Frank Lampard ráðinn

Mynd: Evening Standard.

Samkvæmt nýjustu fréttum á bæði BBC og Sky Sports hefur Frank Lampard verið ráðinn næsti knattspyrnustjóri Everton. Hann tekur við af Rafa Benitez og skrifar undir samning til tveggja og hálfs árs. Klúbburinn á reyndar enn eftir að staðfesta fréttirnar, en það mun væntanlega gerast á morgun (uppfært: staðfesting komin).

Frank Lampard, nýráðnum knattspyrnustjóra Everton, bíður risastórt verkefni — við getum ekki neitað því. Liðið okkar hefur, undanfarna mánuði, verið í frjálsu falli, eins og enskumælandi fólk orðar það, og er nú í 16. sæti, aðeins fjórum stigum frá fallsæti. Það hefur verið þónokkuð um meiðsli á tímabilinu og þó aðeins sé að rofa til í þeim málum þá missti liðið nýverið Lucas Digne (sem var seldur) sem og Doucouré, sem verður frá í allavega mánuð vegna meiðsla.

Lampard fyllir í lausa stöðu knattspyrnustjóra en enn á klúbburinn eftir að ráða í ansi margar lykilstöður, til dæmis yfirmann knattspyrnumála (e. director of football), yfirmann leikmannakaupa (e. head of recruitment) og yfirmann njósnadeildar (e. scouting chief).

Það hjálpar heldur ekki að félagaskiptaglugginn lokar á morgun, en óvíst er hvort það hefði hjálpað hvort eð er, enda klúbburinn í spennitreyju Financial Fair Play reglna vegna fyrri skuldbindinga. Reyndar bárust (óstaðfestar) fréttir af því að samningar hefðu náðst við Man United um lán á miðjumanninum Donny van de Beek til loka tímabils.

Við getum því ekki annað en vonað að Lampard komi með orkuna og ákefðina sem svo sárlega hefur vantað í liðið undir stjórn síðustu tveggja stjóra (Benitez og Ancelotti). Framundan eru næstu tveir leikir sem gætu mótað restina af tímabilinu og líta má á sem algjöra bikarúrslitaleiki, fyrst FA bikarleikur (í fjórðu umferð) gegn Brentford heima og svo 6 stiga deildarleikur í botnbaráttunni gegn Newcastle úti. Ef þessir leikir tapast gæti útlitið orðið ansi dökkt mjög fljótt fyrir Frank Lampard.

En, það er allavega ekki seinna vænna að fá smá orkuskot sem oft fylgja nýjum stjórum. Við óskum því Frank Lampard velkominn í djúpu laugina! Ég held ég geti talað fyrir munn okkar allra, sem unna Everton, þegar ég óska honum hjartanlega alls velfarnaðar í starfi!

2 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Samkvæmt nýjustu fréttum vill Lampard fá Idrissa Gana Gueye frá PSG til Everton á ný. Greinilegt að hann er með puttan á púlsinum og veit hvar þarf að bæta við. Ef þetta er rétt þá eru þetta mjög góðar fréttir.

  2. Elvar Örn Birgisson skrifar:

    Lampard orðinn stjóri.
    De Beek kemur að láni, staðfest 99%
    Dele Alli keyptur, staðfest 99%
    Verið að skoða 1-2 aðra leikmenn.