Burnley – Everton 3-2

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að stórleik vikunnar, Burnley gegn Everton. Upphitunin fyrir leikinn er hér, fyrir áhugasama.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Godfrey, Branthwaite, Holgate, Kenny, Doucouré, Iwobi, Gordon, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Coleman, Delph, Gray, Dele Alli, El Ghazi, Dobbin, Price, Rondón.

Svolítið taugaveiklun í byrjun leiks hjá báðum liðum, en meira þó hjá Everton.

Burnley menn áttu fyrsta færið á 8. mínútu en skot utarlega í teignum fór rétt framhjá skeytunum. Burnley menn gengu á lagið og fengu horn á 11. mínútu, sendu háan bolta á fjærstöng og þar lúrði varnarmaður og stýrði boltanum í netið. Ömurlegur varnarleikur. Staðan orðin 1-0 fyrir Burnley.

En þetta snerist algjörlega á haus á 15. mínútu þegar varnarmaður Burnley braut á Gordon, þar sem hann var að komast í gegn hægra megin, og dómarinn dæmdi réttilega víti. Richarlison á punktinn og skoraði örugglega. 1-1, game on!

Richarlison var greinilega í stuði eftir markið og reyndi skot á mark á 23. mínútu en rétt yfir (varið í horn). Hann átti annars frábæran leik í dag og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk en hann gerði.

Á 39. mínútu komst Mykolenko inn í teig og reyndi að leika á Aaron Lennon sem einfaldlega sparkaði hann niður. Dómarinn dæmdi ekkert en VAR leiðrétti það, sem betur fer, og Richarlison fór aftur á punktinn og… skoraði aftur! Mjög svipað víti og síðast og staðan orðin 1-2 fyrir Everton!!

Og í þetta skiptið náði Everton að halda forystunni allavega fram að hálfleik, svona til tilbreytingar.

Staðan því 1-2 í hálfleik. Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Everton var mun betra liðið í seinni hálfleik, en uppskar þó ekki eins og sáð var. 

Richarlison komst í færi á 53. mínútu, vinstra megin inni í teig en skotið frá honum framhjá marki við nærstöng. 

Jonjoe Kenny var ekki langt frá því að skora mark eða ná stoðsendingu á Richarlison á fjærstöng frá hægri á 55. mínútu en boltinn fór í slána.

En í staðinn fyrir að bæta við marki, þá náðu Burnley menn að jafna í næstu sókn. Komust upp vinstri kant og inn í teig og maðurinn sem Mykolenko átti að vera að dekka fékk boltann fyrir miðju marki og þrumaði inn óvaldaður. Staðan þar með orðin 2-2.

Everton setti þunga pressu á mark Burnley á 61. mínútu, sem endaði með hjólhestaspyrnu frá Richarlison af tiltölulega stuttu færi, sem markvörður varði glæsilega. Óheppinn að skora ekki þar.

Og Everton hélt áfram að gera harða hríð að marki Burnley. Gordon komst til dæmis í frábært færi inni í teig á 65. mínútu en varnarmaður Burnley náði að skriðtækla fyrir skotið. Sá bolti hefði líklega sungið í netinu! Þrjú góð færi á stuttum tíma.

Gordon var svo í kjölfarið skipt út af fyrir Gray á 73. mínútu. 

Burnley menn náðu sjaldgæfu skoti á mark á 78. mínútu en Pickford varði vel í horn. 

Everton mun betra liðið í leiknum frá því að hafa jafnað, en á 86. mínútu komust Burnley yfir. Sending inn í teig fór í lappirnar á Godfrey og datt vel fyrir sóknarmann þeirra sem komst upp að endalínu vinstra megin og sendi fyrir mark á mann á auðum sjó sem þrumaði inn. 3-2 fyrir Burnley. 

Rondón var skipt inn á fyrir Holgate strax á eftir og það tók hann ekki langan tíma að ná skoti á mark, en boltinn rétt framhjá stöng vinstra megin. 

Og þetta reyndist síðasta færi leiksins. 3-2 sigur Burnley niðurstaðan.

Leikurinn sem mátti ekki tapast. Ég skil eiginlega ennþá ekki hvernig þetta fór svona, en svona er boltinn stundum…

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Kenny (5), Branthwaite (5), Godfrey (4), Mykolenko (6), Holgate (6), Iwobi (5), Doucoure (6), Gordon (6), Calvert-Lewin (4), Richarlison (7). Varamenn: Gray (6).

6 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Í alvöru, getur engin í Everton liðinu tekið horn heldur en Gordon, hann bara getur það ekki

  2. Jón skrifar:

    þetta er búið. Þetta er karakterlaust lið.
    Þetta var leikur sem mátti ekki tapa

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja! Þá slokknaði síðasti vonarneistinn. Næsti leikur Everton er gegn Man utd á meðan Burnley á leik gegn Norwich. Ég hef enga trú á að Everton fái meira en eitt stig úr þeim leik á meðan það eru yfirgnæfandi líkur á að Burnley vinni Norwich. Þá er Everton komið í fallsæti og ég er hræddur um, nei, ég er viss um að það steindrepur allan baráttuvilja hjá leikmönnum, sem er nú ekki upp á marga fiska fyrir.
    Ég veit ekki með ykkur en ég get ekki meira.

  4. Diddi skrifar:

    Maður sem holar Kenny alltaf í lið sitt í einhverja stöðu og notar Iwobi sem skapandi miðjumann á meðan hann geymir Dele Alli á bekknum? Ja, svoleiðis manni er hreint ekki viðbjargandi að mínu mati

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Alveg sammála með Kenny en Iwobi hefur í síðustu leikjum verið að mestu leyti þokkalegur. Dele minnir svolítið á Ginola hérna um árið, hann er reyndar ekki 36 ára með bumbu en hann spilar þannig. Ég skil ekki ennþá hvers vegna hann var fenginn til félagsins þegar allir hefðu átt að geta séð að okkur vantaði alvöru miðvörð eða Dm.

  6. Diddi skrifar:

    Liðið æpir á einhvern skapandi mátt og þá kemur delph úr meiðslum og sýnir hvernig á að gera þetta ef hann meiðist ekki við að reima á sig skóna! Hvernig væri að henda Alli inní byrjun og segja honum að spila fótbolta. Það þarf ekki nema augnablik til að búa til mark og þá er bara hægt að kippa honum út ef hann kúkar á sig!