Arsenal – Everton 5-1

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að lokaleik tímabilsins, á útivelli gegn Arsenal, og spennan magnast á öllum vígstöðvum, enda er ekkert sæti fastákveðið fyrir neitt lið fyrir lokaumferðina — öll liðin geta færst upp eða niður um amk. eitt sæti eftir úrslitum í lokaumferðinni. En eitt er þó víst og það er að Everton þarf ekki að treysta á nein úrslit lengur, loksins getur staða í deild eingöngu batnað og það er ekki hægt að lýsa því hversu mikill léttir það er. Ágætt að vera ekki með lífið í lúkunum í síðasta leiknum og geta bara fylgst með þessu ráðast, en það hangir allt á bláþræði, tvö lið eiga séns á fyrsta sæti, tvö á Meistaradeildarsæti, tvö á Evrópudeildarsæti og tvö eru að berjast við að falla ekki. Jafnfram er óvíst hver verður markakóngur, stoðsendingakóngur, hver heldur oftast hreinu og ýmislegt annað.

Arsenal menn, mótherjar Everton í dag, eygja mjög veika von á Meistaradeildarsæti en þurfa nauðsynlega sigur í dag og treysta á að Tottenham tapi lokaleik sínum gegn botnliði Norwich, sem eru löngu fallnir.

Uppstillingin: Begovic (fyrirliði), Holgate, Keane, Branthwaite, Kenny, Davies, Doucouré, Iwobi, Gray, Dele Alli, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lonergan, Mykolenko, Coleman, Welch, van de Beek, Price, Gordon, Tosun, Dobbin.

Sem sagt, 6 breytingar á liðinu frá síðasta leik og nokkrar óvæntar. Richarlison ekki í hóp og Pickford sömuleiðis ekki, þannig að Begovic og Deli Alli fara í byrjunarliðið sem og Tom Davies. Mig grunaði reyndar eftir síðasta leik að Deli myndi fá byrjunarleik í dag, svona þar sem hann átti fínan leik í síðasta leik auk þess sem að hann kemur frá Tottenham, erkiféndum Arsenal. Maður á eiginlega erfitt með að segja til um hvernig kerfi þetta er, ætli þetta sé ekki þrír í öftustu línu með Kenny og Iwobi sem wingbacks og Calvert-Lewin einan frammi?

Everton setti upp 5-4-1 uppstillingu án bolta með Kenny í vinstri bakverði og Iwobi í hægri. Arsenal mun meira með boltann en Everton vörðust vel og biðu átekta.

Martinelli komst í dauðafæri fyrir Arsenal á 12. mínútu, af stuttu færi innan teigs, en Begovic varði glæsilega. Gray svaraði með föstu skoti á Ramsdale sem sá síðarnefndi varði. Gray hefði átt að lyfta boltanum frekar yfir hann en að reyna fast skot, því Ramsdale var kominn vel út úr markinu.

Á 25. fengu Arsenal menn vítaspyrnu, þegar Iwobi blokkeraði skot með hægri upphandleggnum. Martinelli tók vítið og sendi Begovic í rangt horn og skoraði auðveldlega. Vítið heldur soft og VAR tók heillangan tíma til að skera úr um það, því það var varla hægt að sjá að boltinn hefði verið fyrir neðan öxlina. 

Annað mark Arsenal kom á 31. mínútu eftir hornspyrnu. Tveir Arsenal menn reyndu að skalla fyrir markið og öðrum tókst það og Arsenal maður nikkaði boltanum inn.

Lampard brást við með því að skipta inn Donny van de Beek fyrir Doucouré á 36. mínútu og hann náði að minnka muninn rétt fyrir hálfleik, svolítið gegn gangi leiksins, þegar Calvert-Lewin sendi lágan bolta fyrir mark frá hægri, klobbaði með því varnarmann og boltinn beint á van de Beek, sem var óvaldaður inni í teig.

2-1 í hálfleik.

Því miður var ritari kallaður frá í hálfleik og því náðist ekki umfjöllun um seinni hálfleik, en af úrslitunum sést að Arsenal bættu í og náðu að minna Lampard á að það er enn töluvert verk fyrir höndum, eins og við vitum.

Úrslitin í þessum leik í dag skipta þó engu máli, tímabilið var búið og við óskum stuðningsmönnum kærlega til hamingju með Englandsmeistaratitilinn!

Einkunnir Sky Sports: Begovic (6), Kenny (6), Holgate (5), Keane (5), Branthwaite (5), Iwobi (5), Davies (5), Doucoure (5), Alli (5), Gray (5), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Van de Beek (7), Price (6), Gordon (6).

9 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta er nú nánast varaliðið okkar, verður fróðlegt að sjá hvernig það stendur sig.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Af hverju var þetta víti en ekki þegar city maðurinn tók boltann með hendinni gegn Everton?

  • Ari S skrifar:

   Ef það hefði verið víti og við skorað/unnið í þeim leik þá væri Liverpool meistari. Pældu í því Ingvar.

   • Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við nánari athugun þá sér maður að boltinn fór klárlega í bringuna á Rodri😉

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var nú óþarflega stórt tap, en skipti sem betur fer ekki máli.
  Liðið spilaði líka eins og þeim væri bara alveg drullusama og maður getur alveg skilið það. Eftir leikinn á fimmtudaginn þá var liðið líklega aldrei að fara að rífa sig eitthvað upp og eiga stórleik í dag.

 4. Ari S skrifar:

  Má ég vera sá fyrsti til að óska ykkur til hamingju með Tarkowski nýjan leikmann Everton. Hann mun klárlega styrkja liðið og kemur inn sem sterkari miðvörður heldur en þeir sem við erum með. Auk þess sem hann kemur frítt til okkar. Það þýðir samt ívið hærri laun en það er sagt að samanlagt muni Everton borga honum 15 milljónir punda í laun á 4 árum.

 5. Diddi skrifar:

  ég held að það sem geri tarkowski að sæmilegum varnarmanni hjá Burnley sé sama ástæða og keane leit þokkalega út í Burnley liðinu en það er einmitt það að liðið spilar varnarfótbolta þar sem fjórir öftustu njóta verndar fjögurra til sex manna línu framar. Þegar þeir koma svo í lið sem ætlar að spila pressubolta og sækja meira þá kemur þeirra veikleiki í ljós sem er æpandi. Þess vegna vil ég ekki sjá tarkowski og hef aldrei séð neitt við keane. Svo er annar kapítuli að Burnley liðið komst upp með grófan og agressívan leik (vegna þess að í því eru margir bretar?). En þegar við skoðum það sem Allan var rekinn útaf fyrir gegn Newcastle þá sjáum við að menn eru teknir mismunandi tökum hjá hinu hundlélega dómara systemi á Englandi

 6. Diddi skrifar:

  hvað er að hjá okkar ágæta klúbbi? Er Lampard ekki þriðji eða fjórði stjórinn sem er orðaður við Harry Winks? Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum orðaðir við menn í nokkur ár og kaupum þá svo þegar þeir eru alveg hættir að geta nokkurn skapaðan hlut. Reyndar hefur Winks aldrei getað neitt þannig að hann er þá undantekning. Ég hef áhyggjur ef þetta er standardinn sem settur er og ég hef áhyggjur af dómgreind Lampard því miður. Winks er að mínu mati ekkert betri en Cleverley sem við vorum með fyrir nokkrum árum. Guð hjálpi okkur er þetta er raunin