Liverpool – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að derby-leiknum svokallaða, milli Everton og Liverpool, á heimavelli þeirra síðarnefndu. Þetta eru hálf skrýtnar aðstæður sem þessi lið mætast í, bæði lið búin að eiga afar dapurt tímabil sem og dapran félagaskiptaglugga í janúar og virtust, fyrir síðustu umferð varla geta keypt sér stig… En svo allt í einu í síðustu umferð kom Sean Dyche öllum á óvart með því að peppa mannskapinn upp í sigur á toppliði Arsenal og allt í einu horfði þetta allt öðruvísi við.

Þetta var vissulega bara einn sigurleikur en svo virðist sem leikmannahópur Everton sé að bregðast mjög vel við þjálfaraskiptunum og vonandi að ná þessu new-manager bump sem oft er talað um. Og nú hefur það snúist við — skyndilega eru það stuðningsmenn Liverpool sem vonast eftir því að form fjúki út um gluggann, eins og sagt er um derby leikinn. Þeir eru nefnilega í leikformi sem jafnast á við lið í fallbaráttu og markahæsti leikmaður þeirra liðs á árinu er varnarmaður sem spilar fyrir Leicester, sá ég einhvers staðar. Þetta er skrýtinn heimur.

Væntingarnar eru þó hóflegar fyrir þennan leik, jafntefli væri frábær grunnur fyrir Dyche að byggja á — taplaus eftir tvo erfiða leiki með fjögur stig af 6 mögulegum. Fyrir þetta leikjaplan, sem Dyche byrjaði með, hefði maður tekið höndina af við öxl ef einhver hefði boðið fjögur stig. Sigur væri algjörlega geggjað, segi það ekki. Það væri frábært að sjá Everton lauma inn einu marki snemma og sjá þá frústreringuna aukast og aukast með hverri mínútunni. Sjáum hver uppstilling er:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Iwobi, Gana, Oanana, Doucouré, McNeil, Simms.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Keane, Mina, Godfrey, Davies, Gray, Maupay.

Úff, það er töluvert högg að sjá ekki Calvert-Lewin í hóp og ungliðinn Simms leiðir línuna. Þetta temprar væntingarnar töluvert og ekki laust við að maður hefði viljað sjá Dyche prófa frekar að hafa Gray fremstan, til að taka hraðar skyndisóknir á ótrausta vörn Liverpool. Kannski kemur hann inn á óþreyttur síðar í leiknum. Þetta verður eitthvað, svo mikið er víst. En þá að leiknum.

Róleg byrjun og lítið um færi. Vantaði svolítið ákefðina í leik Everton, miðað við Arsenal leikinn. Vantaði pressu án bolta og tilraunir Everton til að létta pressu af vörninni  brotnuðu alltaf niður þegar Simms fékk boltann. Mikið saknar maður Calvert-Lewin.

Lítið að frétta af framlínu Liverpool, þrátt fyrir að vera meira með boltann. Gapko fékk óvænt skallafæri eftir um 20 mínútna leik eftir að Nunez hafði reynt kjánalega hjólhestaspyrnu utarlega í teig. Færið ákjósanlegt en skallinn nokkuð vel framhjá.

Á 36. mínútu fékk Everton hornspyrnu og alveg eins og í síðasta leik, sendi McNeil fyrir, beint á kollinn á Tarkowski sem skallaði í innanverða stöng og út. Nær kemstu varla. Liverpool liðið stálheppið þar og ekki síður að skot frá McNeil í kjölfarið fór í hælana á Doucouré og beint út úr teig, að sjálfsögðu á Liverpool mann sem gat brunað í skyndisókn og úr henni skoruðu þeir. Heppnisstimpill á þessu. 1-0.

Fleiri urðu færin ekki í fyrri hálfleik. Einni mínútu bætt við og Liverpool liðið byrjað að tefja undir lokin. Svolítið spes.

Seinni hálfleikur var varla byrjaður þegar Liverpool komust í skyndisókn. Coleman hefði átt að brjóta á Andy Robertson en gerði ekki. Fyrir vikið kom sending á Salah hægra megin og hann náði að komast inn í teig og senda fyrir. Boltinn breytti stefnu af Mykolenko og svo, af einhverri ástæðu, leyfði Cody boltanum að sigla framhjá sér og þar lúrði Gapko á fjærstöng og potaði inn. Tvenn einstaklingsmistök (Coleman og Coady) og þar með game over. 2-0.

Gray inn á fyrir Simms og tók hans stöðu í framlínunni eftir um klukkutíma leik. Ekkert að frétta samt í sóknarleik Everton. Allt of hægt og fyrirsjáanlegt. Davies og Maupay inn á fyrir Onana og Maupay á 78. mínútu.

Á 81. mínútu sendi Iwobi frábæran bolta frá hægri yfir á fjærstöng og beint á skallann á Davies sem var óvaldaður en… skallaði yfir markið. Það verður að nýta þessi færi.

Liverpool svöruðu með skyndisókn eftir mistök í varnarlínu Everton. Komust fjórir á tvo en Tarkowski með hann í vasanum, tók landsliðstæklingu þegar Salah var að fara að skjóta úr dauðafæri.

En annars var þessi frammistaða bæði andlaus og bitlaus. Vantaði algjörlega allan baráttukraft, sem er óvenjulegt af derby frammistöðu.

Tap niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (4), Coleman (6), Coady (5), Tarkowski (6), Mykolenko (6), McNeil (6), Doucoure (6), Gana (6), Onana (6), Iwobi (6), Simms (5). Varamenn: Gray (5), Maupay (5), Davies (5).

4 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Everton slakir og vörnin arfaslök. Menn virðast bara mjög þreyttir og það kemur vel í ljós hvað hópurinn er lítill. Og Tarkowski sýnir hvers vegna hann féll í fyrra.

 2. Finnur skrifar:

  Tveir heimaleikir í röð næst. Fyrst 6 stiga leikur gegn Leeds á laugardaginn og svo Aston Villa. Þrjú stig úr tveimur erfiðum leikjum er meira en ég átti von á. Þetta hefur reynst okkar mönnum einn erfiðasti völlurinn undanfarin ár, þannig að maður bjóst ekki við miklu. Betra að taka stöðuna eftir þá leiki sem framundan eru.

 3. Gunnþór skrifar:

  Það blasir því miður fall við eigum ekki annað skilið, þetta var stutt gaman með nýja stjóranum

 4. Finnur skrifar:

  Ef skallinn frá Tarkowski hefði breytt um stefnu — þó ekki væri nema um eina gráðu nær marki — hefði Everton komist yfir í leiknum og við hefðum séð allt annan leik. Everton hefði getað spilað þetta líkt og í Arsenal leiknum, skellt í lás og frústrerað Liverpool liðið.

  Það var nefnilega ekkert að gerast í sóknarleik Liverpool, fram að þessu horni sem Everton fékk, þannig að þeir hefðu átt í erfiðleikum með að jafna, hvað þá komast yfir.

  Og þá væri narrative-ið allt annað. Dyche væri snillingur fyrir að hafa náð 4-6 stigum af 6 mögulegum (gegn erfiðum andstæðingum) og pressan á Klopp hefði aukast til muna.

  Sýnir hversu tæpt þetta er í Úrvalsdeildinni.