Everton – Leeds 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Leeds United á heimavelli í dag kl. 15:00 og var um algjöran 6 stiga leik að ræða. Mikið hefur verið um meiðsli í herbúðum Everton, eins og eiginlega gegnum allt þetta tímabil en tveir af okkar öflugari miðvörðum, Godfrey og Mina, bættust (í síðasta leik) á meiðslalistann ásamt Gray, sem hefur verið einn sá líflegasti í framlínunni. Fyrir á listanum voru þeir Doucouré, Tom Davies og Delph, en Mykolenko var fjarverandi vegna Covid. Það var því enginn náttúrulegur vinstri bakvörður í liðinu í dag.

Maður bjóst ekki við miklu og vonaði helst að nýju leikmennirnir, Dele og van de Beek, færu að sýna hvað Lampard sá í þeim en sá síðarnefndi fékk tækifæri í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu. Það var fyrirséð að stemningin á pöllunum yrði frábær og maður vonaði að sá stuðningur myndi ná að bera liðið yfir endalínuna. Góðu fréttirnar fyrir leik voru þær að Calvert-Lewin var orðinn nægilega góður af sínum meiðslum til að byrja í dag!

Uppstillingin: Pickford, Kenny, Holgate, Keane, Coleman (fyrirliði), Allan, Iwobi, Gordon, van de Beek, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Branthwaite, Patterson, Gomes, Townsend, El Ghazi, Dele Alli, Tosun, Rondon.

Þriggja manna varnarlína með Coleman í hálfgerðri miðvarðarstöðu hægra megin. Kenny og Iwobi á köntunum.

Það var rosalegur kraftur í Everton alveg frá upphafi leiks og fyrri hálfleikur svo fjörugur að það var erfitt að fylgjast með og hripa niður skýrslu á sama tíma. Leikmenn Everton börðust um alla bolta alveg sama hversu vonlaust var að vinna þá. Þeir uppskáru næstum því mark á fyrstu mínútu þegar Richarlison sá hlaup Gordon inn í teig vinstra megin og sendi langan bolta á hann þvert á varnarlínuna. Gordon komst einn á móti markverði inni í teig en náði ekki skoti með varnarmanninn í bakinu á sér. Hefði átt að skora þar. Gordon átti svo stuttu síðar skot á mark af löngu færi en markvörður varði.

Leeds náðu aldrei takti í upphafi leiks og voru alltaf á eftir í alla lausa bolta. Everton var á 150% framlagi og djöfluðust í þeim alls staðar á vellinum. Hver bylgjan skall á vörn Leeds á fætur annarri og það hlaut að bera árangur loksins.

Stuttu síðar komst van de Beek upp að endalínu hægra megin og sendi lágan bolta fyrir mark á Calvert-Lewin, sem var alveg upp við mark og við það að pota inn en miðvörður náði rétt svo að sneiða boltann til baka en ekki lengra en til Coleman sem vann slaginn við hinn miðvörðinn, kastaði sér á boltann og skallaði inn (og endaði sjálfur, ásamt bolta, í marknetinu). 1-0 fyrir Everton!!!!

Engin tilraun á mark frá Leeds eftir 15 mínútna leik. Everton með 5 (!), þar af þrjár á rammann. 

Everton skiptu úr þriggja manna vörn yfir í fjögurra stuttu eftir markið og Leeds fengu smá andrými við það. Færin þeirra létu þó á sér standa og létu þeir því langskotin nægja. Voru reyndar ekki langt frá því að jafna með skoti langt utan af velli frá Rodrigo, en boltinn í slána og út.

Richarlison var duglegur að elta vonlausan bolta og í einum slíkum upp við hornfána tókst honum að vinna horn og Everton skoraði i ḱjölfarið! Gordon sendi frábæran háan bolta fyrir mark úr horninu, sem Keane stökk upp og skallaði í netið, uppi vinstra megin við stöng! Staðan orðin 2-0 eftir 23 mínútur!!

Stuttu síðar (27. mínútu) átti Gordon enn eitt skot Everton að marki, eftir góðan undirbúning frá Kenny, en skotið ekki nógu öflugt og því varið.

Gordon vann boltann á kantinum vinsrta megin og náði flottum spretti upp að endalínu og sendi lágan bolta til hægri aftur út í teiginn. Varnarmaður Leeds náði að blokkera sendinguna en boltinn datt vel fyrir Richarlison, sem kom á hlaupið inn í miðjan teiginn og hann þurfti bara að þruma á réttan stað á markið því markvörðurinn horfði bara á með hjartað í buxunum. En… varnarmaður Leeds náði að skriðtækla fyrir skotið á ögurstundu! Þar hefði Everton átt að vera komið í 3-0 eftir 39 mínútur.

Iwobi sett Calvert-Lewin inn fyrir vörn Leeds með stungusendingu hægra megin inn í teig, en færið reyndist þröngt og markvörður varði skotið frá honum.

Rétt fyrir lok hálfleiks voru Leeds menn næstum búnir að minnka muninn þegar Rodrigo átti flott skot utan teigs sem endaði í slánni og út aftur.
2-0 í hálfleik!

Gordon byrjaði seinni hálfleik af krafti, með skoti á mark utan teigs en markvörður varði vel. Seinni hálfleikur var annars rólegri en sá fyrri og mikið um sífellt stopp-start, innköst, aukaspyrnur og þess háttar. Fyrir vikið var erfitt fyrir liðin að ná nokkrum ryþma og færin stóðu á sér. En það hentaði Everton mjög vel, enda tveimur mörkum yfir!

Leeds gekk ekkert að reyna að jafna, Everton vildi einfaldlega sigurinn meira og börðust af krafti og voru mjög skipulagðir í vörn.

Calvert-Lewin var skipt út af á 72. mínútu og Dele Alli kom inn á fyrir hann. Alli fór í holuna og Richarlison upp á topp og það bar eiginlega strax árangur. Richarlison náði skoti á mark utan teigs á 78. mínútu. Boltinn fór hins vegar í hælinn á Gordon (sem var réttstæður) og þaðan í markið alveg út við stöng vinstra megin.

Gordon var skipt út af fyrir El Ghazi á 81. mínútu og Richarlison fór stuttu síðar út af fyrir Rondon. 

Dele Alli átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Leeds undir lokin. Há sending utan af kanti inn á Rondon sem var mættur fremstur og náði frábæru skoti í fyrstu snertingu. Markvörður Leeds varði hins vegar stórkostlega frá honum. Óheppinn að skora ekki fjórða mark Everton þar.

Niðurstaðan því 3-0 sigur fyrir Everton! Meira svona!

Sky Sports virðast ekki ætla að gefa út einkunnir fyrir þennan leik, einhverra hluta vegna (beið til tæplega kl. 21:00). Eigum við ekki að segja að leikmenn hafi sprengt skalann? 😉

Sky völdu Anthony Gordon mann leiksins.

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ótrúlegt en satt þá hef ég tekið meðvitaða ákvörðun um að horfa ekki á þennan leik. Ég er einfaldlega búinn að fá nóg af því að láta þessa drulluhauga eyðileggja fyrir mér dagana.
    Annars fer þetta 1-4 fyrir Leeds.

    • Ari S skrifar:

      Ha ha ég gæti sagt það sama.. var í hesthúsinu og ákvað að fara ekki heim til að horfa.. enda frábært verður í dag. Kíkti þó á símann og sá að við höfðum skorað 1-0 eftir tíu mínútna leik.

      Sá síðan seinni hálfleikinn heima og þetta var notalegur sigur í dag. Mikilvægt að vinna Leeds svona örugglega. Verðum að halda haus og gera þetta að vana.

