæpan helming af dómsúrskurðinum, sem tók kvöldstund að lesa og koma frá sér, þannig að við skulum láta staðar numið hér.

En það er kannski rétt að benda fólki á að staldra hér við og spyrja sig… er það sem fram kemur hér að ofan þess virði að úrvalsdeildin krefjist hámarks-stigarefsingu fyrir þetta eina brot? Ég get ekki séð annað en að það verði að teljast hæpið, sérstaklega í ljósi þess að Everton fór fram úr á efnahagsreikningi fyrst og fremst vegna tæknifeils í bókhaldi.

Kannski hef ég geð í mér að lesa restina af þessum úrskurði, en ég er eiginlega kominn með nóg í bili. Sjáum hvað setur.

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er bara gjörsamlega fáránlegt. Hvað ætla þessi fífl svo að gera þegar eitthvað annað félag, að þessum sex uppáhalds undanskildum, það verður ALDREI snert á neinu þeirra, gerist brotlegt? Þessi deild er gjörsamlega rotin inn að beini.