Crystal Palace – Everton 2-3

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að útileik við Crystal Palace, sem hófst klukkan 15.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Godfrey, Keane, Patterson, Gana, Danjuma, Chermiti, Dobbin, Beto.

Þvílíkt líflegur og skemmtilegur fyrri hálfleikur og ekki síður frábær byrjun á leiknum hjá Everton! Þulurinn var varla búinn að klára að minnast á að Everton hafi aðeins tapað einum leik gegn Crystal Palace í einhverja fjórtán fimmtán leiki í röð þegar Everton náði að skora eftir aðeins um 50 sekúndur. Doucouré fékk boltann í miðjum teig Palace, sendi til Harrison sem kom á hlaupinu upp að endalínu hægra megin inni í teig og sendi háan bolta fyrir mark, beint á pönnuna á Mykolenko þar sem hann stökk upp og skallaði boltann í netið. Staðan orðin 0-1 fyrir Everton strax á fyrstu mínútu!

Strax í næstu tveimur sóknum vildu Palace menn fá víti (og þeir áttu eftir að reyna það oftar í fyrri hálfleik). Fyrra atvikið var nær því að vera gult spjald fyrir leikaraskap, en það seinna reyndist vera mjög soft víti eftir klaufalegt brot hjá Branthwaite. Eze ætlaði að þræða sig gegnum varnarlínuna með því að fara framhjá Branthwaite, sem reyndi að pota boltanum í burtu en náði ekki, en þegar Eze fann lausa snertingu á legghlífina var hann fljótur að kasta sér niður. Víti dæmt, sem Eze tók sjálfur, og skoraði örugglega í hornið niðri hægra megin frá þeim séð. Staðan orðin 1-1, eftir aðeins 5 mínútur!

Leikurinn róaðist aðeins eftir þessar rugl fimm mínútur en liðin héldu áfram að ógna og leikurinn áfram að vera líflegur. Palace menn meira með boltann og reyndu að setja pressu á mark Everton, en vörnin hélt vel. Næsta færi fékk McNeil, þegar hann fékk háa sendingu inn í teig vinstra megin og reyndi viðstöðulaust skot á mark sem markvörður varði.

Eze reyndi aftur sama leik gegn Branthwaite á 25. mínútu, þegar hann reyndi að fiska vítaspyrnu — kastaði sér niður eftir hafa komist framhjá honum. Dómarinn lét hins vegar ekki blekkjast. heldur gaf honum gult fyrir leikaraskap. Stuttu síðar braut svo Eze á Onana og var kannski heppinn (ekki mikið meira en mínútu síðar) að fá ekki sitt síðara gula spjald. 

Garner átti skot utan teigs fyrir miðjum vítateig en rétt framhjá stöng niðri vinstra megin. Fimm mínútum bætt við og á 48. mínútu náðu Palace menn skoti á mark sem Pickford blokkeraði og Tarkowski hreinsaði í horn. Það reyndist, að ég held, aðeins annað skot þeirra sem rataði á rammann og sömu sögu að segja frá Everton, en það gaf ekki rétta mynd af fjörinu í fyrri hálfleik.

Staðan 1-1 í hléinu.

Ein breyting á liði Everton í hálfleik — Gana kom inn á fyrir Onana, sem er nýstiginn upp úr einhverjum smávægilegum meiðslum. Mögulega átti Onana bara að fá að spila fyrri hálfleik en þetta reyndist Everton mikið heillaspor, eins og átti eftir að koma í ljós.

Everton byrjaði seinni hálfleik með sama hætti og þann fyrri — með marki í upphafi leiks. Hreinsun út úr teig barst til Gana Gueye, sem var hægra megin utan teigs, hann sendi hálf skrýtinn háan bolta, beint yfir til vinstri, sem leit út fyrir að vera misheppnuð fyrirgjöf — en hvað veit maður? Kannski viljandi. Það sem skipti hins vegar mestu máli var að boltinn barst til Mykolenko, sem var utan teigs vinstra megin og hann tók viðstöðulaust skot í innanverða stöng hægra megin og út í teig aftur. Þar barst boltinn til Doucouré sem þurfti bara að pota í autt markið, með markvörð Palace liggjandi í grasinu. Engin rangstaða og Everton aftur komið yfir, 1-2 í þetta skiptið.

