Mynd: Everton FC.
Everton mætti í heimsókn til Brentford í sjöttu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en flautað var til leiks kl. 16:30.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Young, Gana, Onana, Doucouré, Garner, McNeil, Beto.
Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Patterson, Mackenzie Hunt (miðjumaður), Dobbin, Danjuma, Chermiti, Calvert-Lewin.
Sem sagt, sama byrjunarlið og í síðasta leik, nema hvað Garner kom inn fyrir Danjuma.
Þetta var fjörugur leikur frá upphafi. Brentford voru reyndar seinir í gang og fyrir utan eitt gult spjald sem þeir þvinguðu út úr Ashley Young (sem þurfti að stoppa skyndisókn) var frekar lítið að frétta af þeim fyrsta hálftímann eða svo — en þeim mun meira frá Everton.
Everton gekk náttúrulega á lagið og skoraði mark, strax á 6. mínútu. Garner fékk tvær tilraunir til að koma háum bolta inn í teig, sú fyrri úr horni sem varð (eftir hreinsun) næstum að skyndisókn frá Brentford en Everton kom boltanum aftur til Garner á vinstri kanti og í þetta skiptið fann hann Tarkowski inn í teig, sem skallaði til Doucouré, sem tók viðstöðulaust skot í hægra megin uppi í hornið. Óverjandi fyrir markvörð Brentford og staðan orðin 0-1 fyrir Everton!
Everton bætti næstum við marki á 14. mínútu þegar Beto setti McNeil inn fyrir vörn Everton með því að framlengja langa háa sendingu áfram í hlaupaleið McNeil, en því miður fór boltinn rétt framhjá fjærstöng, hægra megin, eftir skotið frá McNeil.
Næsta færi átti einnig Everton, þegar boltinn barst óvænt til Mykolenko á 21. mínútu og hann var á auðum sjó í teignum utarlega en skotið máttlaust og markvörður náði að kasta sér á það. Hefði átt að gera betur þar.
Everton hefði svo átt að bæta við marki á 27. mínútu þegar Doucouré fékk langa frábæra sendingu fram frá Tarkowski, náði að leggja boltann fyrir sig með fyrstu snertingu á kassanum og náði flottu skoti, af eiginlega nákvæmlega sama stað og síðast (vinstra megin í teig nálægt marki), en í þetta skiptið fór boltinn í neðanverða slána og út aftur. Brentford menn stálheppnir þar, hefðu átt að vera komnir allavega tveimur mörkum undir.
En svo var eins og við manninn mælt að Brentford menn náðu komu boltanum í netið strax í næstu sókn (aðeins 89 sekúndum síðar) eftir smá pinball og mikla lukku (Brentford megin) endaði boltinn hægra megin í teig og þeir skoruðu með skoti sem Pickford rétt náði hendi á — sem kom í veg fyrir að Tarkowski næði að blokkera skotið. Í staðinn fyrir að Tarkowski næði að hreinsa endaði boltinn í stöng og inn. Fyrsta skot Brentford á markið, sem höfðu á fyrsta hálftímanum ekki boðið upp á neitt markvert. Brentford menn heppnir líka að sleppa við rangstöðuna en VAR tók langan tíma að skera úr um það.
Gana átti frábæra stungusendingu gegnum vörn Brentford á 36. mínútu og Beto komst þar í dauðafæri hægra megin í teig, einn á móti markverði með varnarmann á hælunum. Beto gerði allt rétt, náði að koma boltanum yfir markvörð og í átt að marki en því miður rétt framhjá stöng. Enn og aftur skall hurð nærri hælum við mark Brentford.
Brentford menn fengu svo dauðafæri á 42. mínútu eftir mistök frá Gana, sem lét stela af sér boltanum á miðsvæðinu og það skapaði skyndisókn frá Brentford. Þeir náðu að komast í ákjósanlega stöðu inni í teig hægra megin og náðu lágum bolta fyrir mark. Þar var ungliði þeirra af vinstri kanti mættur á fjærstöng til að pota inn í autt netið, en með einhverjum ótrúlegum hætti náði Tarkowski að rétt svo breyta stefnu boltans áður en boltinn barst til Brentford mannsins. Þetta var ekki nóg snerting til að skora sjálfsmark (og nóg var hættan á því!), bara rétt nægilegt til að fipa manninn í dauðafæri og láta boltann fara í sköflunginn þannig að boltinn fór réttu megin við stöngina (utan við markið). Útspark. Maður horfði á þetta gerast í beinni og hugsaði með sér, hvernig í ósköpunum fór hann að því að skora ekki?!
Everton hefði getað verið komið með þriggja marka forystu á þeim tíma, en Brentford menn hefðu líka getað verið í stöðunni 2-1.
1-1 samt í hálfleik.
Everton átti tvö skot á rammann í upphafi fyrri hálfleiks, það fyrra var vongóð tilraun af mjög löngu færi frá Beto, sem sá að markvörður Brentford var kominn langt út úr teig (en ekkert kom út úr því) og hitt skot frá McNeil sem var auðveldlega varið.
En Everton hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik, unnu fyrstu og oft líka seinni boltana og voru meira ógnandi og miklu ákveðnari og vinnusamari. Brentford menn höktandi og náðu aldrei almennilegum takti.
Færin létu á sér standa til að byrja með, báðum megin. Calvert-Lewin var svo skipt inn á fyrir Beto á 63. mínútu.
Tölfræðin í leiknum á 66. mínútu sýndi að Everton hafði átt 14 skot fram að því, þar af fjögur á rammann. Brentford áttu helmingi færri skot, þar af bara eitt (!) á rammann (sem var markið þeirra).
En aðeins mínútu síðar fékk Everton horn og upp úr því kom mark, sem var beint af æfingasvæði Sean Dyche. McNeil tók horn frá vinstri, hár bolti á fjærstöng, sem Tarkowski skallaði í netið. Einfalt og öruggt og staðan þar með orðin 1-2 fyrir Everton!
Þetta kveikti aðeins í leikmönnum Brentford, sem náðu að setja pressu á vörn Everton og það fór smá um mann, þó að þeir næðu aldrei að skapa sér almennilegt færi. Meira svona pinball leikur inni í teig þar sem hvert skotið á fætur öðru var blokkerað af varnarmönnum Everton. En svo fuðraði þetta bara upp hjá þeim og Everton voru eftir það líklegri til að bæta við mörkum en Brentford að jafna.
Pickford var næstum búinn að setja Calvert-Lewin í dauðafæri með langri sendingu fram völlinn á 70. mínútu, en boltinn örlítið of langur og í fangið á markverði Brentford.
En, á 72. mínútu kom þriðja mark Everton og Garner átti eiginlega nær allan heiðurinn af því. Hann setti pressu á miðjumann Brentford og stal boltanum af honum. Sendi svo frábæra stungusendingu gegnum vörn Brentford, þar sem Calvert-Lewin kom á hlaupinu, pikkaði upp boltann og setti hann gegnum klofið á markverði sem kom hlaupandi á móti. Fór í hælinn á honum, en samt inn. Staðan orðin 1-3 fyrir Everton og það var ekkert minna en liðið átti skilið!
Danjuma kom svo inn á fyrir Onana á 77. mínútu og Garner þar með færður á miðjuna.
Brentford menn náðu skoti á mark á 80. mínútu eftir háa sendingu inn í teig til hægri, en sóknarmaður þeirra, í erfiðu færi, náði ekki góðu skoti og því engin hætta. Pickford greip það bara.
Lokamínúturnar voru skemmtilegar enda Everton tveimur mörkum yfir og stuðningslið Everton lét vel heyra í sér á pöllunum. „Spirit of the Blues“ og fleiri söngvar hljómuðu. Yndislegt! Þeir sigldu þessu svo í höfn örugglega — Brentford menn áttu engin svör.
Þetta var frábær frammistaða liðsins og frábært svar við vonbrigðunum við frammistöðu Everton í Arsenal leiknum. Vinnusemi, elja og ákefð voru einkunnarorðin í dag. Reyndar, ekkert mjög ólíkt frammistöðunni gegn Fulham og Wolves, þó að í þeim leikjum hafi úrslitin ekki fallið með okkar mönnum, eins og við þekkjum.
En, meira svona! Luton næstir á heimavelli í Úrvalsdeildinni, en Aston Villa úti þess á milli í deildarbikarnum (á miðvikudaginn).
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Young (7), Mykolenko (7), Branthwaite (7), Tarkowski (8), Gueye (7), Garner (6), Onana (7), Doucoure (9), McNeil (8), Beto (7). Varamenn: Calvert-Lewin (7), Danjuma (5).
Maður leiksins: Abdoulaye Doucoure.
Þetta verður ljótt og þetta verður bras.
Ég skil ekki af hverju Young er alltaf í byrjunarliðinu, og ég skil ekki af hverju Garner er settur á hægri kantinn og næst ætlaði ég að segja að mér fyndist Doucoure alveg mega fá pásu, en hann var að skora svo ég ætla ekki að segja það.
Ég held samt að við töpum þessu, spái 4-1.
eg er bjartsynn og seigji 3-0 fyrir okkur
Ég er líka bjartsýnn og segi 3-1 fyrir okkur.
gott gisk Art
Mjög gott gisk, Ari. 🙂
Takk fyrir það strákar, fæ ég ekki verðlaun haha…
Annars var mjög notalegt að sjá okkar lið í dag. Þeir voru ekki bara betri í lieknum heldur unnu þeir og DOMINIC CALVERT- LEWIN vinur minn skoraði sitt fyrsta mark í marga mánuði. Kærkomið fyrir hann sérstaklega. Og okkur öll…. þetta var gaman 🙂
Til hamingju Everton! (stuðningsmenn)
Everton búnir að vera ágætir í fyrri hálfleik fyrir utan jöfnunarmarkið og næstu 10 – 15 mínúturnar þar á eftir, en mér fannst liðið fara soldið í panik eftir það. Þeir náðu sér samt ágætlega á strik aftur, vonandi gengur betur í seinni.
Sammála þér vonum það besta. En þetta lýtur ágætlega út, við þurfum að skora! 😉
Nú þarf að verjast
frábær sigur – Branthwaite og Calvin-Lewin eru fimm stjörnu leikmenn (næstir út gluggan?)
Það stefnir allt í það að í næsta glugga þá verði nýir eigendur farnir að stjórna Everton og BK farinn. Vonandi dugar það til að hafa Branthwaite áfram hjá félaginu ef hann er svona góður eins og hann sýndi í dag.
King Branthwaite!
Stórkostlegur leikur hjá Everton loksins. Hef ekki meira að segja.
Ég er hættur að klípa mig og nudda augun og búinn að átta mig á því að þetta var ekki draumur. Everton vann í alvörunni leik og það sem meira er, þetta var fyllilega verðskuldaður sigur. Nú væri gaman að sjá þá vinna á heimavelli líka til tilbreytingar.
attum þetta skilið vorum mikið betra lið
Þetta voru dauðakippirnir hjá Everton það munu koma nokkrir svona kippir í vetur
Þetta voru dauðakippirnir h
Vel gert! Fjórða kommentið frá þessum í röð, frá árslokum 2021, þar sem aðalumræðuefnið er „dauðakippir Everton“… #BiluðPlata
Tarkowski og Doucouré í liði vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/66907468?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA