Everton – Bournemouth 3-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 8. umferð ensku með heimaleik (gúlp) á móti Bournemouth. Það er ekki laust við það, miðað við reynsluna af tímabilinu hingað til, að maður myndi óska þess að geta bara spilað alla leiki á útivelli. En, stíflan á heimavelli hlýtur að bresta bráðum.

Góðu fréttirnar sem bárust fyrir leik voru þær að Branthwaite, miðvörðurinn ungi sem hefur verið einn af ljósu punktum tímabilsins, hafi gert langtímasamning við Everton til júni árið 2027. Það eru algjörlega frábærar fréttir, enda virðist hann vera mjög efnilegur.

Það kom svo í ljós rétt fyrir leik að Gana hafði meiðst í upphitun og því kom Onana inn í byrjunarliðið fyrir hann.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Tarkowski, Branthwaite, Young, McNeil, Onana, Garner, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Godfrey, Keane, Patterson, Dobbin, Danjuma, Chermiti, Beto.

Ég missti af fyrstu mínútunum en Everton skoraði strax á 6. mínútu þegar þeir voru að dóla með boltann í öftustu línu. Einn af þeim hrasaði í sendingu og Garner náði lausa boltanum og þar með komst Everton í þrjá-á-móti-tveimur stöðu. Garner brunaði með boltann að marki, hafði mann bæði vinstra og hægra megin við sig til að gefa á, en sá að markvörður var illa staðsettur og ákvað að leggja boltann bara framhjá varnarmanni og markverði og skora! 1-0 fyrir Everton. Þulurinn hafði á orði að Everton hefðu byrjað leikinn líflega og Bournemouth væru að ströggla, sem var rétt. Restin af hálfleiknum var fjörugur, sérstaklega í sóknarleik Everton, sem var klárlega betra liðið.

Everton fékk frábært tækifæri á 17. mínútu eftir háa aukaspyrnu inn í teig frá McNeil. Bournemouth menn reyndu hreinsun með skalla en boltinn barst til Harrison, sem var inni í teig aðeins til vinstri og náði góðu skoti á mark en því miður í bakhlutann á Calvert-Lewin, sem var að reyna að forða sér undan skotinu. Boltinn barst hins vegar til Doucouré sem var við D-ið og reyndi fast skot, sem var blokkerað af varnarmanni, sem tók kraftinn úr skotinu og markvörður náði því að verja.

Ágætis pressa fylgdi í kjölfarið, þar sem þeir settu Bournemouth í nauðvörn og unnu fjögur horn í röð en náðu ekki að nýta sér þau. Bournemouth náðu að komast aðeins inn í leikinn eftir þetta, án þess að skapa sér teljandi færi.

Annað mark Everton kom svo á 37. mínútu eftir ágang Everton að marki Bournemouth. Tvisvar (þrisvar?) reyndu þeir háa sendingu inn í teig sem Neto, markvörður, sló alltaf jafn harðan frá marki, en í síðasta skiptið hrasaði hann um eigin varnarmann og Harrison nýtti sér það, utarlega í teig hægra megin — tók viðstöðulaust skot yfir markvörð og í neðanverða slána og inn í markið! Everton þar með komið í 2-0 forystu!

Everton fékk tvö frábær tækifæri á lokasekúndunum til að bæta við þriðja markinu fyrir hálfleik. Calvert-Lewin skallaði háa fyrirgjöf upp við mark í slána og út og örskömmu síðar náði Onana skoti inni í miðjum teig nálægt marki, en rétt framhjá stönginni.

Everton 2-0 yfir í hálfleik, og Bournemouth menn máttu þakka fyrir að forskotið væri ekki stærra.

Everton var næstum búið byrja seinni hálfleik með sama hætti og þann fyrri, með marki snemma eftir að hafa stolið boltanum af öftustu varnarlínu Bournemouth. Calvert-Lewin náði að setja varnarmann þeirra undir pressu og þvinga mistök úr honum, þannig að Doucouré komst í lausan bolta, komst inn í teig og náði skoti á mark, en varið.

En Everton skoraði þriðja markið á 60. mínútu. Onana vann boltann við miðlínu vinstra megin og sóknin hófst. McNeil komst upp að endalínu vinstra megin og sendi frábæra háa sendingu á fjærstöng þar sem Harrison lúrði og náði flottum skalla á mark, sem var blokkeraður af varnarmanni. Laus bolti út í teig til Doucouré sem þrumaði inn í autt markið. 3-0 fyrir Everton!

Og sóknarþungi Everton jókst bara við markið.

Calvert-Lewin komst í dauðafæri, einn á móti markverði með varnarmann á hælunum, eftir stungusendingu frá McNeil. Náði að „chip-a“ boltanum framhjá markverði en boltinn skoppaði rétt framhjá stöng utanvert.

Everton með 18 tilraunir á mark eftir 67 mínútur, þar af 5 á mark. Engin tilraun á mark frá Bournemouth og þetta var eiginlega bara einstefna þangað til á 71. mínútu, þegar Solanke náði slökum skalla á mark af löngu færi.

Onana fékk tvö frábær færi í sömu sókn á 75. mínútu, eftir horn frá McNeil. Það fyrsta var skallafæri sem hann setti í stöng (eða í varnarmann upp við stöng, sá það ekki) og það seinna var skot úr þröngu færi sem markvörður varði vel.

Harrison fór svo út af fyrir Patterson á 78. mínútu.

Bournemouth menn fengu sjaldgæft færi í kjölfarið. Náðu skalla á mark sem McNeil náði að hreinsa á línu. Everton brunaði í skyndisókn strax á eftir og Doucouré náði að setja McNeil í skotfæri inni í teig en skotið beint á markvörð.

Bournemouth náðu öðrum skalla á mark á 82. mínútu en Pickford vandanum vaxinn og sló boltann út í teig.

Beto kom inn á fyrir Calvert-Lewin á 83. mínútu og Chermiti fyrir Doucouré nokkrum mínútum síðar.

Bæði Chermiti og Beto fengu ágætis færi undir lokin. Chermiti fékk stungusendingu sem markvörður náði að koma á móti og loka á og Beto átti skot í hliðarnetið vinstra megin í síðasta markverða atriði leiksins.

Það skipti þó engu, því Everton stóð upp sem sigurvegari með þrjú mörk í fararteskinu, frá Garner, Harrison og Doucouré, án nokkurs svars frá Bournemouth.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7); Young (8), Tarkowski (8), Branthwaite (7), Mykolenko (7); Harrison (9), Onana (8), Garner (8), McNeil (8); Doucoure (9); Calvert-Lewin (8).

Maður leiksins að mati Sky Sports var Jack Harrison. Aðeins einn leikmaður Bournemouth náði upp í 7, en aðrir voru lægri.

8 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Ekkert nema sigur er ásættanlegt í dag. Hann heldur sig við not so young og fróðlegt að lesa að samband þeirra hefur varað frá því þeir léku saman hjá watford sautjánhundruð og súrkál og dyche hefur reynt að klófesta hann áður. Sem betur fer náði hann honum áður en hann verður fimmtugur en dyche er víst þrjóskari en allt þegar kemur að leikmannavali eða breytingum. Væri gott að losna við dyche fljótlega en áfram EVERTON

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta fer 0-2.

  3. Ari S skrifar:

    Frábær leikur okkar manna í dag. Til hamingju með sigurinn Everton aðdáendur. Dyche verður áfram.

  4. Hallur skrifar:

    Voru ansi góðir í gær

  5. Finnur skrifar:

    Jack Harrison í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/67043184?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA

  6. AriG skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton. Finnst nýi leikmaðurinn Jack Harrison stórkostlegur og markið hans frábært. Frábært að fá hann frítt. Eina sem ég mundi samt vilja breyta vill að Patterson byrji oftar leiki. Bestu leikmennirnir fannst mér vera Harrison, McNeil, Garner og Doucoure annars voru allir góðir enginn slakur.