
Mynd: Everton FC.
Landsleikjahléinu í október er lokið og við tekur 9. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar, sem hefst með derby leik þegar Everton mætir á Anfield til að eigast við Liverpool.
Lið Everton er óbreytt frá síðasta leik, 3-0 sigurleik gegn Bournemouth, en Liverpool gera fjórar breytingar á liðinu sem gerði jafntefli við Brighton á dögunum (Konaté, Tsimikas, Gravenberch og Jota koma inn fyrir Matip, Robertson, Elliot og Núnez). Liverpool eru sigurlausir í síðustu tveimur leikjum en — Everton með tvo sigra í síðustu þremur.
Það var athyglisvert að lesa greiningu BBC á byrjuninni hjá liðum Úrvalsdeildarinnar, en hún sýndi glögglega að frammistaða Everton í upphafi tímabils endurspeglar ekki það sæti sem liðið situr í á töflunni. Skv. „expected goals“ (xG) stuðlinum hefur Everton verið að skapa svipað góð marktækifæri og lið Liverpool og Tottenham (sem eru efstir) en aðeins vantar upp á að Everton hafi náð að klára þau færi. Væri nú gott að fara að hætta að setja boltann í stöng og slá, til dæmis.
En hér er uppstillingin og mér sýnist sem þetta stefni í 4-4-1-1, með McNeil og Harrison á köntunum, Doucouré í holunni og Calvert-Lewin að leiða línuna. Calvert-Lewin er með þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum fyrir Everton — og var reyndar mjög óheppinn að skora ekki líka í síðasta leik, til dæmis, eins og við þekkjum. Liverpool hefur aðeins haldið hreinu einu sinni í síðustu 10 deildarleikjum og fengið á sig upphafsmark í 21um af 46 leikjum. Eingöngu lið Tottenham (153) er með fleiri skot á mark á tímabilinu en Everton (133).
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Branthwaite, Young, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Patterson, Gana, Danjuma, Dobbin, Chermiti, Beto.
Everton með fyrsta færi leiksins strax á 40. sekúndu, settu pressu á varnarlínu Liverpool og unnu boltann framarlega á miðsvæðinu. Snöggur hár bolti fyrir á Calvet-Lewin, sem skallaði á rammann en Allison varði.
Liverpool aðallega hættulegir í skyndisóknum, og fengu ágætt færi eftir eina slíka, þar þeir náðu yfirtölu og Diaz komst í færi vinstra megin í teig Everton, en Ashley Young var mættur til að skriðtækla fyrir skotið og senda boltann aftur fyrir endamörk.
Everton leyfði Liverpool að vera mikið með boltann en Liverpool náði ekki fyrsta skoti á rammann fyrr en á 32. mínútu þegar einhver miðjumaður þeirra reyndi skot af mjög mjög löngu færi. Líklega þessi Hoboszlai hjá þeim, hann var duglegur að reyna skot úr vonlausum færum.
Liverpool ekki að ná að brjóta niður skipulagða vörn Everton og þurftu á endanum smá hjálp frá dómaranum. Því að á 36. mínútu tókst Ashley Young að næla sér í sitt seinna gula spjald, þegar hann sparkaði niður Diaz sem var að komast inn í teig. Rautt spjald og Everton því manni færri næsta klukkutímann. Garner þar með færður í hægri bakvörð.
Everton var samt ógnandi — manni færri — það sem eftir lifði hálfleiks. McNeil átti skot að marki rétt utan teigs, sem breytti um stefnu og fór rétt yfir markið. Og undir lok hálfleiks kom Pickford Calvert-Lewin í gott færi — ef Calvert-Lewin hefði náð að stjórna boltanum almennilega með kassanum, eftir langa sendingu fram, hefði hann verið kominn einn á móti Allison, en í staðinn missti hann boltann frá sér.
0-0 í hálfleik.
Dyche gerði tvær breytingar á liði sínu í hálfleik til að bregðast við rauða spjaldinu, tók kantmennina út af (McNeil og Harrison) og setti inn á Pattersson (í hægri bakvörð) og Keane (í miðvörðinn). Þulirnir giskuðu á að Everton myndi fara í 3-5-1 uppstillingu, færa Garner aftur á miðjuna, og nota Mykolenko og Patterson sem wingback en þetta leit meira út eins og 5-3-1 í upphafi og Everton sat mun dýpra en í fyrri hálfleik.
Salah fékk skotfæri á 50. mínútu, þegar boltinn datt pínu óvænt vel fyrir hann á vítapunktinum, en Tarkowski skriðtæklaði fyrir skotið og náði að blokkera það.
Beto inn á fyrir Calvert-Lewin á 60. mínútu.
Á 64. mínútu hefði Konate alveg mátt fá sitt seinna gula spjald þegar hann braut á Beto sem var að fara að elta langan bolta fram og reyna skyndisókn. Dómarinn lét það vera og Klopp andaði léttar og kippti honum strax út af. Segir ákveðna sögu.
Liverpool var á þessum tímapunkti (eftir vel rúmlega klukkutíma leik) bara búið að ná einu skoti á rammann — gegn 10 mönnum, og það var langskotið í fyrri hálfleik. En þeir náðu loks öðru þegar Nunez reyndi skot af mjög löngu færi sem Pickford var ekki í neinum vandræðum með. Engin hætta.
Á 74. mínútu fengu Liverpool svo hjálpina sem þeir þurftu til að næla sér í almennilegt færi þegar VAR kom þeim til bjargar. Diaz reyndi fyrirgjöf frá vinstri og skaut í hendina á Keane af mjög stuttu færi. Mjög tæpt víti, þar sem Keane var það nálægt Diaz, en hann getur eiginlega bara kennt sjálfum sér um, með hendina útrétta að reyna að verjast. Salah fór á punktinn og skoraði. Mykolenko var búinn að vera með hann í vasanum allan leikinn og hann þurfti því víti til að ná að skora.
Danjuma kom inn á fyrir Onana á 80. mínútu og Chermiti inn á fyrir Mykolenko á 88. mínútu.
Harvey Elliot reyndi enn eitt langskot Liverpool á 90. mínútu sem leit út fyrir að ætla í neðanverða slána en Pickford náði að snúa því í ofanverða slána og verja í horn.
Mínúturnar liðu og Everton reyndi, djúpt í uppbótartíma, að skora jöfnunarmark þó þeir væru manni færri og fengu þá á sig skyndisókn sem Salah skoraði úr. Nýkominn upp úr rassvasanum á Mykolenko.
2-0 niðurstaðan.
Heilt á litið held ég að ef Liverpool hefði ekki fengið hjálp frá dómaranum hefðu þeir getað spilað í 180 mínútur án þess að ná að skora, þeir voru það mistækir 11 á móti 11. Úrslitin voru ekki okkur að skapi, en þetta var flott barátta og vel skipulagður leikur hjá Everton sem — manni færri — hélt liðinu inn í leiknum í þrjá stundarfjórðunga.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Young (3), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Garner (5), Onana (6), Harrison (5), Doucoure (6), McNeil (5), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Keane (5), Patterson (5), Beto (6), Danjuma (6).
Ég fer ekki fram á mikið, bara að menn berjist og gefi allt í leikinn.
2 stór mistök hjá Everton og það var nóg fyrir Liverpool. Vill ekki sjá Keane spila aftur fyrir Everton gaf víti. Brotið mjög heimskulegt hjá Ashley Young. Ofmetinn leikmaður mín skoðun. Vill frekar að Patterson byrji næstu leiki fyrir Everton. Besti leikur Mykolenko sem ég hef séð hjá lengi hjá honum fyrir Everton, Fannst miðverðirnir frábærir hjá Everton og Onana var líka frábær. Ættum að prófa að spila bæði Lewin og Beto saman allavega á móti veikari liðunum. Stórfurðuleg skipting að taka báða vængmennina útaf í einu. Hefði aldrei tekið MacNeill útaf ótrúlegur leikmaður.
Alveg eins hægt að gefa þessa leiki fyrirframt.
Young fær spjald fyrir sitt fyrsta brot.
2 mín síðar brýtur Liverpool maður á Harrison nákvæmlega eins á Harrison, hans þriðja brot.
Ekkert spjald.
Svo ákveður dómarinn að spjalda ekki Liverpool mann á gulu fyrir að stöðva viljandi upphlaup Everton. Það eru alltaf gefin spjöld á þannig brot í fótbolta. En ekki á Anfield. Meira að segja Klopp var hissa.
Það hreint og klárt svindlar þetta Liverpool pakkk. Með fjölmiðla og dómara í vasanum – nánast eins það leggur sig.
Það er ekkert að því að leggja línurnar í dómgæslu með þeim hætti sem gert var í dag. En það minnsta sem hægt er að biðja um er að jafnt gildi um bæði lið. Tsimikas fékk að brjóta af sér þrisvar, eins og Þór bendir á — og þar var síðasta brotið nánast copy-paste af brotinu sem gaf Young fyrra gula spjaldið. Ekkert gefið. Pirrandi, en það hafði samt takmörkuð áhrif á leikinn.
Konate ákvörðunin (að sleppa seinna gula spjaldinu í stöðunni 0-0) er lítið annað en skandall og ég er sammála Dyche með það að leyfa VAR að skoða svona mistök. Þú gætir safnað gulum spjöldum fyrir svona brot í lítinn haug að tímabili loknu. Alltaf gult spjald.
Það þarf ekkert að koma á óvart að dómgæslan sé þeim hliðholl, það er alltaf þannig í þessum leikjum. Það er algjörlega óþolandi, og eins og Þór sagði hér að ofan, það má eiginlega bara sleppa því að spila þá.
Eitthvað segir mér samt að þetta verði ekki síðasti leikurinn á tímabilinu þar sem dómaragengið verður á móti okkur.
Ég er samt ekki viss um að úrslitin hefðu orðið öðruvísi þó svo að Konate hefði verið rekinn út af. Mér fannst Dyche allt of bráður í að pakka í vörn í hálfleik og taka bæði Harrison og McNeil af velli. Með þá inni á vellinum höfðum við amk einhverja smá ógn fram á við plús það að þeir eru báðir gríðarlega duglegir að vinna varnarvinnuna, þar fyrir utan var Livarpool ekki að gera neitt til að valda usla í vörn Everton þessar ca 10 mínútur sem liðu frá rauða spjaldinu og fram að leikhléi.
Ég vil því meina að Dyche hafi með skiptingunum í hálfleik komið í veg fyrir að við fengjum eitthvað út úr þessum leik, og svo vissi maður auðvitað strax þegar Keane birtist að hann myndi gefa þeim eitthvað. Hann var reyndar frekar óheppinn í þessu tilfelli því hann er að hlaupa og þá sveiflar maður höndunum og þetta var af mjög stuttu færi, en týpískur Keane, hann finnur alltaf leið til að klúðra einhverju.
West Ham næst UPTFT!