Stoke – Everton 0-1 (undirbúningstímabil)

Mynd: Everton FC.

Ég missti alveg af leiknum og þurfti að láta nægja að horfa á upptöku. Var samt löglega afsakaður því ég á afmæli í dag. 🙂

Uppstillingin: Pickford, Young, Tarkowski (fyrirliði), Keane, Patterson, Gana, Doucouré, Garner, McNeil, Iwobi, Danjuma.

Varamenn: Virginia, Crellin, Onana, Maupay, Godfrey, Branthwaite, Hunt, Dobbin, Onyango.

Sem sagt: Nokkuð hefðbundin uppstilling en Danjuma byrjar frammi, í sínum fyrsta leik fyrir Everton. Gaman að því.

Stoke menn byrjuðu sterkari því Everton náði ekki að komast almennilega inn í leikinn á fyrstu 15 mínútunum. Enda eru Stoke menn tveimur vikum á undan í sínu undirbúningstímabili, því tímabilið byrjar hjá þeim strax í næstu viku.

Á 16. mínútu komst Everton í dauðafæri upp við mark, Doucouré náði skoti en varnarmaður rétt náði að bjarga þeim frá marki með því að blokkera skotið með útréttum fætinum. Heppnir þar. Langbesta færi fyrri hálfleiks og hefði átt að enda með marki. 

Á 18. mínútu fann Iwobi Garner á 18. mínútu inni í teig, utarlega. Hann náði góðri snertingu með vinstri fæti og lagði boltann fyrir sig en þurfti að ná skoti hratt með sínum veikari fæti (hægri) því varnarmaður var að fara að loka á hann, og skotið því slakt — engin hætta, beint á markvörð.

Eftir það róaðist þetta aðeins og hvorugt liðinu tókst að skapa sér almennileg færi. 0-0 í hálfleik.

Onana, Maupay og Branthwaite komu inn á í hálfleik fyrir Keane, Garner og Danjuma. 

En seinni hálfleikur var svipaður og seinni hálfleikur — Everton átti svolítið erfitt með að komast í gang allavega fyrsta korterið. Stoke menn fengu á meðan ágætis skotfæri innan teigs á 54. mínútu en skotið hefði líklega lent í hliðarnetinu ef þeir hefðu ekki skotið að mestu beint á Pickford og þaðan í horn.

Lítið að frétta framan af — ekki kannski besti hálfleikur sem maður hefur séð. Dobbin kom inn á fyrir McNeil á 69. mínútu og Onyango inn á fyrir Doucouré á 83. mínútu.

Onana skapaði dauðafæri fyrir Dobbin á 84. mínútu með sendingu inn í teig frá hægri kanti en Dobbin, á fjærstöng, náði ekki að stýra boltanum í netið. Smá óheppinn. Dobbin var hins vegar ekki hættur því hann tók flott hlaup fram til að nýta frábæra sendingu frá Tarkowski og komst einn á móti markverði. Náði jafnframt að koma boltanum framhjá markverðinum, en einnig rétt framhjá nærstöng líka. Hefði átt að skora þar og gefa Tarkowski frábæra stoðsendingu. En, ekki í dag…

Iwobi átti frábært skot utan teigs á 91. mínútu, utan af vinstri kanti eiginlega, en rétt framhjá stöng. Maður hélt að það væri síðasta færið en 6 mínútum var bætt við.

Mark Everton kom svo alveg í blálokin, á 96. mínútu (síðustu mínútu uppbótartíma). Færið kom eftir horn, sem endaði með fyrirgjöf frá Iwobi frá hægri, hár bolti inn í teig, sem Branthwaite framlengdi á fjærstöng með skalla og Tarkowski skallaði inn í teig til hægri, þar sem Onana lúrði og potaði inn, óvaldaður.

0-1 því lokastaðan fyrir Everton og þannig endaði þetta. 

Maður leiksins? Onana myndi ég segja.

1 athugasemd

  1. AriG skrifar:

    Til hamingju með afmælið. Byrjar þokkalega hjá Everton tapa ekki leikjum og halda markinu hreinu sem er bara gott mál. Núna bíður maður eftir næsta leikmanni Everton. Svakalega fer þetta hægt af stað leikmannakaupin. Mundi bíða með að selja Gray þangað til nýr sóknarmaður kemur.