Aston Villa – Everton 4-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að fyrsta útileik tímabilsins en hann er við Aston Villa á Villa Park kl. 13:00 að íslenskum tíma. Uppstillingin var birt fyrir nokkrum mínútum síðan og það var mikill léttir að sjá Calvert-Lewin í framlínunni. Það eru hins vegar ansi margir að jafna sig á meiðslum eða ná upp leikformi, eins og McNeil, Coleman, Harrison, Dele Alli, Gomes og Gbamin, sem allir eru meiddir. Chermiti og Danjuma eru báðir að reyna að koma sér í leikform, en sá síðarnefndi er á bekknum. Sýnist þetta vera 4-1-4-1 uppstilling, eða mögulega með tígul á miðsvæðinu. Kemur í ljós.

Uppstillingin: Pickford, Young, Tarkowski, Keane, Patterson, Gueye, Iwobi, Onana, Doucouré, Garner, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Mykolenko, Branthwaite, Godfrey, Onyango, Danjuma, Dobbin, Cannon, Maupay.

Everton sá aldrei til sólar í fyrri hálfleik. Aston Villa menn byrjuðu af krafti og náðu að setja pressu á vörn Everton strax frá fyrstu sekúndum. Það tók Everton heilar tvær mínútur að snerta boltann á vallarhelmingi Villa og voru þeir þá búnir að gefa þeim tvær hornspyrnur. Fyrsta skotið kom á 9. mínútu þegar sóknarmaður Villa reyndi skot sem var nær því að enda bílastæðinu fyrir utan völl en í netinu. Engin hætta.

Aston Villa menn komust hins vegar yfir á 18. mínútu með flottri sókn upp hægri kant. Þar komust þeir upp að endalínu og sendu fyrir mark þar sem McGinn, fyrirliði þeirra, var óvaldaður og þrumaði inn af stuttu færi. 1-0 fyrir Aston Villa.

Villa menn fengu svo víti á 23. mínútu þegar Pickford lenti í samstuði við Ollie Watkins. Douglas Luiz fékk að taka vítið og Pickford giskaði á rétt horn en náði ekki að verja boltann, sem fór í netið alveg niðri í hægra horninu. Staðan orðin 2-0 fyrir Villa. Stuttu síðar áttu þeir skotfæri innan teigs, af nokkuð löngu færi, en Pickford vandanum vaxinn og kastaði sér á boltann til að verja. 

Villa menn betri á öllum sviðum fyrsta hálftímann og náðu að komast allt of auðveldlega í gegnum vörn Everton sem og að dæla boltum utan af köntunum og inn í teig.

Til dæmis á 32. mínútu, þegar Digne sendi háan bolta fyrir frá vinstri, beint á Diaby á fjærstöng sem tók viðstöðulaust skot á mark og smellhitti boltann. En Pickford varði með glæsilegum hætti í innanverða stöng hægra megin og þaðan út í horn hinum megin (sem segir ákveðna sögu um hversu tæpt þetta var). Ótrúleg varsla.

Á 36. mínútu settist Calvert-Lewin á jörðina og bað um skiptingu. Enn á ný er hann óheppinn með meiðsli, en hann hafði lent í samstuði við Martinez upp við mark Aston Villa eftir um korters leik og fékk högg á höfuðið, rétt fyrir neðan augað. Hann reyndi að halda áfram í um 20 mínútur en svo var það farið að vera sjáanlega bólgið og því var honum skipt út af. Danjuma inn á fyrir Calvert-Lewin. Everton fór þar með í 4-4-2 uppstillingu, með Danjuma og Doucouré frammi.

Það kom svo í hlut Danjouma að fá fyrsta færi Everton í leiknum, og það kom stuttu eftir að venjulegum leiktíma fyrri hálfleiks lauk. Hann komst einn inn í teig hægra megin, var ekki langt frá stöng en Martinez varði frá honum í horn. Ekkert kom úr horninu en Everton átti (loksins) ágæta spretti undir lokin, þó að ekki næðist færi út úr því.

2-0 í hálfleik.

Ein breyting hjá Everton í hálfleik en Dobbin kom inn á fyrir Gueye. Onana þar með settur aftastur á miðjuna, Dobbin yfir á vinstri kanti en Iwobi á þeim hægri. 

En hörmungin hélt bara áfram og strax í upphafi seinni hálfleiks dundi ógæfan yfir aftur þegar Everton missti annan leikmann í meiðsli. Iwobi tognaði nefnilega aftan á læri og var skipt út af á 50. mínútu. Maupay kom inn á fyrir hann og það tók Villa menn ekki nema nokkrar sekúndur að skora eftir það. Há sending barst inn í teig sem Keane reyndi að blokkera en var óheppinn og lagði boltann í staðinn snyrtilega fyrir sóknarmann Villa, sem setti hann í gegnum klofið á Pickford. Staðan orðin 3-0. 

Maupay fékk frábært skotfæri á fjærstöng eftir horn frá hægri — enginn að valda hann og hann náði því viðstöðulausu skoti á mark, en Martinez rétt náði að verja frá honum. Fín tilraun hjá Maupay, en eyðimerkurganga hans heldur áfram, því miður. Þetta var eina almennilega tilraunin á mark hjá Everton í seinni hálfleik (allavega sem ég man eftir).

Fjórða mark Villa kom stuttu síðar, eftir mistök hjá varnarmönnum Everton. Ashley Young tók langt innkast á Keane sem var samt of stutt, þannig að sóknarmaður Villa, Duran, sem var nýkominn inn á, komst inn í sendinguna og þar með var hann einn á móti Pickford. Átti svo ekki í neinum erfiðleikum með að leggja boltann í netið niðri hægra megin. Staðan orðin 4-0 fyrir Villa.

Onyango kom inn á fyrir Doucouré á næst-síðustu mínútu 9 mínútna uppbótartíma, en ekkert annað markvert gerðist. Stórt tap staðreynd í dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Patterson (5), Keane (4), Tarkowski (6), Young (4), Gueye (5), Garner (6), Doucoure (5), Onana (5), Iwobi (6), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Danjuma (6), Dobbin (5), Maupay (6).

.

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Fáum aldrei neitt á Villa Park, þetta fer 3-0 fyrir Villa.

 2. Einar Gunnar skrifar:

  Jæja, hættur í dag, þetta er orðið gott!

 3. AriG skrifar:

  Þetta var hreinasta hörmung í dag. Versta Evertonlið sem ég hef séð um ævina.

  • Ari S skrifar:

   Svo sem ekkert nýtt en gaman að sjá Dobbins gera vel (eða lesa um að hann hafi gert vel því ég sá ekki allann leikinn. Gafst upp) Danjuma var nokkuð sprækur og Dominic er hress eftir atvikum. Við sjáum öll hvar okkar lið stendur og ekkert nýtt þar. Við erum neðstir og förum ekki neðar fyrr en þá í frysta lagi í maí á næsta ári. Kannski bara ágætt að vera ekki með neinar falskar vonir svona í byrjun.

   COYB! eða UTFT eins og farið er að segja úti.

Leave a Reply

%d bloggers like this: