Ferðasaga: Everton – Man United

Mynd: Everton FC.

Það voru ansi margir Íslendingar sem mættu til Liverpool borgar nú um síðustu helgi, til að sjá Everton taka á móti Manchester United í 9. umferð Úrvalsdeildarinnar. Að stórum hluta var hér að þakka glænýju beinu flugi Play Air frá Keflavík til Liverpool og er það mjög svo kærkomin nýjung fyrir okkur öll sem elskum að sjá, með berum augum, okkar ástsæla lið spila og upplifa Liverpool borgina. Þetta var mjög þægilegt flug, fullkomið fyrir enska helgarboltann, út á föstudagsmorgni og heim aftur um miðjan dag á mánudegi, en hingað til hefur fólk þurft að fljúga til Manchester og taka klukkutíma í lest eða leigubíl á milli.

Þetta flug okkar, þann 7. október 2022, reyndist vera jómfrúarflug Play Air frá Keflavík til Liverpool og Everton klúbburinn ytra hafði fengið veður af því að hluti stuðningsmannaklúbbs þeirra frá Íslandi væri að fara að mæta á svæðið og höfðu því, ásamt fulltrúum frá bæði flugvellinum og Play Air, skipulagt höfðinglegar móttökur, eins og best er að gera skil með eftirfarandi örstutta myndskeiði. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir að gera þessa upplifun mögulega.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að það var afskaplega óvænt ánægja fyrir okkur að klúbburinn skyldi senda einn af leikmönnum aðalliðs Everton, Nathan Patterson, til að taka á móti okkur á flugvellinum og maður veltir því fyrir sér hvort sá sómi hafi nokkurn tímann áður verið sýndur íslenskum stuðningsmönnum ensks Úrvalsdeildarliðs.

Verst var þó að hafa ekki vitað af Nathan Patterson fyrirfram, því þá hefði maður reynt að smala saman öllum hinum stuðningsmönnum Everton, sem voru í vélinni, í myndatökuna með okkur, en þeir voru allnokkrir. Á móti okkur tók hópur af ljósmyndurum og fréttir af þessu jómfrúarflugi bárust því víða í staðarblöðunum í Liverpool, þmt. Liverpool Echo og víðar (sjá hér, hér, hér og hér), að ekki sé minnst á blöðin hér heima (í Mogganum, Fréttablaðinu og DV). En einna sætast fannst okkur þó að rata á forsíðu Everton FC síðunnar um tíma! Við vitum hvað sagt er… Everton is the People’s Club. Svo fengum við náttúrulega allir prívat og persónulega mynd með Nathan Patterson…

Haraldur, formaður stuðningsmannaklúbbsins með Nathan Patterson

Hópurinn okkar gisti á Dixie Dean hótelinu, sem er lúxushótel í hjarta Liverpoolborgar og er rekið af Madeline, barnabarni Dixie Dean — eins af okkar frægu framherjum, sem við spjölluðum heilmikið við.

Við leigðum okkur 6 manna svítu í þessu afar glæsilega hóteli, sem opnaði 15. júlí 2019, og það fór vel um okkur alla. Vel var tekið á næturlífinu þetta fyrsta kvöld (sem og reyndar önnur kvöld) en daginn eftir keyrðum við til Wigan að sjá þá spila við Cardiff — ekki kannski síst vegna þess að okkar maður, vinstri bakvörðurinn Niels Nkounkou, er um þessar mundir á láni hjá Cardiff. En fyrst var stemningin tekin á Greene King, local pöbbnum í Wigan, þar sem Cardiff menn voru áberandi og sungu hástöfum.

DW Stadium, heimavöllur Wigan er flottur völlur og það var gaman að sjá Niels Nkounkou eiga stjörnuleik, en hann lagði upp fyrsta markið þeirra og var einnig lykilmaður í öðru markinu. Hann hefði meira að segja átt eina stoðsendingu í viðbót í leiknum, þegar hann setti sóknarmann þeirra inn fyrir með stungusendingu, en sá lét verja frá sér úr algjöru dauðafæri, einn á móti markverði. Niels, sem var valinn maður leiksins með 8.8 í einkunn, var meira en til í að láta taka mynd af sér eftir leik.

Um kvöldið á laugardeginum var farið á Bem Brazil veitingastaðinn, sem hefur skapast ákveðin hefð um á ferðum okkur til Liverpool (Bems og Fazenda einnig). Frábærir staðir þar sem þjónarnir bera í mann matinn á spjótum og maður velur það sem hugurinn girnist.

Að sjálfsögðu voru hinir ýmsir staðir í næturlífinu prófaðir í kjölfarið, eins og vera ber, en daginn eftir var kíkt á framganginn á nýja leikvelli Everton, sem verið er að byggja á fullu núna.

Á sunnudeginum mættum við snemma á svæðið hjá Goodison Park og byrjuðum á Royal Oak pöbbnum. Þar var meiningin að ná að hita upp fyrir leik okkar manna við Manchester United með því að horfa (í sjónvarpinu) á Arsenal sigra Liverpool í fjörugum leik, með þremur mörkum gegn tveimur. Það ætlaði allt um koll að keyra í hvert sinn sem Arsenal komust yfir og mátti heyra saumnál detta þegar Liverpool jafnaði. Gaman að því.

Undir lok leiks gengum við svo á Goodison Park til að upplifa Fanzone stemninguna, fá okkur fisk, franskar og einn kaldann og svo var haldið inn á völl.

Hvað leikinn varðar þá komst Everton yfir mjög snemma leiks með flottu marki frá Iwobi, en bæði lið voru nokkuð frá sínu besta. United náðu á endanum að komast yfir en voru svo stálheppnir að hanga á sigrinum, sérstaklega síðustu 10 mínúturnar þegar Everton gerði harða hríð að marki þeirra og fengu nokkur ágætis færi til að jafna, en tókst ekki. Á þriðja tug íslendinga voru á pöllunum til að fylgjast með leiknum og upplifa stemninguna og þó úrslitin hafi verið fæstum að skapi reyndist þetta hin besta skemmtun.

Eftir leik fórum við á Bacaro smáréttastaðinn og rétt náðum inn áður en eldhúsið lokaði (kl. 22) og fengum geggjaðan mat þar. Mælum sérstaklega með hörpuskelinni!

Það voru svo léttir, ljúfir og kátir ferðalangar sem flugu svo heim aftur með Play á mánudeginum, með alls konar skemmtilegar minningar í farteskinu. Við þökkum kærlega fyrir okkur!

5 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Geggjuð ferð! 🙂

 2. Andri skrifar:

  Takk fyrir ferðina því hún var geggjuð, með gleðina í fyrirrúmi ❤

 3. Kiddi skrifar:

  Frábær ferð í alla staði og mjög gaman að hitta ykkur á Bem Brazil og einnig fyrir leik.
  Hlakka til næstu ferðar 🥂🥂

 4. þorri skrifar:

  sælir félagar veit einhver um hvar sé hægt að ath um miða á leik everton leicester ég er að fara til liverpool á þann leik en gleymdi mér að ath miða

  • Finnur skrifar:

   Já, þú hefur samband við klúbbinn og við reynum að redda þér miðum. Sendi þér email á hotmail reikninginn.