Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Man United – Everton 3-1 (FA bikar) - Everton.is

Man United – Everton 3-1 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að FA bikarnum, en Everton spilar við Manchester United á Old Trafford á eftir kl. 20:00.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Godfrey, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, Gray, Maupay.

Varamenn: Begovic, Holgate, Mina, Davies, Doucouré, McNeil, Gordon, Calvert-Lewin, Simms.

Lampard ætlar greinilega að taka þessa keppni alvarlega og stillir upp svipuðu liði og náði stigi á útivelli gegn Manchester City á dögunum. Godfrey kemur aftur inn í liðið og er hér því líklega um 5-4-1 uppstillingu að ræða. Stóri munurinn þó að Maupay kemur inn fyrir Calvert-Lewin, sem fer á bekkinn og Coleman kemur inn í byrjunarliðið fyrir Patterson, sem meiddist í síðasta leik. En þá að leiknum…

Varnarsinnuð uppstilling í kvöld. Planið greinilega svipað og gegn City, bíða þolinmóðir og helst að ná í seinni hálfleik án marks. Það hins vegar gekk engan veginn, því United menn náðu að skora strax á fyrstu mínútunum eftir nokkuð vel útfærða sókn. Leikurinn varla byrjaður og staðan orðin 1-0 og það sem meira var, áður en leikmenn Everton náðu áttum hafði Martial náð skoti á markið en hitti það, sem betur fer, ekki.

En svo var komið að Everton. Gray gerði vel og átti skot að marki rétt utan teigs sem fór í utanverða stöngina og í bakið á De Gea. Boltinn hefði getað endað í netinu en fór röngu megin við stöngina. Hornspyrna. Og upp úr henni skoraði Everton.

Onana fékk boltann við vítateigsjaðurinn hægra megin og losaði sig auðveldlega við Casemiro (sem kom á hlaupinu út úr teig) með því að nota líkamann vel til að skýla boltanum og vísa honum veginn framhjá sér. Sendi svo á Maupay sem komst upp að endalínu og reyndi skot að marki. Skotið máttlaust en boltinn skoppaði milli fóta á De Gea og fór aftur fyrir hann. Coady var fljótur að hugsa og potaði í netið og náði að jafna leikinn!! 1-1.

„Game on!“ og aftur komið að upphaflegu leikjaplani Lampard. Andrúmsloftið á Old Trafford gerbreyttist algjörlega við markið. Grafarþögn á öllum vellinum, nema í útistúkunni, sem sungu „Everton… the spirit of the Blues!“ hástöfum!

Augljóslega smá pirringur í leikmönnum United við markið og það var bara fínt. Þeir náðu ekki að skapa sér almennilegt færi aftur fyrr en á 38. mínútu, þegar þeir brutu á leikmanni Everton úti á kanti og Eriksen reyndi skot rétt utan teigs, en rétt yfir slána.

1-1 í hálfleik. 

Seinni hálfleikur hófst á því (efitr örfáar mínútur) að Iwobi vann boltann snemma á miðjunni og brunaði í skyndisókn upp völlinn og „driftaði“ aðeins til hægri. Áður en maður vissi af náði varnarmaður United óþægilega sterkri tæklingu á Iwobi, sem meiddist á ökkla við tæklinguna og var borinn út af á börum. Það eina sem maður bað um fyrir leik var: engin meiðsli, en það gekk ekki eftir. Maður hefur alveg séð gult á svona brot en Everton fékk ekki einu sinni aukaspyrnu, hvað þá meira. Doucouré inn á fyrir Iwobi.

En ógæfan hélt áfram, því það leið varla mínúta þangað til markaskorari Everton (Coady) var búinn að skora sjálfsmark. Coleman réði illa við Rashford sem brunaði inn í teig vinstra megin og sendi lágan bolta fyrir mark. Enginn sóknarmaður þar, en Coady reyndi hreinsun og endaði á að setja boltann í eigið mark. 2-1 fyrir United. Heppnismark, en svona er þetta. 

Lampard skipti út Maupay fyrir Calvert-Lewin á 69. mínútu og sú skipting virtist skila frábærum árangri, því Everton náði að jafna stuttu síðar, hélt maður. Coleman og Gray náðu að vinna vel saman í skyndisókninni sem endaði með fyrirgjöf sem Calvert-Lewin náði að stýra í netið með kassanum en Gray var dæmdur (réttilega) rangstæður í aðdragandanum. Frampartinn á skónum á Gray vissulega rangstæður, en þetta var það tæpt.

Lampard með jákvæða skiptingu í kjölfarið, enda litlu að tapa. Gordon og McNeil komu inn á fyrir Mykolenko og Coleman á 79. mínútu. Tveir bakverðir út af og tveir kantmenn inn á. United menn sáu hvað í stefndi og skiptu út tveimur sóknarsinnuðum (Eriksen og Antony) fyrir tvo varnarsinnaða (McTominay og Maguire) í kjölfarið. Gray átti svo skot á 90. mínútu en De Gea kastaði sér niður og varði.+

Það stefndi í 2-1 sigur United, ef ekki hefði verið fyrir eina skyndisókn United í lokin sem náði alveg upp að marki Everton en Godfrey braut af sér og Rashford skoraði úr vítinu. Það skipti þó engu því United hefðu hvort eð er farið áfram í bikarnum.

Úrslitin því eftir bókinni í dag en maður vonar að Lampard haldi sig við þessa leikaðferð því það er allt annað að sjá til liðsins í 5-4-1 leikaðferð en þessari 4-3-3 aðferð. Þrátt fyrir að aðeins hafi náðst jafntefli í síðustu tveimur leikjum og þrátt fyrir tap í bikar í kvöld á útivelli þá er allt annað að sjá til liðsins með Godfrey, Tarkowski og Coady í hjarta varnarinnar.

Nú er bara að einbeita sér að deildinni og vona að liðsstyrkur berist í janúarglugganum.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þá er komið að lokaleik Lampard

  2. Eirikur skrifar:

    5-3-2 sýnist mér og mun betri uppstilling enn í seinasta leik. 3-5-2 þegar sótt er jafnvel 3-4-3 . Enn miðjan fellur allt of langt niður þegar sótt er á okkur. Og nú er IIwobi farinn meiddur af velli 🙁 og við lentir undir.

  3. Eirikur skrifar:

    Bless Lampard.

  4. Ari S skrifar:

    Samkvæmt frétt sem ég var að lesa rétt í þessu þá eru meiðsl Iwobi ekki alvarleg. Sagt er að hann verði frá í 2 vikur vegna ökklameiðsla. Í fréttinni er vitnað í pabba Iwobi. Ég vona bara að þetta sé r.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja!!

    Það er kominn 11. janúar og enn enginn nýr leikmaður kominn í þessum glugga, en það kemur svo sem ekkert á óvart.
    Ef einhver hefur haldið að Everton hefði verið búið að gera einhver plön fyrir janúargluggann og jafnvel verið búnir að ganga frá einhverjum kaupum, þannig að menn gætu komið inn strax á fyrsta degi, þá hefur sá/sú ekki verið að fylgjast með félaginu síðustu árin.

    Ég ætla að slá því föstu að Ellis Simms verði EINI leikmaðurinn sem bætist í hópinn í þessum glugga.

  6. Eirikur skrifar:

    Mín spá er að Lampard hafi leikinn á laugardag til að bjarga starfinu.
    Og eftir að hafa horft á seinustu 20 í leik Southampton og City er ég ekki bjarsýnn á að það takist því miður.

  7. Ari S skrifar:

    Everton er þrátt fyrir allt með 8. bestu vörnina í deildinni.