Fallvaktin (uppfært 18. mars)

Mynd: Everton FC

Um daginn gáfum við út greiningu á leikjaplani neðstu liðana fyrir leikinn við West Ham og hér er uppfærð staða eftir bæði tap Everton gegn West Ham og sigurleikinn gegn Newcastle í gær.

Fyrst ber að nefna uppfært leikjaplan:

Það sem er nýtt í þessu frá síðustu greiningu er að búið er að fastsetja leikdaga á nokkrum frestuðum leikjum og því dettur Burnley leikurinn á Goodison Park inn sem næsti þarnæsti leikur Everton. Leeds unnu annars Norwich, sem var viðbúið — en jafnframt svolítið grátlegt, í þessu samhengi, þar sem Leeds skoruðu sigurmarkið mjög seint í uppbótartíma. Brentford vann Burnely og Watford vann Southampton (nokkuð óvænt).

Hvað þýða þessi úrslit? Það var afar óþægilegt að sjá Everton tapa gegn West Ham þrátt fyrir fínan leik og lengi vel (gegn Newcastle) leit út fyrir ennþá lengri eyðimerkurgöngu í bið eftir viðsnúningi. Baráttusigurinn gegn Newcastle manni færri var því ótrúlega mikilvægur, ekki síst sálfræðilega, en tölfræðin lítur einnig mun betur út núna, eins og við munum koma að hér að neðan.

Hvað önnur lið varðar þá tóku Brentford, með sigrinum, stórt skref í átt að áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni (með sigri á Burnley) en þeir eiga stutt og nokkuð erfitt prógram fyrir höndum þannig að sú staða getur breyst aftur. En maður hefur allavega mun meiri trú núna á Brentford en Burnley, sem þeir skildu eftir í alveg bullandi vandræðum. Burnley á auk þess leik við Man City næst, þannig að það lítur út fyrir að þeir séu að fara að mæta á Goodison Park með fjóra tapleiki í röð á bakinu.

Hér er svo uppfærð tölfræði fyrir liðin:

Tölfræðin, uppfærð 18. mars.

Þetta eru sömu gögn og í síðustu greiningu, nema hvað ein ný lína bættist við neðst og sýnir líkurnar á falli að mati veðbankans PaddyPower (bara til að velja einhvern veðbanka). Fyrir sigurleik Everton á Newcastle var Burnley með um 60% líkur á falli en Everton með 32% og Leeds 34%. Eftir Newcastle leikinn jukust fall-líkur Burnley um 3.6% (eru nú 63.6%) og Leeds um 4.1% (fór upp í 38.1%) en líkur Everton minnkuðu um 7% (niður í 25%).

Þetta endurspeglar það að útlitið er allt í einu mun bjartara fyrir Everton en það var áður. Leikurinn við Burnley er hins vegar algjör lykilleikur nú, sem má engan veginn tapast, og sigur á Goodison Park myndi gefa alveg hellings andrými fyrir þá erfiðu leikjatörn sem framundan er. En gleymum því heldur ekki að Leeds eru að hefja sitt strembna leikjaprógram líka og Burnley fá aðeins einn leik (eftir Everton leikinn) til að anda aðeins léttar (ef það er hægt í fallbaráttu) en svo eiga þeir þrjá leiki í röð við lið í efri hluta deildar.

Þetta verður spennandi (may you live in interesting times)!

4 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Þurfum 9 stig í viðbót til að vera safe.

    • Finnur skrifar:

      Skemmtilegt gisk. Væri gaman að sjá hvað aðrir segja…

      Ég held að lið gæti endað með minna en 40 stig og samt sloppið við fall. Jafnvel fleiri en eitt lið. En 9 stig gefa Everton aðeins 34 stig, sem er svolítið magurt. Ég myndi kannski taka undir þetta ef þrjú af þessum stigum Everton koma í leiknum gegn Burnley en það er samt ansi tæpt.

      Því Burnley eru með betri markatölu en Everton í augnablikinu, og þyrftu þá 13 stig í viðbót til að komast upp fyrir Everton. Burnley eiga hins vegar eftir leiki við bæði botnliðin (Norwich og Watford) og eiga ágætis séns á 6 stigum þar. Ef þeir slysast til að vinna Everton þá eru þeir komnir með 9 af þessum 13 stigum og þurfa bara einn sigur og jafntefli í viðbót. Það gæti líka verið stórt fyrir þá að eiga heimaleik gegn Newcastle í lokaleiknum, lið sem hefur væntanlega nákvæmlega að engu að keppa þá (eru ekki einu sinni að kveðja heima-stuðningsmenn með sigri). Það myndi þýða að ekkert af liðunum í efri hlutanum mega misstíga sig gegn Burnely og Aston Villa (sem eru nú um miðja deild) þurfa að vinna báða leiki sína gegn þeim. Eins og ég segi, tæpt. 🙂

      • Diddi skrifar:

        samkv. mínum bókum þá eigum við West Ham á útivelli 3. apríl og Burnley þann 6.

        • Finnur skrifar:

          Ah, þörf og góð ábending. Takk! Leiðréttist á næstu vakt (grafíkin, þeas).