      Ég hef lesið að Donny van de Beek hafi veirð góður eins var Iwobi að mati margra hreinlega maður leiksins hann var víst svo góður. Það er gaman að lesa svona umsagnir. Þrjú stig í dag, áfram Everton!

    • Finnur skrifar:

      Þið völduð aldeilis leikinn til að sleppa því að horfa! Þetta var besti fyrri hálfleikur af fótbolta sem ég séð Everton spila í ansi langan tíma (myndi alveg vilja eiga þá frammistöðu á DVD) og þessu var auðveldlega siglt í höfn í seinni hálfleik. Everton hefði auðveldlega getað skorað 6 mörk í dag (Gordon í algjöru dauðafæri í upphafi, Coleman og Keane með mörk, Richarlison einn á móti markverði og svo Gordon með (deflection) mark. Til að toppa þetta hefði Rondon getað skorað með geggjaðri tilraun á mark undir lokin. Skil ekki enn hvernig markvörður varði það.

  2. Hallur skrifar:

    Jæja vinmnum þetta

  3. Gestur skrifar:

    Everton tapar fyrst Iwobi byrjar, hann hefur aldrei getað blautann

  4. AriG skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton. Stórkostleg barátta liðsins í leiknum. Van De Beek storkostlegur. Besti leikur Iwobi fyrir Everton frá upphafi. Kenny stóð sig vel. Stórkostleg stoðsetning hjá Dele Alli í lok leiksins markvörður Leeds varði stórkostlega. Vörnin mjög traust. Miðjan flott með Van De Beek besti leikmaður Everton í leiknum.

  5. Finnur skrifar:

    Ég skil ykkur (Ari og Ingvar) samt mjög vel að hafa sleppt því að horfa. Ég var mjög stressaður fyrir leik, sérstaklega út af þessu „narrative“ (söguskýringar?) sem eru alltaf í gangi hjá þessum blessuðu spekúlöntum.

    Ef liðið hefði gert jafntefli hefðu söguskýringin verið sú að loftið væri úr Lampard blöðrunni eftir eitt stig úr tveimur leikjum á móti liðum í fallbaráttu og að þetta liti alls ekki vel út. Endalaust tal um að hann hefði nú ekki „gert sér grein fyrir stærð verkefnisins“.

    Tala nú ekki um að ef liðið hefði tapað í dag því þá hefði andrúmsloftið í kringum Goodison Park orðið ansi mjög mikið súrt.

    En í staðinn gekk þetta allt upp og allt í einu erum við að horfa á tvo sigurleiki af þremur undir Lampard (í öllum keppnum) og Newcastle leikurinn lítur núna út eins og undantekningin sem sannar regluna.

    Það sem gladdi mig mest í dag var samt ekki bara þessi þrjú stig, heldur var frammistaða eiginlega allra leikmanna einfaldlega í einu orði sagt frábær. Miðjan eins og hún lagði sig var stórkostleg (Van de Beek, Allan, Iwobi og Gordon). Liðið skoraði þrjú mörk og fékk ekkert á sig. Og enginn meiddist. Allir glaðir.

    Ég held það þurfi kíttispaða til að ná þessu brosi af mér… 😀

  6. albert skrifar:

    Það var merkilegt hvað Leeds var lélegt! Óheppnir líka. Gott fyrir okkur. Tel að það sé kominn upp góður baráttu andi í liðið okkar. Þarf samt að vera betri frammistaða ef á að vinna Man city!

  7. Eirikur skrifar:

    Góður sigur og nokkrir leikmenn sem sýndu sína bestu framistöðu í vetur.
    Fyrir mér fannst vera mikil breyting á varnarleik, ekkert að dóla heldur bara hreinsa frá ef að það var pressa á varnarmönnum.
    Höfum allt of oft verið að skapa mikla hættu og gefa mörk þegar reynt er að spila út úr vörninni. Erum bara ekki með leikmenn í þannig fótbolta. Geggjað að heyra stemninguna á Goodison.