Eze komst í skotfæri nokkrum mínútum síðar en skaut beint á Pickford. Ekkert of hættulegt. Gana og Mykolenko voru hins vegar líklegri til að koma boltanum í eigið net á 60. mínútu þegar boltinn hrökk af Gana og í Mykolenko og Pickford þurfti að taka á honum stóra sínum til að passa upp á að boltinn færi ekki í markið! 

Palace menn settu nokkra pressu á vörn Everton en hún hélt vel. Þeir voru reyndar næstum komnir í gegn með stungusendingu en Pickford var vel á verði, hljóp út og lokaði á það sem hefði verið dauðafæri, einn á móti markverði. Lerma fékk svo frítt skot á mark af nokkuð löngu færi, óvaldaður, en lúðraði skotinu framhjá stöng. 

En eins og í fyrri hálfleik náðu Crystal Palace aftur að jafna metin og það var eftir varnarmistök frá Tarkowski, sem hafði verið frábær í vörninni fram að því. En í þetta skiptið leyfði hann háum bolta að skoppa og fara til Pickford, en inn á milli skaust Edouard og skoraði framhjá Pickford. Aftur orðið jafnt, 2-2. Beto kom svo inn á fyrir Calvert-Lewin í kjölfarið.

Næstu mínútur eftir þetta voru mjög taugatrekkjandi, því eftir markið Palace kom aukinn kraftur í lið þeirra og Everton voru í vandræðum með einföldustu hluti, eions og að halda boltanum innan liðsins. Voru sífellt að hreinsa fram á við á Palace menn, sem skyndilega voru þar með orðnir miklu líklegri til að vinna leikinn, enda búnir að dæla inn lykilmönnum af bekknum sem voru nýstignir upp úr meiðslum.

En Everton náði sér á strik aftur og þegar Tarkowski var á hægri kanti sá hann Gana á auðum sjó framarlega, hægra megin í holunni. Hann sneri með bolta og hóf sókn á mark Palace. Hann fann Doucouré með sendingu fyrir framan miðjan vítateig og Doucouré sá flott hlaup Gana inn í teig og sendi algjörlega frábæra stungusendingu á hann. Ein snerting frá Gana, svo skot í gegnum klofið á varnarmanni og í hliðarnetið innanvert, hægra megin. Gana þar með að koma Everton yfir, 2-3 eftir 86. mínútur!

Átta mínútum bætt við og Palace menn reyndu allt hvað þeir gátu. Young svo skipt út af fyrir Patterson. En það var hins vegar Beto sem fékk síðasta almennilega færi leiksins á 95. mínútu. hægra megin í teig en hann skaut framhjá marki vinstra megin.

Og þar með fjaraði leikurinn út með Everton sem sigurvegara. Tveir útisigrar þar með í röð hjá Everton, eftir 0-1 sigur á West Ham undir lok október. Eyðimerkurganga Roy Hodgson heldur áfram, en hann hefur ekki sigrað Everton síðan 2011.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Young (7), Tarkowski (8), Branthwaite (7), Mykolenko (7), Harrison (7), Garner (7), Onana (6), McNeil (6), Doucoure (8), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Gueye (7), Beto (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports: Abdoulaye Doucoure.

11 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Fyrri hálfleikur lofar góður. Spurning hvað Eze fær að brjóta mikið oftar af sér áður en dómarinn gefur honum seinna gula. Hann er búinn að vera langbesti leikmaður Palace í leiknum og þeir mega alls ekki við því að missa hann.

    • Ari S skrifar:

      Frábær sigur hjá okkar mönnum í dag. Á útivelli og í London!

      Frábær stoðsending hjá Doucoure í sigurmarkinu og gárungarnir segja að þetta hafi verið fyrsta skot Idrissa Gana Gueye á mark á ferlinum! Hann var eins og Haaland í dag, geggjað mark í erfiðri stöðu.

      Crystal Palace 2 Everton 3

      ps. Ég er ekki þjálfari og gagnrýni ekki taktíkina/spilamennskuna, sigur er nóg fyrir mig til að hafa mig ánægðan 🙂

      • Ari S skrifar:

        Við skulum líka rifja það upp að þegar Sean Dyche tók við liðinu í Febrúar þá vorum við með 15 stig. Nú þegar erum við komnir með 14 stig og það í Október! Þetta kalla ég framför, Dyche er að gera góða hluti miðað við síðustu ár.

        UTFT!

  2. Elvar Örn skrifar:

    Það er allt annað að sjá Everton á þessari leiktíð og þeir hafa verið óheppnir með úrslit í nokkrum leikjum í byrjun leiktíðar þrátt fyrir góða spilamennsku og sókndjarfa nálgun. Skoðið bekkinn í dag strákar, hellingur af góðum mönnum tilbúnir að koma inn og hafa áhrif á leikinn.
    Þeir útisigrar komnir í hús sem er jafn mikið og á allri seinustu leiktíð. Bæði mörkin í dag sem við fengum á okkur ansi óheppileg, hæpin vítaspyrna og skil ekki af hverju Tarkowski hreinsaði ekki í seinna markinu. Þrjú flott mörk hjá Everton og mikið sókndjarfari en í fyrra. 8 stig frá fallsæti og leiðin virðist uppávið. Tökum United í næsta leik klárlega.
    Ég hef ekki fylgst með eða skrifað hér í amk 1 ár vegna leiðinlega neikvæðrar nálgunar á bæði töp og sigra. Gef þessu séns og vona að menn séu jákvæðir, raunsæir og málefnalegir. Já og rosalega lítur Bramley Moore vel út, það verður geggjað að fara á hann næsta vetur.
    Flottir sigur í dag á útivelli.

    • Ari S skrifar:

      Gott að fá þig aftur, Bramley Moore… er ekki sniðugt að fara að plana ferð út á fyrsta leikinn þar? Því ekki?

  3. Kiddi skrifar:

    Frábær taugatrekkjandi sigur.
    Það hefði verið ansi sterkt fyrir Beto að setja hann í netið á 95 mín. en það kemur bara síðar.
    Mykalenko er orðinn alvöru leikmaður og Branthwaite stígur vart feikspor í vörn eða í sendingum.
    Gætum varla beðið um skemmtilegri leik næst.

  4. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Þessir leikir reyna á taugarnar að horfa á þá, en mikið skelfing var þetta sættur sigur. Sumir af þessum nýju mönnum eru að standa sig ljómandi vel.

  5. Finnur skrifar:

    Skemmtileg tölfræði sem ég hef rekist á eftir leik…

    – Everton er markahæsta liða sögunnar, þegar kemur að Úrvalsdeildarmörkum sem skoruð eru á fyrstu mínútu leiks (13 mörk).

    – Frá því að Dyche tók við (Feb 2023) er Doucouré í þriðja sæti yfir markahæstu menn á útivelli, með 7 mörk (Haaland efstur með 13 og Callum Wilson 10).

    – Svo virðist Mykolenko vera að rétta úr kútnum eftir að erfiða byrjun (meiðsli í upphafi tímabils). Ekki bara með mark í síðasta leik, gegn Brighton, heldur líka mark og stoðsendingu í þessum leik.

  6. AriG skrifar:

    Otrúlega skemmtilegur leikur. Vörnin var frekar hikandi í fyrri hálfleik en mun betri í seinni hálfleik. Ótrúleg barátta í liðinu og sigurvilji. Finnst liðið allt annað þegar Calvert Lewin er orðinn heill heilsu og ekki verra að hafa æðislega góðan varamann Beto. Finnst mjög erfitt að velja bestu mennina nema Pickford var bestur nema einu sinni þegar hann hljóp útúr teignum en þá var dæmt rangstæða á sóknarmann Calace heppinn þar.

  7. Finnur skrifar:

    Og já, velkominn aftur, Elvar! Mjög sammála því að það er allt annað að sjá til liðsins en á síðustu tímabilum. Everton var í neðsta sæti deildar eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins en ég skildi samt aldrei neikvæðnina í umtalinu, því batamerkin frá því á síðustu tímabilum voru augljós. Sérstaklega í tveimur 1-0 töpum í upphafi (gegn Fulham og Wolves) en mótherjarnir komust upp með rán um hábjartan dag í báðum tilfellum. Everton óð í færum í báðum leikjum en náði ekki að skora og hitt liðið fékk eitt færi.

    Ég held líka að 12 stiga frádráttur (ef dómurinn fellur þannig) geti vart lent á betra tímabili, því í þetta skipti eru þrjú lið sem komu upp úr B deildinni sem virðist vera á leið beint niður í Championship deildina aftur. Ef frádrátturinn kæmi til í dag, væri Everton með 2 stig, sem samt myndi þýða að þeir þyrftu bara einn sigur og eitt jafntefli til að koma sér upp úr fallsæti.

  8. Finnur skrifar:

    Mykolenko og Doucouré í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/67399499?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA