Everton – Man United 1-0

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að Ronaldo og félögum að mæta á Goodison Park. Liðin voru sitt hvorum megin í töflunni, United menn í baráttunni um fjórða efsta sæti en Everton að berjast um að halda fjórða neðsta sæti. United höfðu verið brokkgengir að undanförnu og ákveðið mynstur komið í síðustu leiki hjá þeim, sigur – jafntefli – tap – sigur – jafntefli (í síðasta leik) og því kannski rétti tíminn til að mæta þeim. Everton þurfti nauðsynlega sigur eftir grátlegt tap gegn Burnley í seinasta leik og náðu upp frábærri baráttu í öllum leiknum en United áttu dapran dag, enda oft sagt að lið leika ekki betur en andstæðingurinn leyfir, og það átti svo sannarlega við í dag.

Svona leit uppstillingin út hjá okkar mönnum:

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Godfrey, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Delph, Iwobi, Gordon, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, Branthwaite, Kenny, Doucouré, Gomes, Gray, Dele Alli, Rondón.

Lampard stillti upp í 4-2-3-1 með Calvert-Lewin fremstan og Iwobi, Gordon og Richarlison fyrir aftan hann. Nokkuð hefðbundið að öðru leyti.

Fyrstu mínúturnar var eins og það væri bara eitt lið á vellinum að gera eitthvað með boltann, því United náðu ekki að tengja neitt saman og um leið og þeir fengu boltann var maður (eða menn) mættir til að taka hann af þeim, sem oft tókst. Frábær barátta hjá leikmönnum Everton.

En andstæðingur Everton kemst oft inn í leikinn á föstu leikatriði sem skapar usla og sjálfstraustið hjá Everton virðist þá hverfa nokkuð. Í þetta skiptið var það aukaspyrna utan teigs, sem eftir hreinsun, endaði með stórhættulegu skoti frá Rashford utarlega í teig sem Pickford varði glæsilega í horn (sem ekkert kom úr). United komið inn í leikinn.

Stuttu síðar sendu United háan bolta inn í teig sem Rashford náði að skalla á mark en Pickford varði aftur glæsilega. Sá átti frábæran leik í dag ásamt nokkrum öðrum.

Á 14. mínútu tapaði Allan boltanum á miðsvæðinu og þá voru leikmenn United snöggir að snúa þessu í sókn, fundu Ronaldo á auðum sjó vinstra megin í teig, en Keane var fljótur að hugsa og lokaði á hann í ákjósanlegu færi. United að taka stjórn á leiknum og Everton fram að því ekki náð að skapa nein færi.

Á 26. mínútu breyttist það, hins vegar. Tveir leikmenn settu pressu á Matic sem tapaði boltanum á miðjunni. Gordon sá hlaupið hjá Richarlison upp vinstra megin og sendi langa stungusendingu fram völlinn. Var næstum búinn að koma Richarlison inn fyrir vörnina en endaði boltinn fór aðeins of langt frá honum til að hann gæti tekið við honum. Richarlison hljóp þá bara út á kant að sækja boltann og hóf sóknina aftur, sendi á Iwobi inn í teig en boltinn endaði hjá Gordon sem náði flottu skoti utan teigs. Boltinn fór í bakið á Harry Maguire og þaðan í netið!!! 1-0 FYRIR EVERTON!!!!

Keane átti svo skalla rétt yfir á 30. mínútu eftir horn. United miklu meira með boltann, en Everton virkuðu líklegri til að skora á þeim tímapunkti.

Á 35. mínútu komst Everton í skyndisókn og Richarlison reyndi skot af löngu færi. Boltinn breytti stefnu af Lindelöf hjá United og var næstum búinn að fara í sveig yfir De Gea, sem rétt náði að finna jafnvægi og slá hann yfir markið. United menn stálheppnir þar.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks sendu United svo hættulega háa sendingu inn í teig, ætlaða Ronaldo, en Mykolenko gerði vel og skallaði boltann yfir mark í horn (sem ekkert kom úr).

1-0 fyrir Everton í hálfleik.

Seinni hálfleikur svipaður og sá fyrri, United mun meira með boltann en leikmenn Everton börðust hetjulega og lokuðu á nánast allt sem kom nærri teig — en sköpuðu sér líka færi hinum megin.

Mykolenko komst upp að endamörkum vinstra megin á 53. mínútu og sendi lágan bolta út í teig á Gordon, sem var á auðum sjó en náði engum krafti í skotið úr frábæru færi. Gordon komst svo upp að endamörkum hinum megin stuttu síðar og skapaði mikinn usla en United náðu að hreinsa út úr teig sendingu á Richarlison sem lúrði á færstöng.

