Everton – Nottingham Forest 1-1

Mynd: Everton FC.

Þriðji leikur Everton á tímabilinu var gegn Nottingham Forest á heimavelli en þeir eru að spila í efstu deild í fyrsta skiptið síðan tímabilið 199/99. Þeir náðu að tryggja sér sæti í Úrvalsdeildinni með því að hafna í 4. sæti í Championship deildinni og vinna umspilskeppnina. Þeir hafa lagt í töluverðar fjárfestingar síðan þá, um 150M evra, til að styrkja liðið en af nýjum leikmönnum má nefna miðjumanninn Morgan Gibbs-White (30M evra frá Úlfunum), tvo centera (Taiwo Awoniyi frá Þýskalandi fyrir 20M evra og Emmanuel Dennis frá Watford fyrir 15M evra), hægri bakvörðinn Nico Williams (20M evra) og nokkra fleiri, þmt. Jesse Lingard á frjálsri sölu. Þeir voru fyrir leik með þrjú stig eftir tvo leiki, eftir 2-0 tap gegn Newcastle á útivelli og 1-0 sigur gegn West Ham á heimavelli.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Tarkowski, Coady, Holgate, Patterson, Iwobi, Davies, Gray, Gordon, Rondon.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Keane, Coleman, Allan, Gbamin, Onana, Dele Alli, McNeil.

Sýnist þetta vera uppstilling með þrjá miðverði og framsækna bakverði og Gordon frammi. En þá að leiknum.

Everton byrjaði mjög líflega og virtust ákafari og beittari. Strax á 2. mínútu var Holgate rifinn niður inni í teig eftir aukaspyrnu en ekkert dæmt. Fannst smá lykt af því, verð ég að segja. Þetta gaf tóninn fyrir restina af fyrri hálfleik, en varnarmenn Forest tóku ansi hressilega á mótherjum sínum trekk í trekk inni í teig.

Á 9. mínútu átti Davies svo skot rétt framhjá stönginni. Stuttu síðar (á 14. mín) reyndu fyrst Gordon og svo Gray skot af löngu færi en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Forest mönnum óx ásmegin eftir því sem leið á og þeir náðu skoti á mark á 23. mínútu þegar sóknarmaður stal boltanum af Tarkowski, en Pickford varði skotið frá honum vel. Tarkowski ekki að eiga sinn besta leik í dag, en þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann sýndi af sér kæruleysi í leiknum.

Það reyndi vel á Dean Henderson á 30. mínútu þegar Gray sendi aukaspyrnu inn í teig í átt að nærstöng (frá vinstri) og Coady var næstum búinn að snerta boltann en rétt missti af honum. Henderson þurfti þá að hugsa hratt og slá hann í horn.

Forrest menn fengu aftur skotfæri af löngu færi á 32. mínútu eftir vandræðagang í vörn Everton en aftur varði Pickford.

Gray setti Gordon inn fyrir vörn Forest á 38. mínútu, með flottri stungusendingu, en Dean Henderson kom vel út á móti og lokaði á hann. Gray átti svo skot af löngu færi rétt fyrir lok hálfleiks, en hátt yfir.

0-0 í hálfleik.

Rondon var óheppinn að skora ekki á 52. mínútu þegar hann fékk boltann við vítateigs-jaðarinn, sneri af sér varnarmanninn og þrumaði í átt að marki en rétt utan við stöngina.
Gray átti flott hlaup upp völlinn með bolta á 56. mínútu og reyndi sendingu á Rondon en náði ekki að finna hann upp við mark.

Davies fór út af fyrir Onana á 57. mínútu og Rondon fylgdi í kjölfarið og McNeil kom inn á í staðinn.

Gray tók flotta aukaspyrnu utan af kanti á 61. mínútu og boltinn sigldi í gegnum vörnina og endaði á markinu og Dean Henderson þurfti aftur að bregðast við hratt til að slá boltann frá.

Á 72. mínútu lék Iwobi tvo varnarmenn Forest illa og fann Gordon við D-ið á vítateignum. Hann sneri sér við og náði skoti á mark en Henderson kom Forest til bjargar og rétt náði að slá boltann í horn. Gordon reyndi aftur skot nokkrum mínútum síðar frá hægri, en með veikari fætinum og skotið laust. Henderson ekki í neinum vandræðum.

Á 81. mínútu reyndu Forest menn enn eitt skotið af löngu færi og boltinn stefndi lágt niðri í vinstra horn, frá sóknarmanni séð. Pickford gerð vel að kasta sér niður og verja boltann en frákastið fór beint á sóknarmann þeirra, sem renndi boltanum í netið, framhjá Pickford. 0-1 fyrir Forest.

Everton náði að jafna á 87. mínútu þegar Pickford sá hlaupið hjá Gray fram á við og sendi langan bolta á hann. Gray átti frábæra fyrstu snertingu og var kominn fremstur, einn á móti markverði og renndi honum undir hann. 1-1!

Forest menn fengu tækifæri rétt fyrir lok venjulegs leiktíma, skotfæri innan teigs en hátt yfir.
Everton setti þunga pressu á Forest vörnina í lokin. Gordon átti skot sem Henderson varð og Iwobi átti skot rétt utan teigs, sem fór rétt yfir slána. Gordon fékk svo dauðafæri þegar varnarmaður gerði sig sekan um slæm mistök í að reyna að skalla aftur á markvörð. Gordon komst þar með einn á móti markverði sem kom vel út á móti og lokaði á skotið við jaðar vítateigs. Stálheppnir þar.

1-1 því loka niðurstaðan. Jafntefli líklega sanngjarnt, þó að Everton hefði átt að taka þetta í lokin.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.

Uppfært 22. ágúst: Enn engar einkunnir komnar. Líklega mun það ekki vera uppfært…

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég get engan veginn séð hver á að skora mörkin fyrir okkur. Ég get því ekki séð hvernig Everton á að fara að því að vinna leiki á meðan enginn almennilegur sóknarmaður er í liðinu, já ég veit að Rondon telst vera sóknarmaður en hann er alls ekki almennilegur.
    Ég er þess vegna skíthræddur um að Everton verði áfram stigalaust eftir daginn í dag, spái 0-2.

Leave a Reply

%d bloggers like this: