Nottingham Forest – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Nottingham Forest á útivelli kl. 14:00 í 26. umferð Úrvalsdeildarinnar. Fallbaráttan hafði harðnað verulega daginn áður þegar Southampton og Wolves tóku upp á því að vinna Leicester og Tottenham naumlega og því var allt í járnum — botnlið deildarinnar aðeins 6 stigum frá liðinu í 12. sæti fyrir leikinn við Forest.

Það hefði verið mikilvægt að ná þremur stigum úr þessum leik (verðum að ná þremur á heimavelli gegn Brentford næst), því þetta verður bara erfiðara eftir það (Chelsea, Tottenham, United, Fulham, Palace og Newcastle) og að því loknu hefst lokamánuður Úrvalsdeildarinnar.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Onana, Doucouré, Iwobi, Gray.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Coady, Mina, Garner, Davies, Maupay, Simms.

Sem sagt, 4-5-1 uppstilling sýnist manni, Maupay settur á bekkinn og í hans stað kemur Gray, líklega á toppinn. Mykolenko er sagður veikur og það vekur athygli að í hans stað kemur ekki vara-vinstri-bakvörðurinn, Vingare, heldur Godfrey. Einnig kemur það pínu á óvart að Gana heldur stöðu sinni í liðinu, þrátt fyrir að hafa nánast upp á sitt einsdæmi gefið tvo síðustu leiki liðsins (vítaspyrnu gegn Villa og svo klúðrið gegn Arsenal í síðasta leik.

Fín byrjun á leiknum hjá Everton sem voru fljótari og skarpari í sínum aðgerðum. Náðu að láta boltann ganga, setja pressu á Forest og voru fljótir að vinna boltann aftur um leið og þeir töpuðu honum. Svo dró til tíðinda á 10. mínútu þegar Jonjoe Shelvey gaf McNeil víti á silfurfati með því að fella hann. Shelvey búinn að láta reka sig útaf tvisvar gegn Everton á ferlinum og ekki batnaði þetta fyrir hann í þessum leik. Gray á punktinn og skoraði örugglega! Staðan orðin 0-1 fyrir Everton eftir aðeins 10 mínútna leik!

En þeir drógu sig til baka við markið og Forest tóku við stjórninni náðu loksins að skapa sér færi. Það var skot af löngu færi út við stöng sem Pickford náði að verja en boltinn beint á kantmann Forest sem skoraði í autt markið. Smá heppnir þar. Jafnt, 1-1 eftir 20 mínútur.

Everton átti að fá víti á 23. mínútu þegar Iwobi setti Coleman inn fyrir með flottri sendingu og varnarmaður náði að hlaupa hann uppi og sparkaði í hælinn á Coleman áður en náði skoti. En þá skorti hugrekki í VAR herberginu til að gefa annað víti, enda stutt frá síðasta. Óþolandi.

Á 30. mínútu (!) komst Everton aftur yfir. Brotið var á McNeil og Pickford tók langan bolta í átt að horni teigs. Skalli þaðan inn í teig, skallaður áfram í átt að marki og Doucouré skallaði framhjá markverði Forest. 1-2 fyrir Everton!! Aukaspyrna, skalli, skalli, skallamark og boltinn snerti aðeins jörðina, sýndist mér, eftir að boltinn var farinn framhjá markverði. Þrjú mörk, öll á 10. mínútu leik!

McNeil átti flott skot utan teigs á 39. mínútu, en markvörður sló boltann yfir slána. Doucouré bjó svo til færi Gray rétt fyrir lok hálfleiks. Fann hann óvaldaðan hægra megin í teig en viðstöðulaust skot að marki fór beint í varnarmann. Hefði átt að gera betur þar.

1-2 í hálfleik!

Lítið um færi í byrjun seinni hálfleiks en mikill hiti í mönnum, lítið um gæði en heilmikið drama og gul spjöldin á víxl á hvort lið. Gibbs-White hefði getað fengið að fjúka fyrir Forest á 60. mínútu (seinna gula) þegar hann fór í tæklingu með takkana á undan og tók niður Onana. Sluppu með skrekkinn þar.

Everton voru duglegir aftur að verjast gerðu vel í að takmarka færi Forest. Alveg þangað til á 78. mínútu þegar þeir náðu að komast inn í sendingu frá Doucouré, um það bil þegar Everton var að fara að komast í skyndisókn. Og þeir skoruðu náttúrulega, með skoti innan teigs beint upp í samskeytin. Óverjandi. 2-2.

Restin af leiknum svolítið í járnum og lítið um færi. Maður hafði það á tilfinningunni að Forest væru nær að skora næsta mark en bæði lið voru ógnandi fram til lokamínútu og hitinn í mönnum var ekkert að minnka, spjöldunum fjölgaði bara, án þess að neinn væri rekinn út af. 
 Gray og Iwobi fóru svo út af Maupay og Davies á 89. mínútu en það breytti engu. 

2-2 jafntefli niðurstaðan. Líklega sanngjörn úrslit.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Keane (6), Tarkowski (7), Godfrey (6), Iwobi (7), Doucoure (7), Gueye (7), Onana (6), McNeil (7), Gray (8).

4 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Flest úrslit í gær voru hagstæð okkar mönnum svo ég býst við að þeir klúðri þessu með stæl og tapi þessu 3-0

 2. Finnur skrifar:

  Fjörugur og skemmtilegur leikur. Hefði viljað sjá hvernig hann hefði þróast ef Gibbs-White hefði fengið seinna gula spjaldið, sem hann átti skilið. En, það var mjög mikilvægt að tapa þessu ekki. Klárlega mikil batamerki á lið leiksins á útivelli. Dyche enn að gera góða hluti.

 3. Gestur skrifar:

  Ég sagði að til þess að Everton héldi sér uppi þyrfti 10stig í fyrstu 6 leikjum Dyche en þau urðu bara 7. Tapið á móti Villa er svo sárt og þetta jafntefli í dag. Nú eru 12 leikir eftir og þar eru fleiri lið af fyrra spjaldinu og heima leikirnir helmingur. Everton á bara í basli sóknarlega og nú heldur vörnin litlu. Sá ekki fyrri hálfleikinn en seinni var mjög slappur.

 4. Ari S skrifar:

  Það eru 12 leikir eftir. Einvhers staðar sá ég spá um að við myndum vinna 4 tapa 4 og gera 4 jafntefli í þeim 12 leikjum. Það gera 38 stig en það er sennilega fall. En hvað veit ég þetta er bara spá sem ég sá… smá bata merki á liðinu og við skoruðum 2 mörk. Það er ljóst að mínu mati að Dyche er að laga stöðuna okkar aðeins, liðið er fariða ð berjast meira finnst mér en betur má ef duga skal. Áfram Everton og hver einasti leikur er úrslitaleikur þykir manni. Við töpuðum ekki í dag og það væri ansi gott að ná stigunum þrjú gegn Brentford sem verða trúlega án Ivan Toney sem er þeirra helsti markaskorari en hann er víst að fara í smá bann frá knattspyrnu.