
Mynd: Everton FC.
Everton mætti Watford á Vicarage Road í kvöld. Með sigri gat Everton tekið stórt skref í áttina að tryggja sig í Úrvalsdeildinni á næsta tímabili en þurfti að láta jafntefli duga.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Holgate, Keane, Coleman (fyrirliði), Delph, Doucouré, Iwobi, Gordon, Richarlison.
Varamenn: Begovic, Branthwaite, Kenny, Allan, Gomes, Davies, Deli Alli, Calvert-Lewin, Rondon.
Ritari var fjarverandi í dag og voru það Everton bræðurnir Elvar og Georg sem skrifuðu skýrslu leiksins. Við þökkum þeim kærlega fyrir og gefum þeim orðið:
Um 7.000 Everton aðdáendur mættu á heimavöll Watford sem tekur um 21 þúsund aðdáendur, þess má geta að margir Everton aðdáendur keyptu miða á heimavallarsvæði Watford og þrátt fyrir það var völlurinn ekki fullur. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hvað aðdáendur Everton hafa lagt gríðarlega á sig í síðustu leikjum og verið 12. leikmaður Everton í síðustu leikjum. Það hefur smitast yfir í liðið sem hefur nú tekið 7 stig af síðustu 9.
Helstu færi Everton í leiknum komu frá Richarlison og Gray. Everton hafði mikla yfirburði í leiknum án þess þó að ná að setja endapunktinn á margar sóknir, Everton fékk 11 hornspyrnur í leiknum gegn 1 hjá Watford og Everton áttu 5 skot á markið gegn 0 skotum Watford. Bæði Iwobi og sérstaklega Gordon fengu mikið pláss á kantinum til að klára sóknir en lokasendingarnar voru því miður ekki nógu góðar.
Þetta stig gæti þó reynst mjög mikilvægt í þeirri baráttu sem liðið er komið í, þar sem Leeds tapaði í kvöld, auk þess sem markatala Leeds er mikið lakari en markatala okkar manna, 4 stig í síðustu 3 leikjum tímabilsins munu tryggja veru liðsins í deildinni en þó gætu 1-2 stig dugað. Þar að auki er liðið 2 stigum fyrir ofan Burnley líkt og Leeds, auk þess á liðið leik inni á Leeds.
Það var mat ritara að það hefði mátt bæði skipta mönnum fyrr inn á og að nýta allar skiptingar ekki síst þar sem mjög stutt er á milli leikja í lokaleikjum Everton. Gordon átti ekki góðan leik og var orðinn mjög þreyttur og hefði Dele átt að koma inn fyrir hann að okkar mati.
Everton á nú tvo heimaleiki framundan gegn Brentford og Crystal Palace og algjört dauðafæri fyrir liðið að klára þetta í þeim leikjum. Síðasti leikur tímabilsins er svo útileikur gegn Arsenal.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Mykolenko (7), Holgate (6), Keane (6), Coleman (7), Gordon (5), Delph (6), Doucoure (7), Iwobi (7), Gray (5), Richarlison (6).
Er ekki Watford búið að tapa 11 heimaleikjum í röð? Er þá ekki skrifað í skýin hvað gerist á eftir??
Þetta var ekki gott og því miður kom þetta ekki á óvart. Mér fannst varnarleikurinn svo sem allt í lagi en sóknarleikurinn var alltof hægur, fyrirsjáanlegur og hugmyndasnauður. Alltof margir leikmenn voru slakir í kvöld en mér fannst Gray og Gordon áberandi slakastir og Gordon virkaði hreinlega þreyttur strax í fyrri hálfleik.
Watford hafði ekki náð að halda hreinu í einum einasta heimaleik á tímabilinu fyrir leikinn í kvöld, hafi ég tekið rétt eftir, týpískt fyrir Everton að græja það fyrir þá.
Vonandi tekst okkar mönnum að vinna Brentford á sunnudaginn en það gæti orðið mjög erfitt því þeir hafa verið góðir upp á síðkastið.
Það vantar tvö stig,hvar í andskotanum sem við fáum þau.