West Ham – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætir í heimsókn til West Ham í 10. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks kl. 13:00 að íslenskum — og breskum tíma, því Bretarnir skiptu yfir á vetrartímann í nótt. Þetta verður athyglisverð viðureign þar sem West Ham menn hafa, skv. xG stuðlinum verið að fá meira út úr leikjum en þeir kannski ættu skilið og Everton ekki bara fengið minna, skv. sömu tölfræði, heldur náð fleiri sigrum á útivelli en á heimavelli. Sjáum hvað setur.

Young er í leikbanni fyrir þennan leik og því kemur Patterson inn á í hans stað. Annars lítur þetta svona út:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Godfrey, Gana, Hunt, Dobbin, Danjuma, Chermiti, Beto.

West Ham menn virkuðu pínu þungir og stressaðir í byrjun, enda undir pressu frá Everton frá upphafi leiks. Má kannski skýra það með því að þeir áttu tapleik á fimmutdaginn í Evrópu og lentu í veseni með að komast aftur til London.

Leikmönnum Everton var greinilega uppálagt að finna Calvert-Lewin frammi og reyna að byggja upp sóknir frá því. Antonio í framlínu West Ham sást ekki allan fyrri hálfleikinn. Bæði lið að þreifa hvort á öðru og engin færi fyrstu tuttugu mínúturnar rúmlega.

En það kom að lokum og þar voru West Ham menn að verki. Skotfæri utarlega í teig hægra megin (frá West Ham séð) sem Bowen fékk en hann lúðraði boltanum, óvaldaður, langt framhjá marki.

Tveimur mínútum síðar fékk Everton skyndisókn eftir mistök frá West Ham og Harrison komst í lausan bolta og náði að komast í yfirtölu, þrír á móti tveimur. Rakti boltann alla leið inn í teig og hafði Calvert-Lewin og Doucouré sér á sitt hvorri hlið en ákvað frekar að skjóta. Röng ákvörðun og skotið laust — illa farið með gott færi. Þetta reyndist vera besta færi fyrri hálfleiks, því fleiri urðu þau ekki fyrir hlé.

0-0 í hálfleik. Frekar lágstemmdur fyrri hálfleikur og gerði lítið fyrir DVD söluna. Bæði lið með eina tilraun á rammann. Minnir að tilraun West Ham hafi verið fyrirgjöf sem endaði á að vera talin sem skot á rammann…

Það var meiri ákefð í leik West Ham manna frá upphafi seinni hálfleiks. Þeir uppskáru hálf-færi á 48. mínútu eftir aukaspyrnu utan af kanti, en Bowen skallaði hátt yfir. Engin hætta.

Það var hins vegar Everton sem náði að skora á 51. mínútu. Branthwaite gerði vel í að vinna boltann af Antonio á miðsvæðinu, sendi fram á Calvert-Lewin sem tók þríhyrning við Harrison og fékk boltann aftur. Ein snjöll hreyfing til hliðar losaði Calvert-Lewin við miðvörð West Ham og skapaði jafnframt gott skotfæri við vítateigsjaðarinn og þar brást honum aldeilis ekki bogalistin. Setti boltann inn lágt, alveg út við stöng vinstra megin. Staðan orðin 0-1 fyrir Everton!

Everton komst í skyndisókn á 59. mínútu og aftur var Branthwaite upphafsmaðurinn. Sendi langa háa sendingu fram á Calvert-Lewin sem framlengdi með skalla á Doucouré sem komst þar með einn á móti markverði. Hann reyndi flott skot niðri í hægra hornið, en markvörður West Ham kastaði sér niður og varði með ótrúlegum hætti. Boltinn reyndar ekki langt frá því að leka inn, fór út af rétt hjá stönginni.

Everton átti næsta færi líka — skot af löngu færi, sem markvörður West Ham varði yfir slána. Lítið að frétta í sóknarleik West Ham manna, sem gekk ekkert að skapa sér færi. Onana, hins vegar, setti Calvert-Lewin inn fyrir vörn West Ham á 75. mínútu og hann kom boltanum framhjá markverði en í neðanverða slána og út. Var þó rangstæður í aðdragandanum að auki.

Þeir fengu reyndar dauðafæri upp við mark á 78. mínútu, en tveir í rangstöðugildru og annar dæmdur rangstæður í aðdragandanum. Svo varði Pickford það hvort eð er af point blank range. Belti og axlabönd og allt það.

West Ham menn urðu meira og meira frústreraðir og reyndu fyrirgjöf á 86. mínútu, sem líklega hefði farið í ofanverða slána, ef Pickford hefði ekki ákveðið að taka enga sénsa og slá boltann í horn. Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma náði Paqueta svo ágætis viðstöðulausu skoti af löngu færi, vinstra megin í teig (frá þeim séð) en Pickford varði vel með því að slá boltann til hliðar.

Dyche skipti Chermiti inn á fyrir Calvert-Lewin á 89. mínútu; 6 mínútum bætt við. En það var sama hvað West Ham menn reyndu, það brotnaði á vörn Everton, sem átti frábæran leik. Þeir áttu einfaldlega engin svör við henni og þetta var fullkomlega sanngjarn sigur hjá Everton.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Patterson (7), Tarkowski (8), Branthwaite (9), Mykolenko (7), Garner (7), Doucoure (7), McNeil (7), Onana (7), Harrison (7), Calvert-Lewin (8).

Maður leiksins: Jarrad Branthwaite.

12 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    0-0 í hálfleik, ég verð alveg sáttur ef þetta endar svona.

  2. Eirikur skrifar:

    Finnst eins og menn séu ekki alveg klárir í slaginn.
    Vantar einhvern neista.

  3. Ari S skrifar:

    Vel gert Branthwaite, vel gert Harrison og vel gert DOMINIC CALVERT-LEWIN!!@

  4. Albert skrifar:

    komið mark. Lofar góðu 🙂

  5. Finnur skrifar:

    Branthwaite og Calvert-Lewin geggjaðir í dag.

  6. Þór skrifar:

    Frábær sigur!

    Pickford Branthwaite Onana DCL

    Allt heimsklassa leikmenn

    Við verðum 12 stigum fyrir ofan fall – jafnvel þó deildin reyni að fella Everton – topp 10 lið í þessari deild án efa

  7. Diddi skrifar:

    Frábær 3 stig, jafntefli gerir ekkert fyrir okkur!! Áfram Everton og RIP Kenwright 💙

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Frábær sigur og gott að liðið er að byrja að vinna aðeins upp þessi mögulegu mínusstig sem þessir drullar hjá ensku úrvalsdeildinni vilja skella á okkur.

  9. Eirikur skrifar:

    Á ekkert að skella í ferð þar sem að þetta er nú seinast heila tímabilið á Goodison?
    Liðið betra í seinni hálfleik enn samála mönnum um að skiptingar eru kannski ekki styrkur Sean Dyche og hægri vængurinn frekar slakur enn frábær 3 stig.

  10. AriG skrifar:

    Mjög góður leikur hjá Everton. Fengu nokkur opinn færi. Þurfum að nýta færin betur. Besti leikur Calvert Lewin siðan hann kom aftur. Vörnin frábær, Branthwaite og Tarkowski ná mjög vel saman. Verst ef annar meiðist höfum engan frábæran til að fylla skarð þeirra. Hefði viljað gera stuttan samning við Terry Mina áfram samt ekki á svona háum launum. Mundi prófa að hafa Beto og Cavert Lewin saman t.d. í bikarleiknum gegn Burnley. Ég vel Onana mann leiksins gefst aldrei upp en aðrir líka mjög góðir.