Everton – Luton 1-2

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að sjöundu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en nú mæta nýliðar Luton til leiks á Goodison Park, klukkan 14:00 að íslenskum tíma. 

Það er ótrúlegt hvað viðhorfið og andrúmsloftið innan okkar raða hefur breyst mikið eftir síðustu tvo sigurleiki, fyrst gegn Brentford í deild og svo Aston Villa í Deildarbikarnum — og báðir á útivelli! Það var klárlega kominn tími á að úrslitin endurspegluðu frammistöðuna (sem fyrstu leikirnir gegn Fulham og Wolves gerðu alls ekki) og voru sigrarnir báðir voru mjög verðskuldaðir.

Luton menn eru sem stendur í þriðja neðsta sæti með eitt stig, eftir jafntefli á heimavelli á dögunum gegn Wolves. Það er líklegt að væntingarnar til Everton verði miklar fyrir þennan leik, í ljósi úrslita síðustu tveggja leikja, en það er mikilvægt að vanmeta ekki Luton og klára dæmið.

Enn er nokkuð um meiðsli í herbúðum okkar manna, en Mykolenko er tæpur að ná þessum leik og verður metinn á leikdegi. Coleman, Dele Alli og Gomes eru hins vegar allir frá. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Jack Harrison hefur náð að jafna sig af sínum meiðslum, enda var hann í byrjunarliðinu í síðasta leik, gegn Aston Villa.

Hjá Luton bárust þær fréttir að miðjumennirnir Albert Sambi Lokonga (lánsmaður frá Arsenal) og Ross Barkley, sem við ættum öll að þekkja, séu báðir meiddir.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Branthwaite, Young, Gana, McNeil, Onana, Garner, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Godfrey, Keane, Patterson, Harrison, Dobbin, Danjuma, Chermiti, Beto.

Fjörugur fyrri hálfleikur í mígandi rigningu á Goodison Park. McNeil fékk fyrsta færið á 4. mínútu, frábært skotfæri rétt við teiglínuna en boltinn sleikti utanverða stöngina hægra megin. Luton menn heppnir þar. Calvert-Lewin fékk, aðeins mínútu síðar, flott skallafæri tiltölulega nálægt marki en skallaði beint á markvörð.

4-4-1-1 uppstilling hjá Everton í dag með Doucouré í holunni fyrir aftan Calvert-Lewin.

Everton komst í flotta skyndisókn á 10. mínútu og Doucouré sá flottan sprett hjá Garner upp hægri kant og sendi langa háa sendingu á hann. Hann náði að komast inn í teig, feika skot og leika á varnarmann Luton, en skotið sem fylgdi strax í kjölfarið fór rétt framhjá stöng vinstra megin.

Onana og Doucouré gerðu vel inn í teig að leggja upp skotfæri fyrir Gana, við D-ið á vítateignum á 12. mínútu, en skotið frá Gana vel framhjá marki — eins og alltaf þegar hann reynir skot, eiginlega. Onana fékk svo næsta skotfæri, var óvaldaður ekki langt frá D-inu, en skotið rétt framhjá stönginni hægra megin. 

Fimm skotfæri frá Everton fyrsta korterið úr ágætis færum. Það eina sem Luton menn höfðu fram að færa voru einstaka horn þangað til þeir náðu loks skalla á mark (eftir horn) á 20. mínútu. Og að sjálfsögðu skoruðu þeir svo úr næsta horni á 24. mínútu. Náðu skalla innan teigs í neðanverða slána og niður, boltinn barst til Young sem reyndi hreinsun af línu en Lockyear náði að blokkera það þannig að boltinn endaði í netinu. Týpískt. Luton komnir með mjög svo óverðskuldað 0-1 forskot.

Calvert-Lewin fékk skallafæri upp við mark eftir frábæra sendingu utan af vinstri kanti frá McNeil en skallinn framhjá marki.

Annað mark Luton kom svo á 31. mínútu og aftur kom það eftir fast leikatriði, í þetta skipti aukaspyrnu langt utan af velli. Vörn Everton var ekki að telja rétt, þrír að dekka einn og maðurinn sem Mykolenko átti að dekka var á auðum sjó hægra megin í teig (frá þeim séð), fékk háa sendingu og þrumaði í hliðarnetið í fyrstu snertingu. Staðan orðin 0-2 fyrir Luton.

McNeil sendi frábæra háa sendingu fyrir mark á 37. mínútu þar sem Garner var vel staðsettur, óvaldaður alveg upp við mark en skallaði í slána og út. 

Calvert-Lewin kom boltanum í mark fyrir Everton á 41. mínútu og það fékk langa skoðun í VAR til að skera úr um rangstöðu. Það stóð afskaplega tæpt og manni fannst hálf skrýtið að það skyldi verið skoðað, því mér sýndist varnarmaður kippa Onana niður inn í teig örskömmu áður. En, markið var dæmt löglegt, sem betur fer, þannig að það reyndi ekki á það. Staðan orðin 1-2.

Og þannig var það í hálfleik. Everton með boltann 70% leiks, með miklu fleiri sendingar, skot og bolta sem rötuðu á rammann. Luton eingöngu með hærri tölur í fjölda horna og fjölda brota.

Ein breyting á liði Everton í hálfleik — Jack Harrison inn á fyrir Gana Gueye. Garner þar með færður í stöðu Gana og Harrison fór á hægri kant.

Rólegra um að litast í seinni hálfleik en í þeim fyrri og færin létu á sér standa. Einstaklega frústrerandi hálfleikur.

Beto kom inn á fyrir Doucouré á 60. mínútu og þar með tveir í framlínunni hjá Everton, sem hefur ekki gerst lengi — og í fyrsta skipti sem bæði Calvert-Lewin og Beto eru saman í framlínunni, svo ég muni. Ekki samt hægt að segja að sóknarleikur Everton hafi batnað mikið við að hafa tvo frammi.

Stuttu síðar sendi Tarkowski langa háa sendingu fram völlinn, inn í teig, þar sem Calvert-Lewin tók viðstöðulaust skot með vinstri en rétt framhjá fjærstöng hægra megin. 

Luton menn komu boltanum í netið með skalla á 63. mínútu, en voru réttilega dæmdir rangstæðir í aðdragandanum.

Á 74. mínútu átti Calvert-Lewin að fá víti, að mínu mati, þegar hann komst í færi innan teigs hægra megin og varnarmaður keyrði aftan í bakið á honum til að komast í boltann. Dómari ekki áhugasamur um það.

Áfram hélt sóknin. Beto fékk fínt skallafæri upp við mark á 76. mínútu en skallinn frá honum lélegar og boltinn fór rétt yfir slána. 

Dyche gerði tvær breytingar á fimm mínútna kafla, til að fríska upp á leik Everton. Fyrst kom Patterson inn á fyrir Young á 78. mínútu og svo Danjuma inn á fyrir McNeil á 84. mínútu.

Sóknin Everton þyngdist þegar á leið en ekki náðist þetta í lokin.

Sjö mínútum var bætti við en það eina markverða sem gerðist var þegar Calvert-Lewin komst í færi inni í teig hægra megin eftir langa sendingu fram, en setti boltann í utanvert hliðarnetið hægra megin.

1-2 tap mjög svo dapurleg staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Young (5), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Garner (6), Onana (5), Gueye (5), McNeil (6), Doucoure (5), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Harrison (6), Beto (5).

7 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Fimm góðar marktilraunir á fyrstu fimmtán mínútum hjá okkar mönnum. Góð byrjun og lýtur vel út. Ef okkar menn ná að skora fyrsta markið, þá vinnum við 2-0.

    Áfram Everton, höldum áfram að vona það besta. Getum ekki annað gert haha.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta lið er svo mikið Jekyll og Hyde, stundum frábært en oftast algjört drasl….eins og í dag.
    Þetta verður fyrsti og eini sigur Luton á tímabilinu, endar 1-4.

    • Þór skrifar:

      Flest lið með glórulausa þjálfara eru óútreiknanleg.

      Úrslit alltaf hrein hending – yfirleitt slæm.

      Sean Dyche á ekki að koma nálægt félagi eins og Everton.

      Ég meina, hversu lengi á að ráða vonlausa menn í þetta starf?

      Þangað til eigendur eru búnir með allan peninginn og félagið gjaldþrota (a fool and his money will soon depart, sagði Benjamin Franklin).

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Everton er verra en Chelsea.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og næst er það Bournemouth sem hefur ekki ennþá unnið leik. Ég held að það viti allir hvað gerist á Goodison um næstu helgi, spái 0-2 fyrir Bournemouth.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er nóg af atvinnulausum þjálfurum sem gætu örugglega gert meira með leikmannahóp Everton heldur en Dyche, td Galtier, Favre eða Potter.

    https://www.transfermarkt.com/trainer/verfuegbaretrainer/statistik