Aston Villa – Everton 1-2 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að þriðju umferð deildarbikarsins og í þetta skipti eru mótherjarnir Aston Villa á útivelli. Hér gefst okkar mönnum tækifæri á að hefna ófaranna gegn þeim fyrr á tímabilinu en því verður ekki neitað að þetta er stórt verkefni.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski (fyrirliði), Branthwaite, Keane, Onana, Garner, Harrison, Danjuma, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Godfrey, Young, Gana, Doucouré, McNeil, Dobbin, Chermiti, Beto.

Lánsmaðurinn Harrison fær sinn fyrsta leik með Everton og fer beint í byrjunarliðið. Athyglisverð uppstilling annars — gæti verið 5-4-1 með Danjuma og Harrison á köntunum og Onana og Garner á miðsvæðinu. Þrír miðverðir í hjarta varnarinnar.

Ágætis byrjun á leiknum hjá Everton — ákefð og pressa. Villa með fyrstu sóknina sem gaf færi: tvö skot frá Tielemans, það fyrra blokkerað og það seinna hátt yfir. En að öðru leyti komust þeir aldrei í gang í fyrri hálfleik og áttu hverja feilsendinguna á fætur annarri og mistök í öftustu línu.

Everton hins vegar með fyrsta markið. Villa menn voru eitthvað að dóla í vörninni og létu stela af sér boltanum. Á endanum skallaði Danjuma lausan bolta til Onana sem, rétt utan teigs vinstra megin, sendi stungusendingu inn fyrir á Garner sem kom á hlaupinu, lagði boltann fyrir sig með hægri og þrumaði inn með vinstri framhjá Olsen í markinu. 0-1 fyrir Everton!!

Villa menn voru nær því að skora sjálfmark en að jafna í fyrri hálfleik þegar varnarmaður þeirra reyndi skot á eigið mark af stuttu færi, en markvörður Villa rétt náði að bjarga þeim (eða heyrðist mér þulurinn segja að stöngin bjargaði þeim? Sá ekki endursýningu). 

Calvert-Lewin fékk frábært færi sem Harrison skapaði fyrir hann örskömmu síðar, en Olsen í markinu kom Villa til bjargar með flottri vörslu í hlaupi út á móti. Frákastið til Calvert-Lewin en boltinn í hliðarnetið.

Og þannig var það í hálfleik 0-1 fyrir Everton. Frábær fyrri hálfleikur, sem Everton átti skuldlaust — Villa menn voru arfaslakir. Áttu ekki einu sinni skot sem rataði á rammann úr tveimur sóknum (þrjár tilraunir samtals).

Þreföld skipting hjá Aston Villa í hálfleik, sem segir ákveðna sögu um hvaða augum Villa menn litu fyrri hálfleik. Ein skipting hjá Everton, Young inn á fyrir Mykolenko.

En vandræði Villa héldu bara áfram þrátt fyrir liðsaukann og Everton bætti við marki aðeins fimm mínútum síðar. Tielemans sendi arfaslaka sendingu aftur á miðvörð sinn, á 50. mínútu, sem Calvert-Lewin komst inn í, komst auðveldlega framhjá miðverðinum og lagði boltann vinstra megin í markið, eftir að hafa komist einn á móti markverði, sem kom út á móti. Staðan orðin 0-2 fyrir Everton!

Þetta kveikti loksins pínu neista í Villa mönnum, sem komust í dauðafæri á 52. mínútu, vinstra megin í teig en Pickford varði lágt skot vel með ökklanum og hélt okkar mönnum inni í leiknum.

Nokkrum mínútum síðar hefði mátt heyra saumnál detta ef ekki hefði verið fyrir stuðningslið Everton á pöllunum sem sungu hástöfum, enda Everton tveimur yfir á útivelli. Fjör þar.

Onana átti ágætt skot utan teigs á 59. mínútu en boltinn rétt yfir slána. Calvert-Lewin komst svo í fínt færi á 63. mínútu en skotið varið af markverði út í teig og Villa menn voru mjög heppnir að boltinn endaði ekki hjá Harrison heldur hjá varnarmanni. 

Harrison var svo skipt út af í kjölfarið fyrir McNeil og nokkru síðar (á 72. mínútu) komu Beto og Gaeye inn á fyrir Calvert-Lewin og Danjuma.

