Everton – Brighton 1-1

Mynd: Everton FC.

Í elleftu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar tók Everton á móti Brighton, klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Brighton menn voru þá í 7. sæti Úrvalsdeildarinnar, aðeins 6 stigum frá Meistaradeildarsæti og höfðu átt ágætis tímabil framan af. Sama reyndar og á síðasta tímabili, þegar Everton mætti þeim undir lok tímabils og komu öllum á óvörum og unnu þá 1-5 á útivelli, í mjög svo eftirminnilegum og, það sem reyndist, þýðingarmiklum leik.

Brighton menn voru hins vegar sigurlausir í fjórum síðustu deildarleikjum (án þess þó að hafa tapað mörgum), alveg frá 24. september þegar þeir unnu Bournemouth. Síðan þá höfðu þeir aðeins náð að vinna einn leik í sjö tilraunum í öllum keppnum og sá sigur var gegn Ajax á heimavelli í Europa League. Í millitíðinni duttu þeir út fyrir Chelsea í deildarbikarnum. Everton var með fjóra sigra í 6 leikjum fram að því.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, McNeil, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virigina, Lonergan, Keane, Godfrey, Patterson, Danjuma, Dobbin, Chermiti, Beto.

Hefðbundin 4-4-1-1 með Doucouré í holunni, McNeil og Harrison á köntunum og Calvert-Lewin frammi.

Everton fékk fyrsta færi leiksins eftir fyrirgjöf frá McNeil utan af vinstri kanti. Varnarmaður stökk upp en boltinn hrökk af honum til Doucouré, sem var við vinstri stöng og þrumaði viðstöðulaust að marki, upp í vinstra hornið en markvörður Brighton varði glæsilega.

Næsta færi kom á 8. mínútu og var nálægt því að vera afrit af fyrra færinu. Aftur gaf McNeil fyrir mark frá vinstri kanti, en í þetta skiptið var Mykolenko við vinstri stöng og náði skoti á mark. Aftur fór boltinn ofarlega vinstra megin og aftur varði markvörður vel. En í þetta skiptið barst boltinn aftur til Mykolenko, sem náði öðru skoti. Boltinn hafði viðkomu í jörðinni, svo í ofanvert lærið á varnarmanni og þaðan upp í þaknetið innanvert. Mykolenko það með að koma Everton 1-0 yfir eftir aðeins 8 mínútur!

Everton lágu djúpt eftir markið og leyfðu Brighton að hafa boltann mikið til. Tölfræðin sýndi 87% um tíma í ball possession hjá þeim framan af. En þeir nýttu það illa.

Brighton menn fengu reyndar aukaspyrnu við miðsvæðið hægra megin á 14. mínútu og sendu háan bolta inn í teig sem Lewis Dunk skoraði glæsimark úr. Viðstöðulaust skot í neðanverða slána og í netið. En aftur kom VAR okkur til bjargar, þegar endursýning sýndi að Dunk var rangstæður þegar boltinn kom fyrir mark. Oh, hvað ég elska VAR!

Calvert-Lewin var næstum búinn að fá færi á silfurfati, strax í kjölfarið, þegar varnarmaður Brighton reyndi skalla aftur á markvörð, sem Calvert-Lewin var næstum búinn komast inn í.

James Milner hélt hann væri að komast í dauðafæri einn á móti markverði á 24. mínútu, en Pickford vel á verði, kom út á móti og náði boltanum áður en Milner komst í hann. Milner reyndar rangstæður hvort eð er.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik sýndist manni að Everton ætti að fá víti, þegar McNeil var að komast í gegn en fékk bakhrindingu frá varnarmanni. Endursýning hins vegar sýndi að brotið var fyrir utan teig. 

1-0 fyrir Everton í hálfleik og, fyrir utan ólöglega markið sem Brighton skoraði, var engin hætta af þeim í fyrri hálfleik.

Engin breyting á liði Everton í hálfleik en Brighton skiptu út Lallana fyrir Joao Pedro. Sóknarsinnuð skipting, enda áttu þeir í erfiðleikum með að skapa sér færi.