Gray kom inn á fyrir Dominic Calvert-Lewin á 71. mínútu. Richarlison þar með settur á toppinn.

Gordon var svo nálægt því að fá víti á 77. mínútu þegar Telles felldi hann inni í teig en dómarinn mat það svo að þetta hefði verið óviljaverk. Pínu heppnir þar United menn, að mínu mati.

Pogba náði skoti af löngu færi á 80. mínútu — flott skot en Pickford vel á verði og kastaði sér á boltann um leið og hann snerti jörðina fyrir framan markið. Hefði getað skoppað óþægilega og skapað hættu. Boltinn þeas. ekki Pickford.

Wan Bissaka komst í kjölfarið í skotfæri inni í teig hægra megin mjög nálægt marki en tveir leikmenn Everton köstuðu sér fyrir boltann og blokkeruðu skotið. Lýsandi fyrir baráttu Everton í öllum leiknum.

Doucouré kom svo inn á fyrir Delph á 84. mínútu, sem hafði átt flottan leik.

Ronaldo fékk sendingu inn í teig undir lokin, lagði hann fyrir sig og reyndi skot. Smellhitti hann en boltinn breytti um stefnu af Michael Keane og þaðan sem betur fer beint í búkinn á Pickford.

United menn búnir að setja þunga pressu á Everton allan seinni hálfleik og dóminera boltann, en uppskáru aðeins tvö skot á mark. Frábær varnarvinna hjá Everton, nánast gallalaus, sem tryggði sigurinn. Nánast allt, sem United reyndu, brotnaði niður á múrnum og þó að 5 mínútum væri bætt við náði United ekki að jafna. 

Þetta var í fyrsta skipti sem United skorar ekki á útivelli í öllum keppnum í heilt ár, skv. þulinum. Ótrúlegt en satt, kom sá leikur á Goodison Park. Þulirnir voru jafnframt á því að leikmenn United væru búnir að gefast upp á Meistaradeildarsætinu og virkuðu áhugalausir. Því var ekki að fara hjá Everton sem sýndu loks hvað í þeim býr.

Þetta voru taugatrekkjandi lokamínútur en 1-0 sigur var loks í höfn, þökk sé Anthony Gordon og Harry Maguire og frábærri liðsheild! Þvílíkur léttir! Þetta var fjórða stigið sem Everton tekur af United á tímabilinu.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Coleman (7), Godfrey (8), Keane (8), Mykolenko (8), Delph (8), Allan (8), Iwobi (7), Gordon (9), Calvert-Lewin (6), Richarlison (8). Varamenn: Gray (6), Doucoure (6).

Enginn hjá United náði hærra en 6 í einkunn og þeir voru fimm hjá þeim sem sameiginlega lægstu einkunn í leiknum en það var 5. Maður leiksins var Anthony Gordon.

10 Athugasemdir

 1. Hallur skrifar:

  Guð hjálpi okkur

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Hver þeirra?

   • Hallur skrifar:

    held að við þurfum hjálp frá þeim öllum

   • Ari S skrifar:

    Góður Ingvar 🙂 Gott að fá hjálp frá máttarvöldunum stundum. Frábært að sjá Delph koma svona inn því að maður hélt að hann væri búinn á því. Frábært líka að ná að halda svona pressu á Manchester United í dag á meðan Ralf Rangnick er stjórinn hjá þeim en það er sagt að hann hafi hreinlega fundið upp (eða mótað) pressuvörnina á sínum tíma.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  COYB!!

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ágætur fyrri hálfleikur, vonandi verður seinni hálfleikur betri.

 4. Ari S skrifar:

  Til hamingju Everton félagar. Delph maður leiksins að mínumati. Eins var Pickford stórkostlegur og Richarlison á alltaf góðan leik nú orðið. Fínn Everton dagur 🙂

  • Ari S skrifar:

   Það eru nokkrir hlutir sem að poppa upp í hugann síðan leikurinn var. Maður er svona að melta þetta hehe… eitt af því sem ég var ánægður með í dag er hvað Mykolenko virðist vera orðinn sterkur. Hann hefur að mínu mati í síðustu leikjum og þá sérstaklega í dag vaxið sem leikmaður sem að getur bara bætt sig með meiri reynslu.

 5. Diddi skrifar:

  Til hamingju öll, gott að sjá að liðið er til í þessa baráttu. Með svona frammistöðu getum við þetta! Áfram EVERTON 💙

Leave a Reply

%d bloggers like this: