Everton – Dynamo Kiev 3-0 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að síðasta vináttuleiknum á undirbúningstímabilinu þegar Everton tekur á móti Dynamo Kiev á Goodison Park kl. 18:45 (sjá vídeó), en tímabilið í ensku er rétt handan við hornið (hefst með leik Everton við Chelsea þann 6. ágúst).

Það var töluverður léttur að sjá bæði Gray og Calvert-Lewin í byrjunarliðinu eftir að hafa misst af síðasta leik en liðið má ekki við að byrja tímabilið á einhverjum meiðslapakka. Einnig eru báðir leikmennirnir, sem Everton samdi við á dögunum, vinstri bakvörðurinn Ruben Vinagre og kantmaðurinn Dwight McNeil, á bekknum.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko (fyrirliði), Tarkowski, Keane, Godfrey, Patterson, Doucouré, Iwobi, Gordon, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Crellin (mark), Lonergan (mark), Nkounkou, Vinagre, Holgate, Allan, McNeil, Dele Alli, Warrington, Mills, Welch.

Róleg byrjun á leiknum en Everton var með undirtökin frá upphafi.

Fyrsta markið kom manni eiginlega pínulítið að óvörum. Það tók James Tarkowski nefnilega aðeins fjórar mínútur að ná fyrstu stoðsendingu sinni á Goodison Park þegar hann sendi inn háan bolta frá miðju, beint á Calvert-Lewin sem náði að skalla á mark, þrátt fyrir að vera að bakka í áttina að marki, en hann náði samt að skalla upp í hægra hornið, nálægt samskeytunum. 1-0 fyrir Everton.

Fyrsta skot Dynamo Kiev á 13. mínútu, utan teigs, en skotið laust og rúllaði til Pickford. Engin hætta. Þeir áttu svo öllu hættulegri fyrirgjöf á 15. mínútu, frá hægri, en Pickford gerði vel og sló boltann frá. Tók enga áhættu.

Everton svaraði með hornspyrnu á 17. mínútu frá vinstri sem sigldi framhjá öllum og endaði að skoppa af fætinum á Calvert-Lewin upp og næstum yfir markvörð Dynamo Kiev, sem rétt náði að slá boltann yfir markið.

Everton setti góða pressu á vörn Dyamo á 25. mínútu sem endaði með því að þeir misstu boltann, og Gray komst inn í teig hægra megin. Hann reyndi háa sendingu fyrir en Gordon ekki nógu nálægt marki til að ná því.

Bitið og ákefðin fór svolítið úr leiknum eftir um hálftíma leik og Dynamo Kiev komst betur inn í leikinn. Everton fékk reyndar skyndisókn á 34. mínútu sem rann út í sandinn og Dynamo menn brunuðu fram. Sóknarmaður þeirra náði að koma á hlaupinu og þræða sig í gegnum vörnina en hljóp svo á vegg. Boltinn barst til vinstri kantmanns þeirra sem var í ákjósanlegri stöði inni í teig en Tarkowski náði í tæklingunni að sparka boltanum út af í horn.

Annað skot af löngu færi fylgdi í kjölfarið — fastara í þetta skiptið, en Pickford alltaf með það. Everton svaraði með skoti af löngu færi frá Gordon en hitti ekki markið. Engin hætta.

Dynamo Kiev tóku frábæra neglu beint úr aukaspyrnu af löngu færi upp í vinstra hornið en Pickford varði glæsilega. Stuttu síðar flautaði dómarinn til loka fyrri hálfleiks.

1-0 fyrir Everton í hálfleik. 

Everton byrjaði seinni hálfleikinn svipað og þann fyrri, með því að setja pressu á vörn Dynamo Kiev og ná snemma skoti á mark, frá Gray, sem leit reyndar út í fyrstu eins og há fyrirgjöf en markvörður endaði á að þurfa að slá yfir slána.

Lampard hafði ekki gert neina breytingu á liði sínu og stillti þessu svipað upp og í fyrri, með Calvert-Lewin frammi og þá Gordon og Gray sér til hliðar.

Þreföld skipting kom hins vegar á 62. mínútu þegar Dele Alli kom inn á fyrir Calvert-Lewin (og tók stöðu hans á toppnum), McNeil inn á fyrir Gray á hægri kantinum og Holgate inn á fyrir Keane.

Smá hætta skapaðist strax í kjölfarið, þegar að á 66. mínútu kom Gordon á mikilli ferð inn í teig vinstri megin, fór framhjá hægri bakverði Dynamo og náði skoti á mark en markvörður varði vel. Gordon reyndi svo skot af aðeins lengra færi (aftur vinstra megin í teig), tæpri mínútu síðar, en of laust og beint á markvörð.

Á 72. mínútu kom Vinagre inn á fyrir Mykolenko, Allan inn á fyrir Doucouré og Rondon inn á fyrir Gordon. Rondon tók stöðu Dele Alli á toppnum og Dele færður yfir á vinstri kant, í stöðu Gordons. 

