Southampton – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Landsleikjahléið er að baki og Everton á nú leik við Southampton á útivelli í 8. umferð Úrvalsdeildarinnar. Hægri bakvörðurinn ungi, Patterson, meiddist í landsleik með Skotum á dögunum og er talið að hann verði fjórar vikur frá, þannig að hann missir af næstu leikjum. Í stað hans kemur Coleman inn í byrjunarliðið. Pickford hefur hins vegar jafnað sig af sínum meiðslum og leikur því á milli stanganna í dag. Calvert-Lewin er enn meiddur og Maupay er því í framlínunni og athygli vekur að Gordon er á bekknum í þessum leik og því byrjar McNeil inni á fyrir hann.

Ralph Hasenhuttl, stjóri Southampton, gerir 6 breytingar á sínu liði frá síðasta leik, til þess að freista þess að snúa við gengi þeirra, en þeir hafa nú tapað tveimur leikjum á útivelli með einu marki gegn engu (gegn Villa og Úlfunum). Þeir hafa jafnframt ekki unnið leik frá því 20. ágúst, þegar þeir unnu Leicester á útivelli 1-2.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkwoski, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, McNeil, Gray, Maupay.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Keane, Davies, Doucouré, Gordon, Rondon, Garner, John.

Everton komst í skyndisókn á 2. mínútu og Iwobi náði flottum háum bolta frá vinstri á fjærstöng þar sem Onana var mættur. Hann náði þó hvorki skoti né skalla á mark en var felldur í kjölfarið þegar boltinn skoppaði til markvarðar. Onana vildi fá víti en hvorki dómarinn né VAR sýndu því áhuga þó.

Southampton menn svöruðu með skoti á mark frá Che Adams, innan teigs hægra megin en í hliðarnetið. Pickford kom vel út á móti og hefði líklega tekið það ef sóknarmaðurinn hefði náð að stýra boltanum á rammann.

Á 26. mínútu brunaði Gray upp vinstri kantinn, smeygði sér auðveldlega framhjá miðverði Southampton, sem reyndi tæklingu, og Gray kom sér þannig í ákjósanlegt skotfæri. Var búinn að gera allt rétt fram að því en skotið hins vegar laust og beint á markvörð. Hefði betur rennt honum til hliðar á Maupay, sem var að komast í færi.

Maupay komst í skallafæri eftir horn á 39. mínútu, alveg upp við mark, en skallinn beint á markvörð, því miður.

Everton með undirtökin í fyrri hálfleik en þegar nær dró marklínu virtist þetta yfirleitt fjara út. Fengu eitthvað af hálffærum og bunka af hornum en náðu ekki að nýta þau. 

0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði með miklum látum! Southampton menn nýttu sér hik í vörn Everton og náðu skoti á marki, utarlega í teig. Boltinn fór framhjá tveimur varnarmönnum og sömuleiðis Pickford í markinu. Southampton þar með komnir yfir þvert gegn gangi leiks. En þetta kveikti aldeilis í leikmönnum Everton!

Örskömmu síðar fékk Everton aukaspyrnu úti á vinstri kanti og sendu háan bolta fyrir mark. Onana var mjög nálægt hægri (fjær)stöng en ákvað að senda boltann til baka fyrir mark (frekar en að skalla á markið) og tók þar með markvörð Southampton út úr leiknum. Skallaði beint á Connor Coady, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Everton! Hann hafði lítinn tíma til að hugsa, því boltinn barst til hans skyndilega, þegar allir bjuggust líklega við að Onana myndi skalla á mark, en Coady náði að stýra boltanum í netið eins og sannur framherji. Staðan orðin 1-1!

Southampton menn voru nálægt því að komast aftur yfir strax í næstu sókn, náðu mörgum skotum á mark úr ákjósanlegum færum en aftur og aftur köstuðu leikmenn Everton sér fyrir skotin og náðu að loka á þá. Frábær barátta í vörninni.

Svo örskömmu síðar komust Everton í sókn hinum megin. Iwobi fékk boltann frá Gray og sendi háan bolta fyrir frá hægri nokkuð utan teigs, beint á Onana sem brotið var á (bakhrinding) þegar hann reyndi að skalla. VAR þurfti þó ekki að skoða vítið, því McNeil var mættur á fjærstöng og einfaldlega þrumaði inn! staðan orðin 1-2 fyrir Everton eftir 54 mínútur!

Um tíma leit svo út fyrir að Everton myndi ná að bæta við þriðja markinu, þegar þeir reyndu aftur það sem virkaði svo vel skömmu áður. Coleman, í þetta skiptið, sendi háan bolta fyrir mark af nánast sama bletti og stoðsending Iwobi kom frá áður og nú náði Onana hins vegar að skalla en boltinn rétt framhjá stönginni. Southampton menn heppnir þar.

Everton liðið spilaði nokkuð djúpt eftir þetta, kannski svolítið óþægilega djúpt, en vörðust vel og fengu skyndisóknir. Til dæmis á 70. mínútu þegar Gray komst einn á móti markverði eftir stungusendingu en lét verja frá sér. Hefði farið í VAR skoðun hvort eð er, mögulega rangstæður.

Southampton menn færðu sig upp á skaftið við þetta og náðu frábæru skoti innan teigs á 72. mínútu, en Pickford varði glæsilega í horn, sem ekkert kom út úr.

Gordon og Davies var svo skipt inn á fyrir McNeil og Onana á 74. mínútu. Rondon kom svo inn á fyrir Maupay rétt fyrir lok venjulegs leiktíma og Doucouré fyrir Gray ekki löngu síðar.

6 mínútum var bætt við leikinn og þetta voru taugatrekkjandi mínútur. Ekki síst þegar Ward-Prose tók aukaspyrnu utan af velli hægra megin, inn í teig þar sem leikmaður Southampton var mættur á fjærstöng til að þruma inn… en… lúðraði boltanum yfir úr dauðafæri. Þeir fengu svo annað hálffæri örskömmu síðar en skot frá þeim innan teigs var laust og beint á Pickford.

Sigurinn í höfn, en þetta var annar sigur Everton í röð í deild. Meira svona takk.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Coady (7), Tarkowski (7), Mykolenko (7), Onana (7), Gueye (7), Iwobi (7), Gray (7), McNeil (8), Maupay (6). Varamenn: Davies (6), Gordon (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports: Dwight McNeil.

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ekki mikið að frétta úr þessum fyrri hálfleik. Vonandi verður seinni hálfleikur betri.

  2. Finnur skrifar:

    Pickford og Coady í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/63112025

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Skil ekkert í ykkur að hafa stigið fæti inn í rauða flugvél 😉

  3. Gestur skrifar:

    Flottir, þarna hefði ég viljað vera