Everton – Fulham 0-1

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton á tímabilinu 2023/24 var í dag kl. 14:00 að íslenskum tíma þegar Fulham mættu í heimsókn á Goodison Park. Fulham liðið stóð sig vel á síðasta tímabili og voru hálfgert spútnik lið sem leit út fyrir að væri að blanda sér í Meistaradeildarbaráttu, eftir að hafa komið upp úr ensku B-deildinni (Championship) tímabilið þar á undan. En það fjaraði undan þeim undir lok tímabils og þeir enduðu um miðja töflu.

Uppstillingin: Pickford, Young, Tarkowski, Keane, Patterson, Gana, Onana, Doucouré, Garner, Iwobi, Maupay.

Varamenn: Virginia, Mykolenko, Branthwaite, Godfrey, Gomes, Onyango (miðjumaður), Cannon, Dobbin, Danjuma.

Byrjunarliðið er ca. það sem maður átti von á — Young í vinstri bakverði í stað Mykolenko og Garner kom inn á kantinn. Töluvert högg að sjá Calvert-Lewin ekki einu sinni í hóp, en það er svo sem ekkert nýtt. Maupay leiddi línuna í dag og bekkurinn var heldur unglegur með þá Onyango, Cannon og Dobbin úr unglingaliðinu.

Athygli vakti að besti sóknarmaður Fulham, Mitrovic byrjaði á bekknum hjá þeim, en hann vildi ólmur fara til Saudi-Arabíu á undirbúningstímabilinu, en þeir sögðu nei. Ef minnið bregst mér ekki var gengi þeirra mjög slæmt þegar hann var í átta leikja leikbanni á síðasta tímabili. En þá að leiknum…

Ég missti af fyrstu tíu mínútunum en endursýning sýndi að Maupay hafði átt fínt skot í byrjun leiks, af nokkuð löngu færi hægra megin, en rétt framhjá stönginni. Ekki vitlaus tilraun. Onana komst svo í algjört dauðafæri, einn á móti Leno markverði, sem varði meistaralega frá honum. 

Everton sat nokkuð djúpt frá upphafi, í 4-5-1 uppstillingu og leyfðu Fulham að vera mikið með boltann (sem þeir gátu ekki nýtt sér að neinu leyti) en Everton voru aftur á móti stórhættulegir í skyndisóknum. Iwobi náði fínu skoti eftir eina slíka, en boltinn rétt framhjá stöng vinstra megin niðri á 19. mínútu.

Miðjumaður Everton (Onana?) fann Iwobi með langri sendingu stuttu síðar en Iwobi var á auðum sjó utarlega á vinstri kanti og hann sendi háan bolta inn í teig á Onana sem var á fjærstöng. Onana fékk boltann í öxlina og lagði hann þannig fyrir Maupay sem var alveg upp við mark, með bara Leno markvörð til að koma boltanum framhjá, en Leno náði að koma vel út og loka á viðstöðulaust utanfótarskot frá Maupay.

Everton skoraði löglegt mark á 35. mínútu þegar Leno reyndi að grípa boltann hátt í loftinu inni í teig en á niðurleið setti hann hendurnar utan um Tarkowski og hrasaði og missti því boltann. Keane var á réttum stað og setti boltann í autt netið, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum dæmdi dómarinn brot á Tarkowski fyrir það eitt að standa í fæturnar þegar Leno datt á hann. Ömurleg ákvörðun þar sem þetta var aldrei brot.

Everton átti frábæra skyndisókn á 40. mínútu þegar Iwobi stakk Willian af á vinstra kanti, þó Iwobi þyrfti að hlaupa í sveig út af vellinum til að komast framhjá honum. Hann leit svo upp og sá Onana á auðum sjó inni í teig hægra megin og sendi háa langa sendingu á hann, sem Onana tók niður en skotið frá honum fór beint á markvörð.

Onana kom Maupay í dauðafæri gegn markverði með frábærri stungusendingu í hlaupaleiðina hjá Maupay en aftur varði markvörður frá Maypay einn á móti einum. Maupay reyndi svo skot af löngu færi stuttu síðar, en beint á markvörð. Hann má eiga það að hann er allavega að koma sér í skotfæri…

0-0 í hálfleik. Ótrúlegt að Everton skyldi ekki verið búið að stinga af á þessum tímapunkti.

Rólegra í seinni hálfleik en í þeim fyrri. Everton meira með boltann og virkuðu líklegri til að skora, enda virtist Fulham fyrirmunað að komast í almennilegt færi.

Iwobi fékk fínt skotfæri rétt utan teigs á 67. mínútu en Leno náði að slá boltann út í teig, beint á Patterson, sem lúrði á fjærstöng og hefði bara þurft að pota boltanum inn með Leno í grasinu en reyndi í staðinn skot sem fór í neðanverða slá og út aftur. Ótrúlegt að Everton komst ekki yfir þar og Fulham menn voru stálheppnir að lenda ekki undir.

Danjuma kom svo inn á fyrir Maupay á 72. mínútu. Þetta var fyrsti keppnisleikur Danjuma í Everton treyju en aðeins sekúndum síðar komust Fulham yfir með sínu fyrsta skoti sem rataði á mark hjá þeim í öllum leiknum. Týpískt. 0-1 fyrir Fulham. Minnir að hitt skot þeirra á markið í leiknum hafi verið eitthvað sem Mitrovic bjó til upp úr engu, en skotið beint á Pickford. Í millitíðinni fengu þeir reyndar ágætis færi á 77. mínútu upp við mark en sóknarmaður þeirra náði ekki að stjórna boltanum, sem endaði á að fara yfir slána (boltinn, ekki sóknarmaðurinn).

