Everton – Crystal Palace 3-0

Mynd: Everton FC.

Nú er komið að heimaleik Everton við Crystal Palace í 12. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Úrslitin hafa ekki verið hagstæð í síðustu þremur leikjum og kominn tími til að snúa því gengi við. Þetta er kannski fullkominn leikur til þess, líkt og hann var undir lok síðasta tímabils.

Ritari er frá og nær því ekki að fjalla um þennan leik en verið er að reyna að redda varamanni.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Coady, Coleman, Gueye, Onana, Iwobi, Gordon, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, Keane, McNeil, Doucoure, Maupay, Davies, Rondon, Garner.

Ekki náðist í varamann fyrir skýrsluna en ritari komst í hús þegar um hálftími var liðinn af fyrri hálfleik. Missti af markinu hjá Calvert-Lewin (á 11. mínútu) en eftir markið var þetta svolítið í járnum og lítið um færi. Everton með fleiri skot og fleiri á rammann og uppskáru eitt mark.

Staðan því 1-0 í hálfleik.

Crystal Palace menn færðu sig upp á skaftið í upphafi seinni hálfleik og virkuðu beinskeyttari. Zaha komst upp að endamörkum vinstra megin í einni sókn og Coleman þurfti að henda í eina landsliðstæklingu til að stoppa hann. Nákvæmlega ekkert mátti út af bera inni í teig — hann varð að ná boltanum fyrst og ekki snerta Zaha áður en Zaha skyti, svo að þetta endaði ekki með marki eða vítaspyrnu og gerði það fullkomlega.

Everton kom boltanum í netið eftir vel útfærða skyndisókn á 63. mínútu. Létu boltann ganga hratt og vel milli manna og á endanum komst Mykolenko í skotfæri vinstra megin í teig. Markvörður varði skotið vel en Gordon var mættur á lausa boltann og potaði inn á meðan markvörður lá í grasinu. Línuvörður reyndi að halda því fram að Gordon hefði verið rangstæður, sem hefði verið alveg galinn dómur en VAR sneri við þeirri ákvörðun, réttilega! 2-0 fyrir Everton! Ég elska VAR! 

Crystal Palace menn létu seinna markið fara mikið í taugarnar á sér og röðuðu inn gulum spjöldum fyrir ljótar tæklingar og slagsmál í kjölfarið. Sluppu þó við rautt spjald, merkilegt nokk.

McNeil kom inn á fyrir Gray á 72. mínútu og nokkrum mínútum síðar kom tvöföld skipting: Garner og Maupay inn á fyrir Onana og Calvert-Lewin.

Everton hélt hins vegar uppteknum hætti og sköpuðu sér áfram færi. Dwight McNeil geystist fram í einni sókninni, smeygði sér framhjá hverjum Palace manni á fætur öðrum og komst alla leið inn í teig. Þegar þeir reyndu að loka á hann, sendi McNeil stungusendingu til vinstri á Iwobi, sem kom á hlaupið á ská, hálfpartinn þvert á hlaupalínu McNeil, en í stað þess að skjóta tók Iwobi hælsendingu aftur á McNeil sem skoraði auðveldlega. 3-0. Allt vitlaust á pöllunum náttúrulega og áhorfendur sungu Spirit of the Blues hástöfum.

Önnur tvöföld skipting strax í kjöflar marksins: Gana og Gordon út af fyrir Doucouré og Davies.

Það var frábært að sjá að baráttan og ákefðin var enn til staðar í lokin, þrátt fyrir að Everton væri þremur mörkum yfir. Menn tilbúnir að hlaupa úr sér lungun og elta uppi alla Palace menn með bolta. Það létti töluvert af allri pressu sem Palace menn voru að reyna að skapa og Everton sigldi þessu í kjölfarið í höfn, nokkuð auðveldlega.

Mikið hljóta Palace menn að hata að mæta á Goodison Park, búnir að fá á sig þrjú mörk í tveimur leikjum í röð þar. Í þetta skiptið skoruðu þeir ekkert mark, sem má segja að sýni framfarir frá síðasta tímabili.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (8), Tarkowski (8), Coady (8), Mykolenko (8), Onana (8), Gueye (7), Gordon (8), Iwobi (8), Gray (7), Calvert-Lewin (8). Varamenn: McNeil (7).

17 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  0-0 jafntefli er það besta sem við getum vonast eftir því okkar menn gætu ekki skorað í rauða hverfinu í Amsterdam.
  Ég skil ekki alveg hvers vegna DCL er í byrjunarliðinu en McNeil, sem helst myndi sjá honum fyrir marktækifærum situr bara á bekknum.
  Gordon og Gray eru ekki mikið í því að gefa fyrir markið sem er það sem DCL þrífst best á því hann er aldrei að fara að búa neitt til sjálfur.
  Ég held að það myndi virka að setja Gordon og Gray á bekkinn í staðinn fyrir Maupay og Doucoure og stilla upp í 442 með tígulmiðju, þar sem Iwobi væri fremstur og Gana aftastur. Ég held að það hefði amk verið allt í lagi að prófa það þar sem 433 kerfið með þessum leikmönnum hefur ekki verið að virka í síðustu leikjum.

  Ég býst alls ekki við sigri í dag og hef í raun litla trú á að Everton nái stigi, en ég vona það besta og býst við því versta.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja fyrri hálfleikur var bara þokkalegur. Okkar menn að spila nokkuð vel og vonandi heldur það áfram.

 3. Ari S skrifar:

  Mikið var þetta flottur sigur. Flestallir liekmenn bara nokkuð góðir og sumir betri. Iwobi are bara alltaf góður og sendingin hans í ´siðasta markinu sem að McNeil skoraði var glæsileg. Reyndar undirbúningurinn frá McNeil sjálfum líka mjög flottur. Samanlagt gífurlega mikilvægur sigur og gott veganesti í næstu þrjá leiki.

 4. albert skrifar:

  augljósar framfari hjá okkar mönnum, en það var líka af því CP vöru als ekki „góðir“ í dag! Gott að Calvert-Lewin skoraði.

 5. AriG skrifar:

  Frábær leikur hjá Everton loksins. Vörnin mjög góð og sóknarleikurinn mjög góður. Vel Iwobi besta leikmann Everton átti 2 stoðsendingar sérstaklega var síðari stórkostleg.

 6. Jón Ingi Einarsson skrifar:

  Loksins kom leikur sem var ánægjulegt að horfa á, vonandi er liðið að komast í rétt form. Þá þótti mér ánægjulegt að horfa á Liverpool leikinn, alltaf gaman að sjá þá tapa. Við náðum þó jafntefli við Forrest, var á pöllunum þá skíthræddur um að við næðum engu úr leiknum. Eitt til Finnur, er ekki hægt að laga á heimasíðunni að við séum með töfluna síðan í fyrra.

 7. Diddi skrifar:

  Flott úrslit, vonandi verður framhald á

 8. Halli skrifar:

  Frábær leikur í gær margt vel gert á vellinum og 3 stig á töfluna nú væri frábært að fylgja þessu eftir og ná í þau 9 stig sem eru í boði fram að hléinu vegna HM og vera í efrihlutanum á töflunni í hléinu.

 9. albert skrifar:

  Staðan 2021/22 á að vera Staðan 2022/23

 10. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Munið þið þegar Coady skoraði gegn Liverpool en það var dæmt af vegna rangstöðu þrátt fyrir að boltinn færi af Milner fyrir markið? Jæja Kane var að skora svipað mark fyrir Tottenham og það fékk að standa.
  Það er ekki sama Jón og séra Jón.

 11. Ari S skrifar:

  Ég var að horfa á annað markið okkar aftur. Þetta eru 11-12 sendingar frá Pickford og endar á Gordon. Þetta er eiginlega með því besta sem gerist í boltanum. Og enn og aftur kemur Iwobi við sögu.

 12. Finnur skrifar:

  Mykolenko í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.co.uk/sport/football/63368172

 13. Ari S skrifar:

  Lesið í fréttablaði nýja vallarins:

  Það verða 747 klósett á nýja vellinum. Til samanburðar eru 5 karlaklósett í efri Gwladys Street stúkunni. 🚽🧻😳

  Smá munur haha

  Einskisverðar upplýsingar en set þ´ær samt hérna inn…

Leave a Reply

%d bloggers like this: