Leicester – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að útileik við Leicester City.

Hér var tölfræðin fyrir fallbaráttuna (fyrir þennan leik) en Leeds lék við Arsenal á sama tíma og Everton leikurinn var, eins og komið verður að hér að neðan.

Watford féllu formlega í gær þannig að nú er bara eitt fallsæti eftir og þrjú lið í baráttunni um að sleppa við það (Burnley, Leeds og Everton). Reyndar er Southampton liðið að sogast inn í fallbaráttuna líka, þó þeir séu komnir með 40 stig en það gulltryggir svo sem ekkert. Southampton menn eiga nefnilega bara tvo leiki eftir og annar þeirra er við Liverpool og hinn á útivelli. Burnley töpuðu jafnframt í gær, sem viðheldur aldeilis spennunni í botnbaráttunni. Þetta er allt í járnum!

Hér er svo leikjaplanið, eins og það leit út fyrir leik:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Holgate, Mina, Coleman (fyrirliði), Delph, Doucouré, Iwobi, Gray, Gordon, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Keane, Welch, Kenny, Allan, Gomes, Dele Alli, Calvert-Lewin, Rondón.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og það hélst þannig í um 25 mínútur. Leicester menn komust í tvö færi á fyrstu mínútunum. Það fyrra var eftir skyndisókn á 3. mínútu þar sem þeir enduðu hægra megin inni í teig en Mina náði gerði listavel þegar hann náði að bjarga á línu eftir að Daka náði skoti framhjá Pickford, sem Mina náði að renna sér fyrir. Það seinna var einn á móti markverði í þröngu færi sem Pickford varði en sóknarmaður Leicester hvort eð er rangstæður.

En Everton komst yfir á 6. mínútu með algjöru glæsimarki frá Mykolenko. Markið kom eftir innkast frá Iwobi, sem fékk boltann aftur, lék á leikmann Leicester og sendi háan bolta á Mykolenko sem lúrði óvaldaður við D-ið á vítateignum og sá aldeilis smellhitti boltann og negldi honum viðstöðulaust í netið af löngu færi. Enginn séns fyrir Schmeichel. Staðan orðin 0-1 fyrir Everton!!!

Leeds menn voru á þeim tímapunkti lentir undir gegn Arsenal og Everton því komið upp fyrir bæði Leeds og Burnley. En nóg eftir af leikjunum.

Everton var hársbreidd frá því að skora þegar Gray komst einn á móti varnarmanni vinstra megin í teig og náði að senda til hliðar til hægri (fyrir mark) þar sem Doucouré var kominn upp að endamörkum og náði skoti af stuttu færi sem Schmeichel varði með ótrúlegum hætti. Boltinn endaði í stönginni innanverðri og aftur út (til baka til Schmeichel). Leicester menn stálheppnir þar, brunuðu strax í sókn og náðu að nýta sér mistök Coleman og Mina, sem reyndu báðir að skalla háan bolta utan teigs. Mina náði að skalla boltann en Coleman fór í bakið á honum, sem hafði áhrif á skallann (til hins verra) og boltinn féll vel fyrir sóknarmann Leicester, Daka, sem komst einn á móti markverði og renndi framhjá Pickford. Í stað þess að staðan væri 0-2 var hún allt í einu orðin 1-1.

Fréttir bárust í kjölfarið af tveggja marka forystu Arsenal gegn Leeds.

Mina var svo skipt út af fyrir Michael Keane á 18. mínútu vegna meiðsla, sem litu út fyrir að vera minniháttar. Samt ekki góðar fréttir.

Róaðist leikur í kjölfarið en allt brjálað, hins vegar, í leik Leeds og Arsenal þar sem Leeds maðurinn Ayling var rekinn út af með beint rautt spjald fyrir glæfralega tveggja fóta tæklingu! Þýðir ekki beint rautt þriggja leikja bann? Þá var hann að spila sinn síðasta leik á tímabilinu fyrir þá.

Á 30. mínútu fékk Everton horn og Gray sendi háan bolta inn í teig. Leicester menn verið mjög veikir í föstum leikatriði á tímabilinu og það sást af hverju, því Richarlison var óvaldaður í teignum og náði fríum skalla á mark af stuttu færi. Schmeichel varði meistaralega en Holgate náði að stanga frákastið í netið. Staðan orðin 1-2 fyrir Everton!

Og þannig var það í hálfleik. Óbreytt staða í hinum leiknum, þannig að á þeim tímapunkti var Everton aftur komið upp úr fallsæti, yfir bæði Burnley (í 17.) og Leeds í síðasta fallsætinu (18.).

Öllu rólegra var í upphafi seinni hálfleiks en í þeim fyrri. Leicester menn virkuðu hálfpartinn eftir sig eftir tapið í Evrópuleik sínum um daginn og áttu oft erfitt með einföldustu sendingar sem fyrir vikið enduðu oft hjá Everton mönnum. En ekki náðist að nýta það. Eina færið til að byrja með langskot frá Gray en engin hætta við mark Leicester. 

Leicester menn byrjuðu hins vegar að banka á dyrnar aftur eftir um klukkutíma leik og Mendy náði geggjuðu skoti utan teigs en Pickford varði frábærlega. Fingurgómar á bolta alveg út við stöng.

Leicester komu með tvöfalda skiptingu í kjölfarið, m.a. Vardy inn á. Kenny inn á fyrir Mykolenko og fór í vinstri bakvörðinn.

Þær fréttir bárust svo að Leeds hefðu náð að minnka muninn gegn Arsenal, manni færri. En það var ekki nóg fyrir þá.

Á 68. mínútu kom Pickford Everton aftur til bjargar þegar Barnes náði skoti af point blank range, beint fyrir framan markið en Pickford kastaði sér niður og rétt náði að slá boltann framhjá stönginni. Hvar væri Everton núna ef Pickford væri ekki á milli stanganna?

Pickford endurtók meira að segja leikinn stuttu síðar eftir langskot utan teigs, þar sem hann varði vel í horn.

Rondon kom inn á fyrir Gray á 74. mínútu og Richarlison þar með færður á kantinn. Rondon á toppinn.

Leicester menn settu þunga pressu á Everton í kjölfarið en Everton náði að loka vel á þá. Leicester áttu eitt skot af mjög löngu færi á 80. mínútu en lítil hætta og lítið að frátta þangað til á 82. mínútu sem Barnes átti skalla af stuttu færi, rétt framhjá stöng eftir háan bolta frá hægri kanti. Hefði hæglega getað skorað þar!

Leicester menn áttu einnig eitt færi á lokamínútum uppbótartíma, skalli utan úr teig en náðu ekki að nýta sér það. 

Dómarinn flautaði til leiksloka eftir um 93 mínútur og Everton fór því heim með þrjú risastór stig, annan leikinn í röð — og í þetta skiptið á útivelli, sem hefur verið Akkilesarhæll liðsins á tímabilinu! 

Leeds menn töpuðu jafnframt sínum heimaleik gegn Arsenal á sama tíma og Everton lyfti sér upp úr fallsæti í dag. Næsti leikur Everton er gegn Watford á útivelli á miðvikudaginn!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (9), Iwobi (7), Coleman (6), Mina (6), Holgate (7), Mykolenko (7), Gordon (7), Doucoure (7), Delph (7), Gray (7), Richarlison (6). Varamenn: Keane (8), Kenny (6), Rondon (6).

Maður leiksins: Jordan Pickford.

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja! Burnley tapaði í gær svo nú er kjörið tækifæri til að hoppa upp fyrir þá og jafnvel Leeds líka, en þar sem Everton virðist algjörlega ófært um að grípa svona gæsir þegar þær gefast, þá er ég hræddur um að það breytist ekki í dag.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ekki sérlega traustvekjandi varnarleikur hjá okkar mönnum í fyrri hálfleik, það er eins og menn séu ekki að tala saman því oftar en einu sinni hafa menn verið að þvælast fyrir hver öðrum og það getur ekki endað vel. Enda væri staðan 0-2 ef Coleman hefði ekki hoppað aftan á rassgatið á Mina og í staðinn einbeitt sér að sóknarmanni Leicester.

  3. Þór skrifar:

    Ótrúlegt að heyra í Everton stuðningsmönnum í Leicester – syngja allar fyrstu 45 mínútur og allt hléið líka!

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þvílík snilld!!!

  5. Finnur skrifar:

    Geggjaður baráttusigur! Meira svona!

    • Finnur skrifar:

      Nákvæmlega. Algjörlega frábærir stuðningsmenn, bæði heima og heiman.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og svo er virkilega til fólk sem heldur því fram að Ramsdale sé betri markvörður en Pickford, það er nú meira kjaftæðið.
    Pickford sá algjörlega til þess að Everton fékk 6 stig í tveimur leikjum, klárlega maður leiksins um síðustu helgi og aftur í dag.
    Vonandi verða Mina og Mykolenko klárir gegn Watford á miðvikudaginn.

  7. Diddi skrifar:

    Frábært 👏👏

  8. Finnur skrifar:

    Pickford og Mykolenko í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/61373360

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var frábært í gær, en ég vona að leikmenn séu með báða fætur á jörðinni og verði klárir í slaginn á miðvikudaginn, því þessi sigur er einskis virði ef menn fylgja honum eftir með einhverri ræpu. Fyrir leikinn í gær hafði Everton ekki náð að vinna tvo leiki í röð á tímabilinu og eins og allir vita, bara einn útileik. Nú þarf Everton að sýna að liðið geti unnið tvo útileiki í röð, vonandi tekst það.