Everton – Wolves 0-1

Mynd: Everton FC.

Þriðji leikurinn á tímabilinu er á Goodison Park gegn Wolves en þeir eru í nákvæmlega sömu stöðu og okkar lið eftir tvo leiki, þar af upphafsleik á útivelli gegn Manchester United, sem þeir stóðu sig mjög vel í og voru óheppnir að tapa (heldur ósanngjarnt) 1-0. Svo kom stórt tap í næsta leik. Í þeim leik misstu þeir af velli Mattheus Nunes, sem Manchester City hafa boðið í, en hann hefur verið einn af þeirra bestu mönnum. Hann verður hins vegar ekki með í dag út af brottrekstrinum.

Nokkuð er um meiðsli í okkar herbúðum en á meiðslalistanum eru Coleman, Dele Alli, Iwobi, Harrison og Calvert-Lewin. Gomes var auk þess að glíma við einhver minniháttar meiðsli og leikformið á Gbamin, Mykolenko, Chermiti og Danjuma er ekki vel þekkt stærð (hvað okkur stuðningsmenn varðar).

Uppstillingin: Pickford, Young, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, Gana, Dobbin, Onana, Doucouré, Garner, Danjuma.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Mykolenko, Keane, Godfrey, Onyango, Maupay, Cannon, Chermiti.

Athyglisverð uppstilling. Líklega 4-1-4-1 með Dobbin og Garner á köntunum og Danjuma frammi, en sjáum hvað setur.

Ég átti í smá erfiðleikum með útsendinguna þannig að ég náði ekki öllu en Everton virkuðu beittari þó þeim tækist ekki að skora. Wolves með tvær skottilraunir í fyrri hálfleik, en hvorug á markið.Fyrsta almennilega færið kom á 13. mínútu þegar Onanan setti Danjuma inn fyrir vörn Wolves með flottri stungusendingu. Danjuma komst einn á móti markverði og náði að koma boltanum framhjá markverði en setti hann í innanverða stöng og út aftur. Var hvort eð er rangstæður. 

Stuttu síðar reyndi Garner skot af löngu færi hægra megin við mark. Boltinn fór yfir á fjærstöng þar sem Dobbin tók hann á kassann og náði að stýra á mark en markvörður Wolves varði vel. 

Danjuma fékk frábært tækifæri á 36. mínútu eftir háa sendingu frá Patterson, sem var eiginlega út við hornfána hægra megin. Danjuma var óvaldaður og tók viðstöðulaust skot en framhjá. Hefði átt að skora þar.

0-0 í hálfleik.

Engin breyting á liði Everton í hálfleik, en Wolves gerðu eina skiptingu, líklega vegna meiðsla.

Everton fékk fínt færi á 54. mínútu eftir hornspyrnu frá Young. Hár bolti kom frá honum, í annarri tilraun, inni í teig, sem markvörður náði að slá út í teiginn aftur. Þar reyndi Garner (eða var það Patterson?) fast skot sem markvörður varði vel. Laus bolti í loftinu barst til Branthwaite, sem reyndi skalla á mark en beint í fangið á markverði. Enn eitt gott færið sem fór forgörðum þar.

Og það leit út fyrir að sagan væri að endurtaka sig frá síðasta heimaleik, þegar Everton var betra liðið og fékk nóg af færum en tókst ekki að nýta þau og fékk svo blauta tusku í andlitið. Wolves menn náðu nefnilega að setja boltann í netið, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Þvílíkur léttir. Ennþá 0-0.

En Everton hélt áfram að reyna að gefa Wolves þetta á silfurfati. Í þetta skiptið varð misskilningur varð milli Pickford og Tarkowski. Löng sending upp völl sem Tarkowski ákvað að láta Pickford um en hann ákvað að koma ekki út á móti, sem þýddi að sóknarmaður Wolves komst inn í sendinguna og komst einn inn fyrir en hann lúðraði boltanum sem betur fer vel framhjá marki. Ennþá 0-0.

En Everton var ekki hætt að reyna að kasta þessu frá sér og það þurfti Pickford til að bjarga Everton með stórkostlegri vörslu af stuttu færi þegar boltinn hrökk af varnarmanni Everton eftir aukaspyrnu Wolves. Enn ein viðvörunarbjallan.

Hinum megin reyndi Danjuma skot þegar hann var um það bil kominn inn fyrir vörn Wolves en markvörður varði vel. Chermiti kom svo inn á fyrir Dobbin á 65. mínútu. Þetta var fyrsti leikur Chermiti fyrir Everton og hann var líflegur til loka leiks.

Á 67. mínútu sendi Garner frábæra háa sendingu í sveig inn í teig hægra megin. Boltinn sigldi framhjá nokkrum og fór til Doucouré á fjærstöng. Doucouré skallaði niður í jörðina og boltinn virtist ætla í sveig yfir markvörð Wolves, sem var næstum búinn að kasta sér of langt en náði einhvern veginn að verja með ótrúlegum hætti. Setti hendina aftur fyrir sig og slengdi hendinni í boltann og setti boltann þar með yfir slána. Þar hefði staðan átt að vera 1-0 — ótrúlegt að sjá að þetta skyldi ekki enda með marki!

Everton náði svo flottri sókn á 78. mínútu þar sem þeir þræddu sig nett í gegnum vörn Wolves og Doucouré náði loksins að skora en því miður var hann dæmdur rangstæður. Frábært spil milli Garner, Chermiti og Doucouré.

En á lokamínútunum birtist loksins blauta tuskan, sem maður óttaðist. Há sending kom inn í teig frá hægri kanti (frá þeim séð) og barst á fjærstöng, þar sem sóknarmaður Wolves var mættur og fékk ekki næga dekkunn frá Tarkowski og Patterson. Boltinn fór í öxlina á sóknarmanninum og þaðan lak hann inn við fjærstöng. Þvílíkur heppnisstimpill á þessu marki og enn eitt skítamarkið sem sekkur liðinu, þrátt fyrir að hafa verið betri aðilinn í leiknum og virkað hættulegri í sínum sóknum (fyrir utan gjafir á silfurfati).

Þetta var að sjálfsögðu fyrsta og EINA skot Wolves á markið í öllum leiknum. Þetta gerist ekki mikið týpískara.

Fimm mínútum var bætt við. Cannon og Keane komu inn á fyrir Gana og Danjuma en ekki tókst að snúa þessu við. 0-1 tap staðreynd og við urðum vitni að enn einu ránu um hábjartan dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7); Patterson (6), Branthwaite (7), Tarkowski (6), Young (6); Gueye (6); Garner (6), Doucoure (6), Onana (6), Dobbin (6); Danjuma (6). Varamenn: Subs: Chermiti (6).

Og eins og við var að búast var markvörður Wolves valinn maður leiksins.

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Algjör sóun að hafa Garner á kantinum, það kemur ekkert út úr honum þar og hann hjálpar Patterson heldur ekki nógu vel, hefði frekar viljað sjá hann á miðjunni og setja Onana á bekkinn, hann hefur ekki verið að gera neitt inni á miðjunni í fyrstu tveimur leikjunum.
    En gott að sjá að Keane er ekki í byrjunarliðinu, vona bara að það verði þannig út tímabilið en ég óttast að Branthwaite fái ekki jafn mikinn séns hjá Dyche og Keane hefur fengið ef hann gerir einhver mistök.
    Vonandi náum við stigi í dag, voga mér ekki að vonast eftir meiru.

  2. Ari S skrifar:

    Miðað við fyrstu 20 mín þá er Dobbin kominn til að vera. Mjög góð byrjun hjá kappanum. Við þurfum á því að halda núna.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er að spilast svolítið eins og Fulham leikurinn svo það kæmi ekkert á óvart að úrslitin yrðu þau sömu. Fabio Silva hefur víst ekki skorað fyrir Wolves í tvö ár, ætli hann poti þá ekki inn sigurmarkinu.

    • Ari S skrifar:

      Maður er á nálum, en Silva farinn útaf þannig að hann skorar ekki í þessum leik.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta lið er vonlaust 😡😤😭
    Þetta er timabilið sem Everton fellur.
    Og enn einu sinni er einhver drulli sem skorar sitt fyrsta mark gegn Everton.