Everton – Man City 0-1

Mynd: Everton FC.

Stórleikur helgarinnar var viðureign Everton við Manchester City og þeir síðarnefndu voru stálheppnir að fara heim með þrjú stig í farteskinu eftir hetjulega baráttu Everton, sem áttu í fullu tré við City liðið frá upphafi og sköpuðu sér ágætis færi. Aðeins eitt mark skildi liðin að og það var sannkallað grísamark, þar sem ansi margt þurfti að falla með þeim til að ná að klára dæmið.

Ég held ég geti talað fyrir munn okkar allra þegar ég segi að þessi úrslit þýði að vonir Everton manna um Englandsmeistaratitilinn séu hér með úr sögunni. Forskot City er einfaldlega of mikið núna. En við lifum enn í voninni varðandi FA bikarinn! 😉

Tvær stórar breytingar voru gerðar á liðinu eftir síðasta leik. Annars vegar var Douocuré búinn að jafna sig af sínum meiðslum og kom beint inn í byrjunarliðið — sem var mjög kærkomið. Hitt var hins vegar öllu síðra, en Calvert-Lewin var ekki í hóp vegna meiðsla sem hann hlaut á æfingu.

Uppstillingin: Pickford, Kenny, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, van de Beek, Iwobi, Gordon, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Mykolenko, Branthwaite, Patterson, Gray, Townsend, Dele Alli, El Ghazi, Rondon.

Fyrri hálfleikur var mjög flottur hjá Everton. City menn voru meira með boltann en betri færin voru öll Everton megin. City menn fengu sæmilegt færi snemma, en það var bara langskot frá de Bruyne eftir hálftíma leik sem Pickford réði vel við. Lítil hætta. Ekkert annað færi hjá City, svo maður muni.

Strax hinum megin vallar komst Kenny í færi inni í teig vinstra megin, komst inn fyrir varnarmann og náði skoti sem fór í utanvert hliðarnetið. Stuttu síðar fékk Richarlison enn betra færi á sama stað en varið. Undir lok hálfleiks átti Gordon svo flotta spyrnu rétt framhjá samskeytum.

Frábær barátta hjá Everton og settu góða pressu á City, sem unnu Ball possession tölfræðina í fyrri hálfleik en ekki mikið meira en það.

0-0 í hálfleik.

City menn juku pressuna í seinni hálfleik og fengu nokkur færi. Pickford þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum til að halda Everton í leiknum og gerði það. Tvisvar meira að segja með heimsklassa vörslu í sömu sókninni.

Everton vörnin stóðst áganginn vel og það var að sjá að allir liðsmenn Everton væru mjög einbeittir í sínum hlutverkum, sem var mjög gott að sjá, enda átti maður hálfpartinn von á smá rass-skellingu.

Allt meira í járnum þegar leið á og virtist stefna í jafntefli.

Þegar komið var fram á 81. mínútu var maður farinn að hugsa að það væri eins og City menn þyrftu að kafa djúpt í verkfærakistuna til að finna eitthvað stórkostlegt til að brjóta Everton á bak aftur — eitthvað svona goal-of-the-season-contender, alveg eins og þeir gerðu í heimaleik sínum gegn Everton á Etihad, þegar þeir voru í vandræðum en náðu einhvern veginn utanfótar „snuddu“ frá varnarmanni (!) af löngu færi beint inn í teig á einhvern í dauðafæri nálægt marki sem tók hann í fyrsta og setti upp í vinkilinn. 

Ég minntist á nákvæmlega þetta við Halla formann, sem var að horfa með mér, og var varla búinn að sleppa orðinu þegar Phil Foden skoraði eitt ljótasta mark sem ég hef séð í langan tíma á Goodison Park. Sending inn í teig frá vinstri sem breytti stefnu af Holgate og barst skyndilega inn í teig og — nokkuð óvænt — til Keane sem var í engu jafnvægi þegar boltinn kom og gat bara slengt fæti í hann. Líklega var það tilraun til hreinsunar (sem mistókst) en Foden lúrði bak við hann og boltinn datt svo vel fyrir Foden að hann hefði verið hýddur ef hann hefði ekki skorað. 0-1 fyrir City. Líklega þessi svokallaða meistaraheppni, sem alltaf er talað um.

Stuttu síðar sluppu City menn svo aldeilis með skrekkinn þegar varnarmaður þeirra einfaldlega handlék knöttinn innan teigs. Veit ekki hvernig maður á að orða það öðruvísi. Það var ekki nokkur pressa á honum en hann stýrir boltanum með upphandlegg og leggur hann þannig fyrir sig áður en hann hreinsar út úr teig. Leit svo mjög skömmustulega út, en VAR ákvað að… aðhafast ekki neitt. Algjörlega óskiljanlegt. Hefði verið hendi alls staðar annars staðar (utan teigs).

Frekar fúlt. 

El Ghazi kom inn á í lokin fyrir Iwobi á 88. mínútu og Gray hafði komið inn á fyrir Gordon um tíu mínútum síðar, en hvorugur náði að breyta gangi leiksins.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (9), Coleman (8), Holgate (7), Keane (6), Kenny (7), Iwobi (7), Allan (8), Doucoure (7), Van de Beek (8), Gordon (8), Richarlison (7). Varamenn: Alli (6), Gray (6), El Ghazi (6).

Þrátt fyrir tap er maður stoltur af sínum mönnum og stemningunni á Goodison Park, sem var frábær. Maður átti ekki von á miklu en heppnin var ekki með okkar mönnum í dag. Þetta lofar samt góður fyrir framhaldið.

11 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Get ekki fyrir mitt litla líf séð neitt annað en tap í þessum leik, vona bara að menn leggi sig fram og gefi allt í þetta í staðinn fyrir að leggjast bara upp í loft eins og venjulega.
  Það er þó jákvætt að við verðum ekki í fallsæti eftir þessa umferð.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Flottur fyrri hálfleikur hjá Everton og vonandi heldur liðið svona áfram í þeim seinni, það er allt sem ég bið um….og að Iwobi verði skipt út af fyrir Dele eða Gray.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Helvítis kjaftæði og rugl! Það á að svindla Everton til Helvítis. Þetta var víti allann daginn

 4. GunniD skrifar:

  Því í fjandanum var þetta ekki víti?

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Af því að þetta var Everton en ekki Liverpool.

 5. Finnur skrifar:

  Þrátt fyrir naumt tap var ég stoltur og sáttur við mína menn og þeirra frammistöðu. Grísamark og vafasamur dómur var það sem þurfti til að stela þremur stigum í dag. Vonandi nýta þeir þessi þrjú stig vel, ég segi nú ekki annað…

 6. AriG skrifar:

  Mjög góður leikur Everton ein klaufaleg mistök eða óheppni. Everton voru rændir viti. Alltaf viti boltinn stoppar í hendi City mannsins. Held að aðdáendur séu líka brjálaðir.