Og örskömmu síðar (innan við mínútu síðar) náði Everton að bæta við marki. Nýi leikmaður Everton, Dwight McNeil, brunaði með boltann frá miðpunkti að vítateig Dynamo Kiev og einfaldlega þrumaði boltanum í hornið neðst niðri hægra megin. Sá er aldeilis með vinstri fót enda skotið óverjandi fyrir markvörð Dynamo. Fyrsta mark McNeil fyrir félagið komið — eftir aðeins um 10 mínútur! 

En Dwight Mcneil veislan hélt áfram, því að hann var búinn að skora sitt mark númer tvö á 78. mínútu þegar hann skallaði inn háa fyrirgjöf frá hinum nýjasta leikmanni Everton, Vinagre. Frábært að sjá hann kominn með sína fyrstu stoðsendingu líka, eftir aðeins 6 mínútna leik!

Þreföld skipting hjá Lampard á 83. mínútu: Lewis Warrington, Stanley Mills, Reece Welch og Nkounkou inn á fyrir Patterson, Tarkowski, Godfrey og Iwobi.

En aðeins örskömmu síðar flautaði dómarinn vítaspyrnu fyrir Everton upp úr þurru, þegar boltinn var hinum megin vallar. Allt saman fyrirfram ákveðið kom svo í ljós, því verðlauna átti einn gallharðan stuðningsmann Everton, Paul Stratton, fyrir að hafa stutt við Úkraínu svo um munaði með fjölmörgum bílferðum með alls konar gögn til þeirra. Honum var því skipt inn á fyrir Dele Alli og fékk að taka vítið, sem hann renndi í hornið vinstra megin. 

Þetta reyndist síðasta atvik leiksins og Everton kláraði því undirbúningstímabilið með 4-0 sigri á Dynamo Kiev (3-0 ef við tökum vítið ekki með). 

Nú eru aðeins örfáir dagar í fyrsta leik, gegn Chelsea á Goodison Park, laugardaginn 6. ágúst!

13 Athugasemdir

 1. Kiddi skrifar:

  Til hamingju með afmælið meistari Finnur.
  Sá ekki leikinn en að venju góð lýsing á honum frá þér.
  Spennandi tímabil frammundan, held það komi fljótt í ljós hvort við verðum í sömu vandræðum og í fyrra en ætla bara að vera bjartsýnn og spá því að stjórinn sé með þetta …. loksins

  • Finnur skrifar:

   Skemmtileg lesning á svörunum hjá Magnúsi en öllu verra að lesa innganginn að hans pistli, sem lýsir alveg skelfilegri vankunnáttu á enska boltanum…

   „Það hefur alltaf verið hugur í Everton að blanda sér í baráttuna í efri hlutanum en það hefur aldrei tekist.“

   Níu sinnum Englandsmeistarar… er það… ekki nóg?

   • Diddi skrifar:

    Sýnir frekar vankunnáttu þína að þarna er verið að tala um ensku úrvalsdeildina (premier league) sem var stofnuð eftir að við urðum síðast meistarar Finnur minn

    • Finnur skrifar:

     Haha, nákvæmlega, Diddi! 🙂

     • Finnur skrifar:

      Það þurrkaðist náttúrulega allt út um leið og Úrvalsdeildin var stofnuð (eins og oft hefur verið bent á). 🙂

     • Diddi skrifar:

      Margir sem telja að nýtt skeið knattspyrnunnar hafi hafist þá, mér finnst það kjánalegt

 2. Orri skrifar:

  Sæll Finnur.Ég tel mig vera mikinn Everton aðdánda en því miður hef ég ekki séð að það sé mikill metnaður í að við séum að blanda okkur í topp 4 .Þið sem ekki hafa séð sólina yfrir leikmanna kaupum okkar undarfarinn ár (allt klassa leikmenn) þó að annað hafi komið ljós og hafið ausið óhróðri yfir okkur srm þið kallið neikvæða hópinn skömum og látið veðri vaka að við ættum ekki tjá okkur um fótbolta því þar væri jákvæði hópurinn í Evertonklúbbnum mikið betur til þess fallinn.En annað hefur sannast og að tala um Magnús Geir viti ekki hvað er að tala um dæmir sig sjálft.

  • Finnur skrifar:

   VIð Magnús erum í bolta saman og ég þekki hann af góðu einu, bæði utan vallar sem innan. Hann hefur auk þess örugglega meira vit á okkar klúbbi en ég. Efa það ekki.

   Ég var hins vegar ekki að hnýta í neitt sem Magnús sagði, heldur innganginn, sem ég get ekki séð að sé skrifaður af stuðningsmanni Everton — grunar að þau skrif séu frá einhverjum hjá fotbolti.net.

 3. Gunni D skrifar:

  4. sæti 2005 að mig mynnir, telur það ekki?

 4. þorri skrifar:

  góðan daginn félagar. Ég ælta mér að vera bjartsýn að okkar mönnum munu ganga betur í deildinni þeirra bestu. Því ég ælta að fara á leikinn Everton- Leicester City í nóvember er einhver að fara á þennan leik úr klubbúnum

 5. Eirikur skrifar:

  Ég og sonurinn erum að fara á leikinn á morgun á móti Chelsea, eru einhverjir aðrir að fara?

  • Diddi skrifar:

   þið komið ekki til baka nema hafa 3 stig í farteskinu 🙂

%d bloggers like this: