Everton – Arsenal 1-0

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton undir leiðsögn nýs stjóra, Sean Dyche, var stórleikur við Arsenal, sem voru (og eru) sem stendur í efsta sæti Úrvalsdeildarinnar eftir 19 leiki. Flautað var til leiks kl 12:30 og búast mátti við nokkurri bræði gagnvart stjórn félagsins, bæði fyrir, eftir og á meðan á leik stendur, eftir allt sem á undan er gengið. Það er samt vonandi að andrúmsloftið gagnvart leikmönnum og stjóranum verði gott, enda er vinnufriður þar lífsnauðsynlegur til að allir geti dregið vagninn í sömu átt og komið í veg fyrir fall, sem í augnablikinu virðist blasa við.

Ég hugsaði fyrir leik að það væri viðbúið að Dyche breyti leikaðferð nokkuð, fari líklega í 4-4-2, ef maður á að giska, með Calvert-Lewin og Maupay í framlínunni. Sjáum hvað setur.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Doucouré, Iwobi, McNeil, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Godfrey, Mina, Holgate, Davies, Gray, Simms, Maupay.

Nú þegar uppstilling hefur verið gefin út sýnist mér þetta vera 4-5-1, frekar en 4-4-2. Gray er á bekknum, sem kemur pínu á óvart en McNeil og Doucouré koma inn í byrjunarliðið.

Ég missti af fyrstu mínútunum við að leita að pöbb hér á Tene sem sýndi leikinn. Kom ekki að sök, sýnist mér.

En það sem ég sá eftir það var að Arsenal voru mun meira með boltann (70%) en sköpuðu sér lítið sem ekkert í fyrri hálfleik. Nketieh (?) átti loks eitt gott færi til að byrja með en lúðraði boltanum upp í stúku eftir skot nálægt hægri stöng — sem átti eftir að vera þema hjá Arsenal í leiknum.

Everton áttu fjögur horn í röð og tvö færi í kjölfarið, það fyrra eftir að Onana stal boltanum af miðjumanni og brunaði í sókn, komst inn í teig og sendi lágan fyrir og Calvert-Lewin var hársbreidd frá því að pota inn. Hið seinna var frír skalli frá Doucouré inni í teig, eftir háa sendingu fyrir frá Mcneil en skallinn slakur, í jörðina og niður. Enginn kraftur.

Saka, hinum megin, reyndi viðstöðulaust skot af löngu færi úti í teig og var næstum heppinn, boltinn breytti um stefnu af Mykolenko og Coady þurfti að bjarga á línu.

Rétt undir lok fyrri hálfleiks voru Arsenal menn stálheppnir að lenda ekki undir þegar Calvert-Lewin skallaði rétt framhjá fjærstöng eftir háa sendingu utan af kanti.

Fín frammistaða í fyrri hálfleik gegn Arsenal sem hafa verið á flugi undanfarið. Miðað við fyrri hálfleik gæti Everton haft áhrif á toppbaráttuna í þessari umferð. Vonum það besta!

0-0 í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af ákefð þegar Gana náði fljótt skoti á mark Arsenal, út við stöng, sem markvörður varði vel, en Calvert-Lewin var dæmdur rangstæður í aðdragandanum. En á 60. mínútu gerðist svo kraftaverk, þegar Tarkowski skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Fyrsta mark hans fyrir félagið og hversu mikilvægt þetta gæti reynst fyrir framhaldið, hugsaði maður. 

En, það voru enn þrjátíu mínútur eftir af leiknum og þær þurfti að klára. Maupay inn á fyrir Calvert-Lewin strax í kjölfarið. Þvílík stemning á pöllunum!

Arsenal menn settu í flugírinn og náðu sterkri pressu á vörn Everton. Tíu mínútur liðu án færis. Fimmtán mínútur. Arsenal menn í salnum æstari og æstari. Eftir 17 mínútur kom svo skot af löngu færi sem Pickford sló frá. 

Tuttugu mínútur liðnar frá marki og tölfræðin sýndi að Arsenal voru búnir að vera með boltann 70 prósent leiks og uppskáru einu skoti meira en Arsenal (11 á móti 12). Vel gert!

Tuttugu og fimm mínútur liðnar, fimm mínútur eftir af leiknum. Getur verið að þeir séu að sigla þessu í höfn, hugsaði maður?! Eða verður blaut tuska í andlitið í lokin, eins og venjulega?

Tvær mínútur eftir. Leikmenn Everton henda sér fyrir alla bolta, taka hressilega á tæklingum og leyfðu tímanum að líða á réttum augnablikum.

Heilum 6 mínútum bætt við. Ég get þetta ekki. 

Zinchenko átti skot yfir eftir horn og við það hugsaði maður að starfsfólkið hljóti að hafa minnkað Everton-markrammann fyrir hvorn hálfleik. Flest skotin frá Arsenal voru hátt yfir!

En þeim tókst þetta að lokum. Skoruðu fleiri mörk, unnu sálfræðistríðið og lögðu allt sem þeir höfðu í leikinn.

Liðið sem gat ekki keypt sér stig fram að þessum leik var að leggja toppliðið verðskuldað. Sean Dyche fær stóran plús í kladdann fyrir þennan vinnusigur. Meira svona. 

1-0 fyrir Everton lokaniðurstaðan, en með þessum sigri náði Everton að lyfta sér upp úr fallsæti.Öll liðin fyrir neðan þurfa sigur til að komast upp fyrir Everton og þau eiga öll leik núna kl. 15:00. Svo mætir Everton á Mordor á mánudaginn eftir rúma viku.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Tarkowski (8), Coady (8), Mykolenko (7), Onana (8), Gueye (7), Doucoure (7), Iwobi (7), Calvert-Lewin (7), McNeil (7). Varamenn: Maupay (6).

Byrjunarlið Arsenal var með fimmur eiginlega á línuna, fyrir utan tvo með 6.

Maður leiksins: James Tarkowski.

7 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vonandi verður þetta ekki hræðilegt😬

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Frábær frammistaða hjá hverjum einasta leikmanni í dag en þó fannst mér Onana standa upp úr og vera maður leiksins. Hann er algjört monster.

 3. AriG skrifar:

  Frábær sigur Everton. Liðsheildin var stórkostleg. Onana er snillingur. Vörnin frábær og miðjan stórkostleg. Sóknarleikurinn er svona lala þurfum að koma Calvert Lewin í gang kemur vonandi í næstu leikjum. Everton fékk 0 í einkunn fyrir leikmannakaup. Nýr stjóri skiptir oft meira máli en að kaupa nýja leikmenn sem skila engu. Eini leikmaðurinn sem ég var ekki sáttur með er Maupay næstum búinn að gefa viti og hundleiðinlegur leikmaður. Fannst MC Neil flottur loksins hef mikla trú á honum. Verum jákvæðir áfram Everton.

 4. Finnur skrifar:

  What a difference… a [match]day makes…

  Geggjaður vinnusigur.

 5. GunniD skrifar:

  Frábær vörn. Pickford hefði getað lagt sig.

 6. Finnur skrifar:

  Tarkowski og Obama í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/64526671?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Eins frábært og þetta var þá megum við ekki gleyma því að þetta var bara einn leikur og liðið ennþá í fallsæti. Við Evertonmenn höfum nú séð þessa leikmenn gera þetta áður og svo gera upp á bak í næstu leikjum á eftir. Ég held að næstu fjórir leikir segi til um hvort að liðið sé komið á rétta braut eða hvort þetta var bara enn eitt skiptið sem maður heldur að menn séu búnir að snúa við blaðinu.