Villa stuðningsliðið og þeirra leikmenn urðu meira og meira frústreraðir eftir því sem á leið leik og fóru að brjóta meira af sér (leikmennirnir, þeas, ekki stuðningsliðið). En það var bara ekkert að frétta hjá þeim lengi vel (bæði leikmönnum og stuðningsliðinu).

Doucouré kom svo inn á fyrir Onana á 78. mínútu.

En Villa menn náðu loks marki á 83. mínútu með smá heppni og þar var um að ræða langskot sem breytti um stefnu af Keane. Eftir heilan afleitan leik hjá Villa voru þeir, mjög svo óverðskuldað, komnir aftur inn í leikinn — á skítamarki. Týpískt.  

Á 88. mínútu komst Beto einn á móti markverði, en var dæmdur rangstæður í aðdragandanum. Þar saknaði maður þess að hafa ekki VAR, þar sem þetta stóð mjög tæpt. 

Villa menn settu upp fínt skotfæri af löngu færi eftir aukaspyrnu á 91. mínútu en Pickford var vandanum vaxinn. Þetta reyndist síðasta færi þeirra í leiknum.

Fimm mínútum var bætt við en þær hefðu getað verið 20 því Villa menn höfðu engin svör við þessu og Everton fór áfram í fjórðu umferð Deildarbikarsins. Villa menn voru fram að þessu búnir að vinna tíu heimaleiki í röð, heyrðist mér þulurinn segja. 

Sú runa varð ekki lengri í kvöld.

Það er ekki víst hvort Sky Sport munu birta einkunnir fyrir leikina í Deildarbikarnum, en ef svo munum við birta það hér.

7 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Mikið væri nú gaman ef Everton tækist að slá Villa út, en enginn heimsendir ef það tekst ekki þar sem deildin er aðalatriðið.
  Vona bara að okkar menn mæti grimmir í slaginn og verði ekki niðurlægðir þarna einu sinni enn.

 2. Finnur skrifar:

  Frábær sigur í kvöld og flott frammistaða. Nú er bara að vonast eftir heimaleik í næstu umferð sem verður spiluð í vikunni sem byrjar 29. október. Þetta eru liðin sem eftir eru:

  Úrvalsdeild:

  Arsenal
  Newcastle
  Liverpool
  Manchester United
  Chelsea
  Bournemouth
  Fulham
  West Ham
  Everton
  Burnley

  Championship:

  Ipswich
  Blackburn
  Middlesbrough

  League One:

  Exeter
  Port Vale

  League Two:

  Mansfield Town

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Við erum pottþétt að fara að fá útileik gegn Liverpool.

   • Finnur skrifar:

    Neibb, þeir fá Úrvalsdeildarliðið Bournemouth á útivelli 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Hér er drátturinn í 16 liða úrslitum í heild sinni, með deild liðs inn í sviga:

  Mansfield (D) – Port Vale (C)
  Ipswich (B) – Fulham (A)
  Man United (A) – Newcastle (A)
  Bournemouth (A) – Liverpool (A)
  Chelsea (A) – Blackburn (B)
  West Ham (A) – Arsenal (A)
  Everton (A) – Burnley (A)
  Exeter (C) – Middlesbrough (B)

  Ég er sáttur. Frábært að fá heimaleik á móti liði sem við eigum öllu jafna að vinna.

  • Finnur skrifar:

   Það er ljóst að sama hvernig fer, þá munu fjögur Úrvalsdeildarlið heltast úr lestinni, áður en að átta liða úrslitum kemur (og mögulega fleiri, ef t.d. Ipswich — sem eru í öðru sæti í Championship deildinni — koma á óvart á heimavelli gegn Chelsea, sem hafa verið brokkgengir á tímabilinu).

   Svo verða einnig _allavega_ tvö neðri-deildarlið í hattinum, þannig að þau Úrvalsdeildarlið sem komast áfram í átta liða úrslit eiga 50% möguleika á að mæta liði úr neðri deild (að því gefnu að neðri deildarliðin tvö spili ekki innbyrðis, það er að segja).

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Frábær frammistaða og ekki neitt yfir neinum að kvarta, ekki einu sinni Keane en alveg týpískt að boltinn fór af honum í netið.
  Þetta var eiginlega bara frekar þægilegt þangað til þeir skoruðu þetta grísamark en vörnin var þétt og gaf engin færi á sér.
  Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á vera, þetta er svo óvenjulegt. Tveir sigrar í röð, og það á innan við einni viku. Þetta getur varla boðað gott….eða hvað?