Wigan – Everton 0-1 (undirbúningstímabil)

Mynd: Everton FC.

Það eru tveir Everton leikir á dagskrá í dag, báðir á útivelli og eru á sama tíma (kl. 13), en aðallið Everton mætir Wigan og ungliðarnir á jaðrinum mæta Tranmere. Aðeins leikur aðalliðsins er í beinni útsendingu á Everton TV fyrir þau ykkar sem keyptu áskrift en hægt verður að sjá klippur úr leiknum eftir leik (og þeir sem keyptu áskrift geta horft á hann allan).

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Tarkowski (fyrirliði), Keane, Patterson, Gana, Young, Iwobi, Doucouré, McNeil, Maupay.

Varamenn: Lonergan (mark), Leban (mark), Dixon (hægri bak), Bates (miðja), Metcalfe (miðja) Beaumont-Clark (kantmaður).

Athygli vekur að Tarkowski er fyrirliði í dag, þó að Pickford sé inni á. Ashley Young dettur beint inn í liðið, en óljóst hvort hann spili sem vinstri bakvörður eða á kantinum, því Godfrey er einnig inn á. Uppfært: Það kom svo í ljós að hann spilaði á kantinum.

Í hinum leiknum eru ekki mörg nöfn sem maður þekkir:

Uppstillingin: Virginia, Higgins, Hunt, Holgate (fyrirliði), Astley, Warrington, Kouyate, Onyango, Okoronkwo, Mills, Dobbin.

Varamenn: Crellin, Barrett, Heath, Sherif, Apter, Moonan.

Þessar tvær uppstillingar gefa ágætis yfirlit yfir þá leikmenn sem eru heilir og leikfærir og það vantar ansi marga úr listanum yfir leikmenn aðalliðsins, eins og: Calvert-Lewin, Mykolenko, Coleman, Gray, Dele Alli, Branthwaite, Garner, Gomes, Gbamin, Cannon, Onana. Þeir fyrstu fjórir eru meiddir, Gray er löglega afsakaður (búinn að vera að leika með landliði Jamaíka) og bæði Branthwaite og Garner fengu aukafrí eftir afrek þeirra með U21 árs liðinu á dögunum. En restin er athyglisverð. Það ætti ekki að vera neinn vafi á því að stefnt er á að Gomes og Gbamin fari frá félaginu og sama hefur verið rætt um Tom Cannon. En hvar er Onana? Ekki er hann meiddur?

Rólegt um að líta í leiknum framan af en hann reyndist vera fjörugri þegar leið á. Everton klárlega betra liðið og náði að komast vel inn í leikinn frá upphafi en reyndust ryðgaðir og sloppy þegar á reyndi. Wigan menn náðu að sýna klærnar öðru hverju.

Ashley Young skapaði frábært færi á 13. mínútu á vinstri kanti, þegar hann fór illa með hægri bakvörð Wigan og sendi háa sendingu fyrir mark. Docouré var ekki langt frá því að tengja við boltann á nærstöng en missti af honum. Boltinn til Maupay sem var á ákjósanlegum stað nálægt miðju marki en móttakan afleit og færið fór forgörðum.

Örskömmu síðar náði Everton að brjóta niður sókn Wigan og snúa vörn í sókn. Nei, þeir misstu boltann um leið og þeir komust út úr vörninni og Wigan menn náðu því skoti á mark af löngu færi, sem Pickford þurfti að hafa sig allan við til að kasta sér á boltann og verja.

Wigan fengu dauðafæri á 19. mínútu, há sending kom frá hægri og sóknarmaður þeirra reyndi viðstöðulaust skot að marki sem stefndi framhjá fjærstöng (hægra megin), en einnig framhjá framherja Wigan sem hefði líklega getað potað í mark ef hann hefði verið nógu fljótur að hugsa. En boltinn rúllaði í staðinn framhjá stönginni.

Þetta kveikti aðeins í Everton sem sköpuðu sér skotfæri fyrir Maupay inni í teig, en varnarmaður náði að blokkera skotið upp við mark á síðustu stundu. McNeil náði lausa boltanum aðeins utar í teignum og kom skoti á mark en markvörður Wigan náði að slá boltann frá.

Wigan menn náðu flottri sókn stuttu síðar sem endaði með afar slöku vinstri fótar skoti framhjá stöng. Hinum megin reyndi Ashley Young skot af löngu færi á 23. mínútu en framhjá samskeytunum. 

Þetta róaðist aftur þegar leið á fyrri hálfleikinn og staðan var 0-0 í hálfleik.

Engar breytingar á liði Everton í hálfleik.

Miðvörðurinn Keane sýndi flotta takta á hægri kanti, komst upp að endalínu og náði flottri sendingu fyrir sem varnarmaður Wigan náði að hreinsa frá Everton leikmönnum sem lúrðu í teignum.

Patterson fann Maupay á auðum sjó inni í teig á 54. mínútu með lágri sendingu og Maupay reyndi viðstöðulaust skot en skotið beint á markvörð og alls ekki nægur kraftur í skotinu. Líklega besta færi Everton í leiknum fram að því, en það átti eftir að breytast.

Wigan menn fengu frábært færi á 55. mínútu þegar kantmaður þeirra komst framhjá Godfrey og náði skoti á mark innan teigs en Pickford varði vel.

Everton fékk ennþá betra færi á 56. mínútu. Pickford kom langt út úr teig með boltann og sendi háa langa sendingu yfir á hægri kant sem Patterson gerði vel í fyrstu snertingu að halda boltanum inni á velli og komast framhjá bakverðinum. Brunaði svo inn í teig og fann Doucouré, sem kom á hlaupinu upp miðjan völl og inn í teig, með lágri sendingu til hliðar og Doucouré var þar á auðum sjó og náði föstu skoti, en í ofanverða slána, því miður.

Everton komst í skyndisókn á 60. mínútu, voru fjórir á þrjá varnarmenn Wigan, McNeil brunaði fram með boltann og fékk að fara óáreittur alla leið að vítateigslínu og náði fínu skot sem var blokkerað í horn. Með nokkra valmöguleika sér til hliðar, en ekkert að því að reyna skot fyrst varnarmenn bökkuðu bara og bökkuðu.

Á 64. mínútu skoraði Everton loks markið sem þeir áttu skilið. McNeil sendi frábæran háan bolta utan af vinstri kanti á Ashley Young, sem náði föstu skoti að marki. Boltinn fór í þvögu þriggja leikmanna Wigan og í lappirnar á einum þeirra en Ashley Young var sá eini sem sá nógu fljótt að boltinn var laus bak við þá, tók sprettinn framhjá þeim, komst einn á móti markverði og skoraði með föstu skoti framhjá honum. 0-1 fyrir Everton!

Metcalfe var svo skipt inn á fyrir Ashley Young á 72. mínútu. 

Leikurinn fjaraði út undir lokin. Wigan menn fengu tvö hálffæri sem ekkert kom úr og þeir unnu sig betur inn í leikinn, enda komnir viku lengra í sínum undirbúningi og því í betra úthaldi. 

0-1 niðurstaðan og Ashley Young maður leiksins, með sigurmarkið og líflegur í leiknum.

Í leik Everton ungliðanna og Tranmere fóru leikar 1-1. Tranmere komust yfir með skallamarki en Everton jafnaði úr víti — Stanley Mills þar að verki.

10 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Útsendingin er hafin með upprifun á síðasta leik:
  https://evertontv.evertonfc.com/live/videos/a1055889-a113-4909-9648-a34a65cb1086

 2. Ari S skrifar:

  Vel gert hjá þér Finnur. Takk fyrir þetta. Ég tók saman liðin bæði í dag. Læt þetta hérna inn þó að þú sért kominn með þetta líka.. kv. Ari

  Liðið sem keppir á móti Wigan er svona:

  Pickford
  Patterson
  Tarkowski (C)
  Keane
  Godfrey
  Iwobi
  Gana
  Doucoure
  Young
  Mcneil
  Maupay

  Varamenn:

  Lonergan, Leban, Dixon, Bates, Beaumont-Clark, Metcalfe.

  Liðið sem keppir á móti Tranmere er svona:

  Virginia
  Higgins
  Hunt
  Holgate
  Astley
  Warrington
  Kouyate
  Onyango
  Okoronko
  Mills
  Dobbins

  Varamenn:

  Crellin, Barrett, Heath, Sherif, Apter, Moonan.

 3. Ari S skrifar:

  Er að horfa á Wigan Everton. Gaman að sjá gamla manninn Young byrja vel.

  • Ari S skrifar:

   Ashley Youn g var að skora 0-1 fyrir Everton. Vel gert Ashley!!!

 4. Ari S skrifar:

  Það er riginr mikið í augnablikinu þar sem leikurinn er og aðstæður eftir því…

 5. Ari S skrifar:

  Sá smá úr leik Tranmere og Everton. Kouyate skemmtilega góður fannst mér. Átti góða fyrirgjöf og virðist verjast vel. Staðan enn 0-0 þar.

  • Ari S skrifar:

   Ég gleymdi náttúrulega að minnast á að Pickford hefur varið vel tvisvar sinnum allavega að mínu mati. Virðist alveg vera með á nótunum þó hann sé að spila sinn fyrsta leik.

  • Ari S skrifar:

   Tranmere komið yfir 1-0.

 6. Ari S skrifar:

  Pickford átti frábæra „Pickford“ sendingu út á hægri kant þar sem að Patterson var staddur og hann átti síðan fyrigjöf og þar var mættur enginn annar en Doucoure og skot á slá… besta færið hingað til.