Dobbin kom inn á fyrir Garner á 83. mínútu og Iwobi færði sig þar með af vinstri kanti yfir á hægri svo að Dobbin gæti leikið á vinstri kanti.

Iwobi fékk fínt færi upp við fjærstöng eftir háa sendingu frá vinstri inn í teig frá vinstri kanti en aftur varði Leno frábærlega, í þetta skiptið í horn. Hann varði svo skalla frá Keane eftir hornið. Ef þessi markvörður fær ekki 9 (eða 10) í einkunn eftir leikinn þá má ég hundur heita.

Tarkowski fékk fínt skallafæri á síðustu mínútu venjulegs leiktíma eftir háa sendingu utan af velli, en skallinn rétt framhjá stöng. Boltinn bara vill ekki inn.

Danjuma tók geggjað hlaup gegnum vörn Fulham á 93. mínútu og fékk stungusendinguna sem hann bjóst við, en skotið rétt framhjá stöng. Var hvort eð er rangstæður en hugsunin fín.

Keane fékk síðasta færi Everton, skallafæri inni í teig eftir langa aukaspyrnu frá Pickford fram völlinn á síðustu mínútunum en var dæmdur rangstæður.

Ekki okkar dagur í dag. 0-1 fyrir Fulham niðurstaðan, sem er rán um hábjartan dag, ef þú spyrð mig. Everton hefði getað verið þremur til fimm mörkum yfir eftir fyrri hálfleik og Patterson var óheppinn að skora ekki í seinni hálfleik stuttu áður en mark Fulham kom. 

Ljósu punktarnir eru þeir að liðið er að skapa fullt af færum og þarf bara slúttara til að klára þau. Chermiti á eftir að bætast við hópinn og vonandi fleiri, en sjáum hvað setur.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Patterson (6), Tarkowski (7), Keane (6), Young (6), Garner (7), Doucoure (6), Gueye (6), Onana (7), Iwobi (7), Maupay (5). Varamenn: Danjuma (5).

Maður leiksins var markvörður Fulham, eins og við var að búast, með 9 í einkunn.

11 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Calwerr Lewin vantar bara leiktíma sagði SD í vikunni? Af hverju þá að spila honum ekki inná sem varamanni í seinni hálfleik? Dobbin okkar mest ógnandi maður í æfingaleikjum og settur á bekkinn til að verðlauna það. Afsakið meðan ég æli

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eitt augnablik var ég í einhverju undarlegu bjartsýniskasti og var alveg á því að spá Everton sigri í dag, en um leið og ég sá að Keane og Maupay voru í byrjunarliðinu, blasti blákaldur raunveruleikinn við og nú er ég viss um að jafntefli er okkar eina von.

  3. Diddi skrifar:

    Eina jákvæða við daginn er að við erum aðeins 3stigum á eftir city og eigum leik inni, ég hefði viljað sjá SD sýna smá dirfsku með annaðhvort Godfrey eða Brantwaite í stað stjúpsonar hans og tippatottara keane

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég óttast að við eigum eftir að sjá illilega eftir því að hafa ekki nýtt eitthvað af þessum dauðafærum.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og svo var alger þvæla að dæma þetta mark af, Tarkowski gerði nákvæmlega ekkert til að trufla markmanninn, hann bara missti boltann.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Here we go again 🤬

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fulham átti eitt skot sem hitti markið. EITT SKITIÐ SKOT!! Það er augljóst að Everton er alls ekki tilbúið fyrir tímabilið. Ennþá sömu vandamál og tvö síðustu tímabil, þeir geta ekki skorað og geta ekki haldið markinu hreinu.
    Það er þó ennþá von til þess að eitthvað verði hægt að gera til að laga þetta en að öllu óbreyttu þá verður þetta enn eitt fallbaráttu tímabilið.

  8. Eirikur skrifar:

    Það eru einfaldlega ekki mörk í þessu liði. Það vantar svo mikil gæði í og við boxið. Get ekki séð neinn playmaker því miður. Að Maupay fái mínútur er glæpur og gjörsamlega óskiljanlegt að þessi maður sé atvinnumaður í fótbolta í efstu deild. Þetta verður erfiður vetur 😞 Enn það var aldrei brot á Leno og við áttum ekki skilið að tapa.

  9. Thor skrifar:

    Herra Burnley er byrjaður að setja (ekki) mark sitt á Everton. Ætti Dycke ekki frekar að reka vörubílastöð en að þjálfa skapandi fótboltalið í efstu deild?

    Hann á eftir að leyfa Keane og Maupey fá að spila sínar stöður út árið. Einn varamaður settur inn á 85 mínútu í öðrum hverjum leik.

    Erum við að fara að skora tíu mörk í næstu fimmtán leikjum?

    • Ari S skrifar:

      …ekki vissi ég að Nostradamus héldi með Everton og kallaði sig Thor haha. Kv. Ari. Annars er ég sammála þér þjálfarinn okkar (hann heitir Sean Dyche en ekki Dycke) hefði mátt skipta Danjuma fyrr inná. Þetta var nú með betri leikjum sem Maupay hefur spilað. Hann verður trúlega seldur í þessum glugga spái ég. Kv.Ari

  10. Thor skrifar:

    Þetta lið er búið að vera ruslflokki lengi þegar kemur að sóknarbolta.

    Ég sé ekki fyrir mér að Dycke leysi þetta vandamál í bráð. Hann spilar varla skapandi miðjumönnum eða nothæfum framherja! (Iwobi og Garner nýtast ekki vel á kantinum).