Mynd: Everton FC.
Vel á þriðja tug Íslendinga á pöllunum að horfa á þennan leik, þar með talið nær öll stjórn klúbbsins. Gaman að þessu! Meistari Ingvar Bærings reddaði skýrslu fyrir ritara og við kunnum honum besti þakkir fyrir og gefum honum orðið…
Uppstilling: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, Gordon, Gray, Maupay.
Varamenn: Begovic, McNeil, Keane, Calvert-Lewin, Davies, Vinagre, Rondon, Garner, John.
United meira með boltann án þess að gera nokkuð með hann fyrstu 4 mínúturnar. Onana vann boltann á fimmtu mín, kom honum á Gray sem kom honum áfram á Iwobi sem skoraði með flottu skoti.
Dalot prjónaði sig inn í vítateig á 8. mín en Tarkowski blokkaði skotið.
14. mín, Gana tapar boltanum á miðjunni, Martial átti flotta sendingu á Antony sem skoraði.
Litlu munaði að United kæmist yfir 5 mín seinna þegar Gana reyndi sendingu á Onana en hann var ekki að horfa, Eriksen komst inn í sendinguna og átti skot sem Pickford varði, Coleman hreinsaði frákastið í horn sem ekkert varð úr. Minútu seinna prjónaði Martial sig í gegnum vörnina en Pickford varði.
Allt of mikið af slökum sendingum hjá báðum liðum, sérstaklega Everton.
Á 37. mín tapaði Mykolenko boltanum á vítateigslínunni og United skoraði, en sem betur var dæmd rangstaða.
42. mín, Rashford með góða fyrirgjöf á Casemiro sem fékk frían skalla en hitti sem betur fer ekki í markið.
44. mín, Ronaldo kemur United yfir eftir sendingu frá Casemiro sem vann boltann af Iwobi, því miður verðskuldað.
Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik, kannski sem betur fer því Everton var bara með fyrstu 5 mínúturnar og máttu þakka fyrir að forysta United var ekki stærri í hléi.
Onana fékk gult spjald fyrir brot eftir 50 mín eftir að hann hafði misst boltann klaufalega frá sér. Stuttu síðar braut Casemiro svo á Onana og hefði vel getað fengið gult spjald fyrir, en ótrúlegt en satt, bara aukaspyrna.
Everton átti ágæta sókn á 62. mín og Coleman fékk hálffæri en náði ekki að stýra boltanum á markið. Gordon fékk svo gult spjald fyrir að vinna boltann af Bruno. Gordon er því kominn í bann gegn Tottenham í næsta leik.
Á 67. mín fór Gordon út af fyrir McNeil.
Everton fékk sína fyrstu hornspyrnu á 70. mín sem McNeil tók beint á kollin á Onana sem því miður skallaði yfir markið.
Á 74. mín braut Bruno illa á Tarkowski, en fékk merkilegt nokk ekki gult spjald.
Dominic Calvert Lewin og Garner komu svo inn á í sínum fyrsta leik á tímabilinu í stað Gana og Coleman.
Rashford skoraði á 80. mín, en hann hafði tekið boltann með hendinni svo það taldi ekki.
McTominay braut illilega á Gray á 85. mín og fékk gult spjald fyrir og mátti teljast heppin að sleppa með það því hann fór með takkana í sköflunginn á Gray.
Gray átti fyrirgjöf á 90. mín á Onana sem því miður hitti ekki á markið. Mínútu síðar átti Garner gott skot sem De Gea varði í horn, en úr því varð ekkert.
Everton fékk nokkrar hornspyrnur í uppbótartímanum en náði ekki að nýta þær. Niðurstaðan því 1-2 tap.
Allt of mikið um klaufagang í vörninni og á miðjunni í fyrri hálfleik sem lagði grunninn að þessu tapi. Seinni hálfleikur mun betri en það vantaði þennan fræga herslumun. Of margir leikmenn líka að spila undir getu, sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem Gray, Gordon, Onana og Maupay voru arfaslakir. Næstu leikir gegn Tottenham og Newcastle eru báðir á útivelli og ef Everton ætlar að fá eitthvað út úr þeim verða þeir að gera miklu miklu betur en í kvöld.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Coady (6), Tarkowski (6), Mykolenko (6), Gueye (5), Iwobi (7), Onana (6), Gordon (5), Maupay (5), Gray (6). Varamenn: McNeil (6), Garner (7), Calvert-Lewin (6).
Þetta verður allt annað en auðvelt. Ég veit að united fengu skell um síðustu helgi og hafa ekki alltaf verið sannfærandi í sínum sigurleikjum, en þrátt fyrir það þá hafa þeir náð að hala inn slatta af stigum og þó þeir fengju á sig sex mörk gegn city þá skoruðu þeir samt þrjú mörk gegn liði sem er mjög gott varnarlega.
Ég vona bara það besta en jafntefli kæmi ekki á óvart.
Algjör skita hjá okkar mönnum í fyrri hálfleik.
Vonandi að Lampard lesi þeim pistilinn í hléinu og seinni hálfleikur verði betri, enda getur þetta varla versnað…….eða hvað?
Ótrúlegt að Gordon skuli vera í byrjunarliðinu og besti maður seinasta leiks McNeil skuli verma bekkinn.
Vona að Lampard sjái ljósið og skipti í hálfleik
Þetta er mjög lélegt og langt frá getu þessa liðs
Burt með þennan Gana
Ein óþolandi staðreynd.
Eriksen hefur aldrei tapað leik gegn Everton. Í dag var fjórtándi leikurinn
sem hann spilar gegn Everton. Ég held að það hvíli einhver bölvun á okkar mönnum, Eriksen bölvunin. Svo var þessi leikur líka á BT sport stöðinni, Everton vinnur aldrei leiki sem hún sýnir. Vonandi fer hún á hausinn eða að einbeita sér að krikket eða boccia.
Góður
Að Gordon fái 5 í einkunn er rugl, 3 er yfirdrifið nóg miðað við hans frammistöðu í dag. Þetta var líka versti leikur Gana eftir að hann kom aftur. Iwobi var líka frekar dapur í fyrri hálfleik, mun betri í þeim seinni.
Það var í október í fyrra sem allt fór að ganga á afturfótunum. Vonandi verður október í ár ekki jafn slæmur, en næstu leikir eru ekki beinlínis tilhlökkunarefni. 9 stig eru líklega það besta sem við getum vonast til eftir þennan mánuð.