Everton – Leeds 1-0

Mynd: Everton FC.

Klukkan 15:00 í dag var flautað til leiks í algjörum 6 stiga leik þegar Everton tók á móti Leeds á Goodison Park. Everton gat, með sigri, hoppað upp um tvö sæti, yfir Leeds og West Ham, og komist upp í 16. sæti og það tókst, okkur til mikils léttis, en svona leikir hafa ekki verið að falla með liðinu undanfarið.

Væntingar til leiksins minnkuðu þó til muna þegar uppstillingin var birt, en Calvert-Lewin var enn ekki í hópnum og Maupay byrjaði því leikinn. Annars var uppstillingin svona:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeal, Onana, Doucouré, Iwobi, Maupay.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Kean, Mina, Godfrey, Davies, Gray, Simms.

Smá taugaveiklun á 8. mínútu, þegar Leeds náðu smá pressu á Everton en Everton komst yfir það og náði ágætis tök á leiknum fyrstu 20 mínúturnar enda mun meira með boltann. Lítið um færi samt framan af — bæði lið með skot af löngu færi sem hittu ekki mark. 

En í kjölfarið fékk Everton hornspyrnu, á um 30. mínútu, og tvisvar náðu Leeds menn að bjarga á línu, annars vegar eftir skalla frá Maupay og hins vegar eftir skot frá Onana. Leeds liðið stálheppið þar.

Nokkrum mínútum síðar fékk Everton svo aftur horn og í þetta skipti setti McNeal boltann beint á pönnuna á Tarkowski á fjærstöng, sem gerði vel (Tarkowski, ekki fjærstöngin) í þvögu af Leeds mönnum að ná að skalla á mark en markvörður Leeds varði vel í horn. 

Leeds fékk ekki eitt hættulegt færi í fyrri hálfleik, að heita má (einn slakur skalli yfir mark í lokin), en ég man ekki eftir skoti sem rataði á rammann einu sinni. Everton betra liðið.

0-0 í hálfleik.

Leeds menn skipulagðari í seinni hálfleik en þeir höfðu verið í fyrri hálfleik. Lítið um færi framan af, Everton aðallega með einhver hálffæri. Mykolenko náði skoti á 63. mínútu, utarlega í teig en beint á Mellier í marki Leeds.

En skyndilega skoraði Everton og það virtist upp úr engu. Coleman tók sprett upp hægri kant og fékk langa sendingu til að elta. Vindurinn greip hins vegar boltann og virtist ætla að feykja honum aftur fyrir endalínu en á síðustu stundu náði Coleman skoti úr mjög þröngu færi á mark og skoraði í hliðarnetið fjær, þar sem Mellier var illa staðsettur! Eins gott, því bæði liðin fyrir neðan Everton voru komin yfir í sínum leikjum! Þetta var sjötta skotið á mark frá Everton. Ekkert komið frá Leeds.

Everton var þar með komið 1-0 yfir en enn 20 mínútur eftir og ekki bætti úr skák að Onana fór út af fyrir Davies á 74. mínútu. Onana leit út fyrir að hafa orðið fyrir smá hnjaski en vonandi ekkert alvarlegt. Everton má ekki við því að borga fyrir hver þrjú stig með meiðslum lykilmanna. Maupay fór svo út af fyrir Simms á 81. mínútu.

Everton sat nokkuð djúpt eftir þetta og beitti skyndisóknum og fékk betri færi en Leeds í kjölfarið. Besta færið fékk Doucouré, sem virtist vera að sleppa einn í gegn, eftir að Simms sá að hann var að á auðum sjó að hlaupa upp miðjan völlinn. En varnarmaður gerði vel og náði að hlaupa Doucouré uppi, sem leiddi til þess að Doucouré þóttist ætla að skjóta og reyndi að sóla. En það vildi ekki betur en svo til að hann reyndi að stoppa boltann með vinstri fæti og boltinn skoppaði í hægri fótinn á honum og þar með þurfti hann að reyna að ná stjórn á boltanum og skotfærið farið því fleiri varnarmenn voru mættir. 

En það kom ekki að sök, því Leeds menn náðu ekki að skapa sér færi, þrátt fyrir að fjórum mínútum var bætt við. 1-0 sigur Everton því staðreynd. Dyche kominn með 6 stig af 9 mögulegum þannig að Dyche-áhrifin halda greinilega áfram!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (7), Coady (7), Tarkowski (7), Mykolenko (6), Iwobi (7), Gueye (8), Onana (7), Doucoure (6), McNeil (7), Maupay (6).

Maður leiksins, að mati Sky, var Idrissa Gana Gueye.

7 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Einfalt, 3 stig eða fall.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það verður fróðlegt að sjá hvaða Evertonlið mætir. Þetta sem við vitum að getur spilað vel og barist um alla bolta, eða liðið sem er búið að vera með ræpuna uppi á baki allt tímabilið.
    Þetta er leikur sem verður að vinnast og vonandi tekst það, annars er þetta búið.
    Miðað við hvernig liðið hefur staðið sig gegn hinum liðunum í botnbaráttunni þá er þessi leikur ekki tilhlökkunarefni og ég er hræddur um að við töpum þessu, ég spái 0-1, en vonandi hef ég alveg kolrangt fyrir mér.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Allt í lagi fyrri hálfleikur en ef menn væru aðeins gráðugri þá gæti staðan verið enn betri því amk í tvígang skoppaði boltinn óáreittur í gegnum markteig Leeds.
    Vonandi gengur bara betur í seinni hálfleik.

  4. Finnur skrifar:

    Mikilvægt að landa þremur stigum í þessum leik í öðrum sigurleik á heimavelli í röð og — ekki bara haldið hreinu, heldur andstæðingurinn vængstífður þannig að ekki kom almennilegt færi hinum megin vallar. Næsti leikur gegn Aston Villa, aftur á heimavelli. Gott mál! Nú er bara að klóra sig ofar í töfluna, komnir upp úr fallsæti.

  5. Eirikur skrifar:

    Góð 3 stig. Enn svakalega er sóknarleikurinn slakur.
    Hef áhyggjur ef Dyche ætlar ekki að nota okkar mest skapandi leikmann neitt. Bourmouth og Southampton þurftu nú ekkert að vera vinna á útivelli í dag 🥶. Verðum að vinna sex leiki í viðbót til að sleppa við fall.

  6. Ari S skrifar:

    Nokkuð góð byrjun hjá Dyche. Þrír leikir tveir unnir. 1-0 í báðum og hreint mark í báðum, sem er gottmiðað við stöðu okkar. Vonandi heldur þetta áfram. Það má segja að allir okkar leikir séu 6 stiga leikir eða svo þykir mér.

    Áfram Everton!

  7. Eirikur skrifar:

    Aftur það sama . Heimaleikur 3 stig eða fall.