Everton – Sporting 1-0 (undirbúningstímabil)

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur undirbúningstímabilsins var við portúgalska liðið Sporting á Goodison Park en flautað var til leiks kl. 14:00 að íslenskum tíma.

Uppstillingin: Pickford, Young, Godfrey, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, Gana, Garner, Onana, Doucouré, Iwobi, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Keane, Maupay, Mykolenko, Gomes, Branthwaite, Hunt, Dobbin, Onyango.

Þetta er líklega nálægt því að vera okkar sterkasta lið í augnablikinu og það er mjög mikill léttir að sjá Calvert-Lewin í byrjunarliðinu. Nú er bara að vona að hann nái að halda sér heilum um ókomna framtíð. Bekkurinn frekar þunnskipaður — tveir markverðir og fjórir ungliðar. Þurfum að fá fleiri úr meiðslum og vonandi styrkingu að auki. Það vakti athygli mína að Gray er ekki einu sinni í hóp í dag…

Everton mætti verðugum andstæðingum í dag en Sporting hafa verið í í topp fjóru sætum portúgölsku deildarinnar síðustu þrjú ár — þar af meistarar fyrir þremur árum, sem var fyrsta tímabil núverandi stjóra þeirra, Rúben Amorim. Léttleikandi og skemmtilegt lið sem unnu Real Sociedad og Villareal í síðustu tveimur leikjum. Þeirra fyrsti leikur er einnig um næstu helgi.

Everton byrjaði annars leikinn líflega og átti fyrsta færið eftir aðeins 6. mínútur þegar há sending kom frá vinstri kanti frá Ashley Young yfir á Garner, sem reyndi skalla á fjærstöng nálægt marki en hefði þurft að ná að stökkva svolítið hærra til að eiga séns að ná boltanum undir slána en ekki yfir. Engin hætta.

Sporting menn voru nokkuð líflegri eftir þetta og þeir svöruðu með flottri sókn og sendu upp hægri kant í hlaupaleið Gyokeres, sem var orðaður við Everton í sumar. Hann leit upp og sendi lágan bolta inn í teig á sóknarmann Sporting sem var á auðum sjó í miðjum teig en lúðraði honum yfir mark. Hefðu átt að skora þar.

Örskömmu síðar komust þeir aftur í dauðafæri, upp við hægri stöng, en skotið bæði vel framhjá og yfir — enda Ashley Young og Pickford búnir að ná að loka á sóknarmann Sporting.

Everton hefði hins vegar átt að skora á 34. mínútu þegar Iwobi komst inn fyrir vörn Sporting (með góðri hjálp frá Ashley Young). Iwobi sendi lága sendingu fyrir mark, beint á Doucouré sem átti skot sem markvörður Sporting rétt náði að blokkera. Boltinn barst út í teig í áttina á Calvert-Lewin sem náði skalla mjög nálægt marki en aftur varði markvörður Sporting, með ótrúlegum hætti. Besta færi Everton í fyrri hálfleik fram að því.

Sporting svöruðu með dauðafæri — há sending frá hægri inn í teig Everton þar sem sóknarmaður þeirra var á auðum sjó en Pickford varði vel skallann frá honum.

Everton komst svo í góða sókn á 45. mínútu sem endaði með skoti frá Doucouré rétt innan teigs sem varnarmaður náði að skriðtækla fyrir og blokkera en fékk dæmt á sig víti þar sem boltinn fór í hendina á honum. Dominic Calvert-Lewin tók stutt tilhlaup og setti boltann hægra megin. Markvörður giskaði rétt en náði ekki að verja.   

1-0 fyrir Everton í hálfleik. Hefði getað verið 2-2.

Bæði lið gerðu breytingu á sínum liðum í hálfleik — fyrir Everton komu Maupay inn á fyrir Calvert-Lewin og Branthwaite fyrir Godfrey.

Líflegt í upphafi seinni hálfleiks. Iwobi sendi háa sendingu fyrir mark frá vinstri og Maupay reyndi við það með skalla sem rataði ekki á mark. Garner var hins vegar í enn betra færi á fjærstöng, fyrir aftan hann, ef Maupay hefði vitað af honum og látið boltann fara. 

Minna um færi eftir það, allavega framan af. Mykolenko kom inn á fyrir Ashley Young á 65. mínútu. Sporting áttu svo skot á mark á 67. mínútu, rétt við D-ið á vítateignum en nokkuð hátt yfir.

Gana fékk boltann vinstra megin við teig Sporting, sendi á Onana sem tók léttan þríhyrning við Iwobi sem kom honum í skotfæri rétt utan teigs. Skotið var geggjað, boltinn fór framhjá markverði Sporting en í innanverða stöng og út aftur. Þar hefði staðan átt að vera 2-0 fyrir Everton. Dobbin kom inn á fyrir Gana strax í kjölfarið og Gomes kom svo inn á fyrir Doucouré á 79. mínútu.

Á 80. mínútu áttu Sporting hættulegt skot innan teigs vinstra megin (frá þeim séð), ekki langt frá marki en framhjá stönginni. Þeim gekk hins vegar aðeins betur á 83. mínútu þegar sóknarmaður þeirra komst í skotfæri innan teigs vinstra megin en skaut beint í samskeytin uppi hægra megin. Man eiginlega ekki eftir betra skoti svona beint upp í vinkilinn en þessu (stefndi eiginlega beint til baka til þess sem skaut), en endaði á að skoppa beint í fangið á Pickford. Líklega reyndar brot á Garner í aðdragandanum, en VAR hefði séð um það.

Á 85. mínútu gerðist það sem maður óttaðist mest á undirbúningstímabilinu — að lykilmaður í liði Everton myndi meiðast, þegar Tarkowski þurfti að fara af velli eftir tæklingu frá Gyokeres. Haltraði af velli og verður væntanlega settur í blöðruplast fram að fyrsta leik. Vonandi ekkert alvarlegt, við krossum fingur. Keane kom inn á fyrir hann og fjórum mínútum var bætt við.

Sporting náðu flottu skoti á 92. mínútu þegar boltinn barst til leikmanns þeirra við vítateigsjaðarinn eftir hornspyrnu. Sá aldeilis smellhitti boltann en Pickford var vandanum vaxinn og varði í horn. Boltinn reyndar líklega á leiðinni yfir markið, sá maður í endursýningu, en gott að taka enga sénsa.

Enda reyndist þetta síðasta færi liðanna í leiknum og Everton landaði því 1-0 sigri gegn Sporting í síðasta leiknum. Taplausir í gegnum allt undirbúningstímabilið. 

Tímabilið hefst um næstu helgi með leik við Fulham á heimavelli.

1 athugasemd

  1. Finnur skrifar:

    Fínn leikur. Flott að liðið sé taplaust í gegnum undirbúningstímabilið, en úrslit næstu vikna (og mánuða) skipta þó miklu meira máli.

    Vonandi í lagi með Tarkowski. Dyche hljómaði vongóður með hann eftir leik en fyrirsjáanlegt er að McNeil mun líklega ekki ná fyrsta leik… alls ekki góðar fréttir… 🙁

Leave a Reply

%d bloggers like this: