Fallvaktin

Mynd: Everton FC.

Jæja, þá er aftur komið að Fallvaktinni svokölluðu, þar sem við förum yfir tölfræðina varðandi lokaumferðirnar hjá botnliðunum.

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að neita því að ég vonaðist eftir því að þurfa aldrei aftur að birta svona færslu en raunveruleikinn er sá að Everton er aftur í fallbaráttu undir lok tímabils, líkt og í fyrra. Það er ekki meiningin hér að fara yfir ástæður þess að staðan er sú sama og þá, heldur horfa fram veginn og reyna að koma með blákalt yfirlit yfir hvað er fyrir höndum.

Við ætlum því að einblína á botnliðin fimm, en það kæmi ekkert á óvart þó þessi listi breyttist þegar nær dregur lokum, því það er ekkert svakalega langt í liðin fyrir ofan heldur. Þetta getur nefnilega verið mjög fljótt að breytast.

Þetta eru samt í augnablikinu liðin sem virðast vera að keppast um að forðast fallið: Southampton, Leicester, Nottingham Forest, Everton og Leeds (talið í röð frá botni deildar og upp).

Hér er leikjaplanið sem eftir er hjá þessum liðum (innbyrðist viðureignir feitletraðar):

Everton er lengst til vinstri á mynd og hin liðin í röð frá botni. Öll liðin á botninum töpuðu í síðustu umferð (og eru þess vegna með rauðan bakgrunn) en Southampton menn komu á óvart í kvöld og náðu 3-3 jafntefli á útivelli gegn Arsenal. Þetta var mjög sterkt (og ekki síður óvænt!) stig fyrir þá og spurning hvort frammistaðan komi til með að kveikja neista í þeim fyrir framhaldið?

Everton stuðningsfólk vonar náttúrulega að svo verði ekki en þeirra leikjaplan er mjög stíft og þrátt fyrir að Southampton hafi náð sterku stigi er ekki hægt að horfa framhjá því að þetta bara eitt stig í veruleika þar sem þeir þurfa nauðsynlega sigra, því þeir eru enn á botninum og eiga núna einum leik færri en hin liðin til að bjarga sér frá falli (sjá töflu hér til hægri þegar þetta er skrifað).

Ekki bætir úr skák að af þeim 6 leikjum sem þeir eiga eftir eru fjórir leikir framundan við lið í efri hluta deildar (stjörnumerkt, sem „strembnir leikir“ — sem allir leikir í Úrvalsdeildinni eru jú). En þetta er ekki staðan sem maður vill þegar liðið manns er á botni deildar. Öll hin liðin í botnbaráttunni (ok, fyrir utan Nottingham Forest) eiga núna leik til góða við lið í neðri hlutanum, ef við horfum á það þannig. En það þarf að nýta sér þá leiki líka, þannig að…

Lítum nánar á tölfræðina fyrir liðin…

Það er ýmislegt sem kemur í ljós þegar þetta er brotið niður með þessum hætti. Southampton, Leicester og Nottingham Forest eru ekki að gera góða hluti þegar kemur að formtöflunni, með engan sigurleik í síðustu fimm leikjum. Everton og Leeds eru bæði með einn sigurleik í síðustu fimm, en þeir tveir leikir eru reyndar báðir að detta út af síðustu-fimm-leikja-radarnum, þannig að þetta er kannski að herðast á botninum?

Reyndar… Þegar horft er til síðustu 10 leikja er útlitið fyrir Nottingham Forest og Leicester skelfilegt. Þeir fyrrnefndu eru sigurlausir í síðustu 10 leikjum (plús ég veit ekki hvað?) og Leicester í síðustu 9, en það er spurning hvort maður eigi að horfa svo langt? Ef við gerum það er jafnframt ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Everton er í þriðja neðsta sæti yfir stig í síðustu 10 leikjum. En… þá erum við líka farin að telja með töp sem Frank Lampard bar ábyrgð á, en ekki Sean Dyche.

En hvað segir manni þessi tölfræði hér að ofan annars?

Nokkrir punktar:

  • Á heildina litið er þetta enn allt opið og það má ekkert út af bregða.
  • Ég myndi ekki vilja vera í sporum stuðningsmanna Southampton núna, þó lið þeirra sé aðeins fjórum stigum frá öruggara sæti. En hver veit hvað þeir gera eftir sterkt jafntefli gegn Arsenal?
  • Fallstuðull Paddy Powers er neðst á mynd en þar á bæ virðast menn meta það svo að baráttan sé núna á milli Everton og Leicester, sem eiga jafnan möguleika á að forða sér frá falli, en ef horft er til formtöflunnar eru Leicester samt mun verr staddir en Everton í augnablikinu…
  • En svo fer maður aftur í fyrsta punkt í þessum lista…

En hvað segið þið? Er þessi greining hjálpleg? Hvernig sjáið þið botnbaráttuna þróast? Hvað haldið þið að þurfi mörg stig í ár til að bjarga sér frá falli? (greiningin hér að ofan miðast við 38, sem tölfræðin segir að sé yfirleitt nóg — í venjulegu árferði, en er ekki endilega rétt).

3 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Takk fyrir samantektina.

    Held að staðan verði þannig að í seinustu umferð þurfum við 3 stig heima á móti Bournmouth til að bjarga okkur.
    Held reyndar að Leeds gæti hæglega sogast niður í fallbaráttuna og fái ekki nema 6 stig í viðbót. Ætla að spá þeim niður með Southampton og N,Forrest. Líklegt að lið falli á markatölu.

  2. Gestur skrifar:

    Ég get ekki séð annað en Everton fái 9 stig í viðbót að hámarki. Þannig að vonandi fá þá önnur lið minna af stigum

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    19. sæti staðreynd. Ef Everton nær ekki stigi gegn Newcastle á morgun þá er þetta búið. Ég get engan veginn séð hvaðan nauðsynleg stig eiga að koma, liðið getur ekki skorað og hefur verið að fá á sig allt of mikið af færum/skotum í síðustu leikjum og karakterinn í liðinu er enginn þegar á móti blæs og nú er hann fjandi hvass.