Brighton menn fengu reyndar aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt utan teigs. Dunk átti frábæra aukaspyrnu — setti boltann upp við samskeytin hægra megin (frá þeim séð) en Pickford varði glæsilega í horn.

Annars lítið að frétta frá þeim áfram, sem eiginlega segir ákveðna sögu um það hversu erfitt það er orðið að spila á móti Everton, sem er breyting frá síðasta tímabili. Brighton menn fengu sjaldgæft skotfæri á 68. mínútu, vinstra megin í teig utarlega en boltinn vel yfir.

Everton fékk líka skotfæri hinum megin á 74. mínútu, utan teigs hægra megin, en skotið frá McNeil framhjá stöng.

Þulurinn minntist á að Brighton menn höfðu fram að þessu skorað í öllum Úrvalsdeildarleikjum sínum á tímabilinu, þannig að markið hlaut að liggja í loftinu. Það kom svo á 84. mínútu, þegar Mitoma reyndi skot á mark, vinstra megin í teig. Boltinn fór í ofanvert lærið á Young og þaðan í sveig yfir Pickford í markinu. Lítið sem Pickford og Young gátu gert í því. Staðan orðin jöfn, 1-1.

Kannski ljóðrænt að Brighton skyldu jafna með sama hætti og Everton komst yfir (deflection mark af varnarmanni), en manni fannst það pínu ósanngjarnt miðað við það að Brighton höfðu ekki skapað sér nein teljandi færi í leiknum (allavega ekki með löglegum hætti).

Everton setti góða pressu á Brighton í lokin en náðu ekki að böðla boltanum yfir línuna. Beto var svo skipt inn á fyrir Calvert-Lewin og Patterson kom einnig inn á fyrir Young (skiptingarnar báðar á 90. mínútu). 

Fjórum mínútum bætt við en bæði lið þurftu að sætta sig við stigið. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (6), Tarkowski (7), Branthwaite (7), Mykolenko (8), Harrison (6), Garner (6), Gueye (7), McNeil (6), Doucoure (8), Calvert-Lewin (6).

Maður leiks, að mati BBC, var Abdoulaye Doucouré.

4 Athugasemdir

 1. Kiddi skrifar:

  Onana hvíldur í dag?
  Búinn að eiga frábæra leiki undanfarið en ekki sjáanlegur á leikskýrslu 🤬

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Onana hlýtur að vera meiddur eða veikur fyrst hann er ekki einu sinni í hópnum.
  Ég er búinn að hafa slæma tilfinningu fyrir þessum leik síðan ég vaknaði í morgun, var annars tiltölulega bjartsýnn alla vikuna, sérstaklega eftir bikarleikinn á miðvikudaginn.
  Ég er hræddur um að án Onana vanti of mikið á miðjuna hjá okkar mönnum til þess að ráða við Brighton.
  Ég skil heldur ekki þessa þráhyggju í Dyche að hafa Young alltaf í liðinu, sérstaklega ekki gegn fljótum og flinkum kantmönnum eins og Brighton hefur á að skipa. Það kæmi mér ekki á óvart þó hann fengi rautt spjald í dag fyrir einhvern klaufaskap.
  Ég held að Brighton hafi lært af reynslunni frá því liðin mættust síðast og spái þeim sigri í dag 1-3.

 3. Finnur skrifar:

  Einhver stífleiki í kálfa hjá Onana, skv. því sem Dyche sagði. Hljómaði ekki alvarlegt — þetta er búið að hrjá hann í undanförnum leikjum, en eftir bikarleikinn í miðri viku voru þetta kannski full margir leikir á örfáum dögum, þannig að hann var hvíldur.

  Flottur fyrri hálfleikur hjá Everton. Lítið að frétta hjá Brighton.

 4. Ólafur már skrifar:

  sælir boys flottur leikur hjá bláliðum fannst við vera slakir síðustu 10 til 15 min og óþarfa sjálfsmark hjá Young en hann gat ekkert gert og 2 mikilvæg stig töpuð og já næsti leikur er úti á móti Palace vona að við tökum stig þar COYB