Everton – Boreham Wood 2-0 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik í 5. umferð FA bikarsins á heimavelli við Boreham Wood, sem leika í ensku E deildinni og sitja þar í 4. sæti. Þeir gætu reyndar verið í efsta sæti deildar því þeir eru með þrjá leiki til góða á liðin fyrir ofan sig og ef þeir sigra þá verða þeir með flest stigin í deildinni.

Það var ljóst að þetta yrði leikur kattarins að músinni og svo reyndist vera, en það var svolítið í fyrri hálfleik eins og að leikmenn Everton hefðu tekið sér hlutverk tánings í menntaskóla sem hefur það að markmiði að gera eins lítið og mögulega er hægt til að rétt svo ná að útskrifast. Sem betur fer lifnaði aðeins yfir þessu í seinni hálfleik og þessu var siglt í höfn.

Uppstillingin: Begovic, Mykolenko (fyrirliði), Keane, Branthwaite, Patterson, Kenny, Allan, Doucouré, Townsend, Gordon, Rondon.

Varamenn: Lonergan, Holgate, Coleman, Astley, Price, Dobbin, Welch, Richarlison, Iwobi.

Fyrri hálfleikur var eiginlega hundleiðinlegur, það er ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi. Salomon Rondon átti besta færi Everton, komst inn fyrir hægra megin og náði flottu skoti en markvörður varði glæsilega. Rondon líklega hvort eð er rangstæður, skv. endursýningu.

Anthony Gordon átti annars besta færi Everton í fyrri hálfleik, skot af löngu færi frá vinstri sem markvörður sló frá.

Sendingar í fyrri hálfleik mjög svo þunglamalegar, sóknaruppbygging hæg og engin almennileg færi. Maður vonaði heitt að þetta myndi batna í seinni hálfleik, sem það og gerði en Richarlison kom inn á í hálfleik fyrir Patterson og reyndist mjög líflegur.

Everton byrjaði seinni hálfleik af krafti og komst í færi snemma. Mykolenko gerði vel að gefa fyrir, lágan bolta frá vinstri og Rondón var hársbreidd frá því að pota inn.

Stuttu síðar sendi Kenny háan bolta fyrir frá hægri, beint á kollinn á Rondón sem skallaði vel framhjá.

En á 52. mínútu reyndi Kenny aftur það sama – sendi frábæra lága sendingu á Rondón, sem potaði inn við fjærstöng. 1-0 fyrir Everton. Loksins komið mark.

Stuttu síðar kom Coleman inn á fyrir Mykolenko og tók við fyrirliðabandinu.

Richarlison setti Gordon inn fyrir vinstra megin með flottri stungusendingu á 65. mínútu en markvörður varði eiginlega með ótrúlegum hætti. Hefði átt að vera 2-0 þar.

Svo hélt maður að marki væri komið á 72. mínútu, þegar Richarlison skoraði en réttilega dæmt af vegna hendi. Hefði hvort eð er verið ljótasta mark hans á ferlinum. Grátum það ekki. 

Hann átti svo geggjað skot af löngu færi, alveg út við stöng hægra megin en markvörður varði frábærlega. 

Gordon gulltryggði svo loks sigurinn á 84. mínútu þegar hann skallaði inn eftir hornspyrnu. Upphaflega virtist þetta bara vera vel varið en svo sýndi endursýning að boltinn var kominn vel inn fyrir. Annað mark Salomon Rondón í leiknum og sigurinn gulltryggður þar með, enda getumunurinn töluverður á liðinum. Boreham mann höfðu boltann aðeins 20% og náðu einu skoti af löngu færi, hátt yfir markið.

Dobbins, Price og Welch inn á fyrir Gordon, Keane og Allan í lokin en úrslitin breyttust ekki. Everton þar með komið áfram í bikarnum og mæta Crystal Palace í næstu umferð.

Drátturinn í heild sinni er annars þessi:

Crystal Palace vs Everton
Middlesbrough vs Chelsea
Nottingham Forest eða Huddersfield vs Liverpool
Southampton vs Manchester City

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ekki var þetta nú merkileg frammistaða hjá okkar mönnum í kvöld.
    Sérstaklega þótti mér liðið slappt í fyrri hálfleik þar sem mér fannst oft óöryggi eða hálfgert fát á mönnum, sérstaklega í vörninni, og sóknarleikurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir. Allt of mikið af feilsendingum og ekki mikið hugmyndaflug, stundum eins og menn væru að reyna of mikið.
    Það er ekki spurning að Evertonliðið verður að spila mikið betur á mánudaginn ef ekki á illa að fara

  2. Ari S skrifar:

    Frábært að sjá að Rondon er kominn í gang.