Rafael Benitez rekinn

Mynd: Everton FC.

Everton staðfesti í dag brottrekstur Rafaels Benitez, eftir aðeins örfáa mánuði í starfi og því miður er ekki hægt að neita því að það kom ekki mikið á óvart.  

Það er heldur ekki hægt að neita því að þetta var mjög svo umdeild ráðning frá upphafi, svo ekki sé meira sagt, enda hafði Benitez áður stýrt erkifjendunum þegar hann tók við af Carlo Ancelotti. Það var því alltaf ljóst að hans biði erfitt verk að, ekki bara að ná árangri í Úrvalsdeildinni, heldur vinna hug og hjörtu okkar allra.

Ég ætla ekki að efast um það að hann hafi unnið að heilindum fyrir klúbbinn og um tíma leit út fyrir að hann hefði náð að þagga niður allar efasemda-raddirnar, enda var Everton aldrei meira en einu stigi frá efsta sæti ensku Úrvalsdeildarinnar fyrstu tvo mánuði tímabilsins. 

Afraksturinn síðan þá, hins vegar, frá því að Everton vann Norwich heima 2-0 hefur verið algjörlega skelfilegur. Tölurnar tala sínu máli því þegar litið er yfir október, nóvember, desember og janúar eru einu ljósu punktarnir tvö jafntefli á útivelli (gegn United og Chelsea) og mjög sannfærandi sigur gegn Arsenal á heimavelli. Restin af leikjunum var löng röð af mjög svo vandræðalega lélegum úrslitum. Ef liðið hefði getað samið um jafntefli fyrirfram í fyrstu 19 leikjum tímbilsins (í stað þess að spila leikina), væri staðan betri en hún er nú, því liðið væri þá með sama stigafjölda og í dag en markatalan væri ekki neikvæð um heil 10 mörk.

Við getum samt ekki neitað því að Benitez hefur það sér til málsbóta að hann var að vinna í afar erfiðum aðstæðum, sérstaklega þegar litið er til fyrri skuldbindinga klúbbsins, covid og samsvarandi erfiðleikum við að losa sig við rekavið. Að ekki sé minnst á langvarandi fjarveru lykilmanna í hryggjarsúlu liðsins, á borð við Calvert-Lewin, Richarlison, Mina, Doucouré, Gylfa og fleiri. Bæði vegna meiðsla og út af sottlu…

En það er ekki hægt að berja hausnum endalaust við steininn og ætlast til þess að útkoman breytist. Það varð eitthvað að gefa undan, því afraksturinn undanfarna mánuði er búinn að vera á pari við þau lið sem eru í fallslagnum, sem er engan veginn nógu gott fyrir klúbb af þessari stærðargráðu.

En nú er Benitez farinn og eiginlega þykir manni verst að það hafi ekki gerst áður en Lucas Digne gafst upp og fór til Aston Villa. En það er lítið við því að gera núna og við þurfum að horfa til framtíðar. 

Ansi margir hafa verið orðaðir við stjórastöðuna og sitt sýnist hverjum. Hér eru nokkrir:

Sean Dyche, stjóri Burnley.Graham Potter, stjóri Brighton.
Nuno Espirito Santo, fyrrum stjóri Wolves og Tottenham.
Duncan Ferguson og/eða Wayne Rooney.
Paulo Fonseca, fyrrum stjóri Roma.
Kasper Hjulmand, landsliðsstjóri Danmerkur.
Frank Lampard, fyrrum stjóri Chelsea.
Roberto Martinez, landsliðsstjóri Belgíu.
Jose Mourinho, stjóri Roma.
Slaven Bilić, fyrrum stjóri Beijing Guoan. 

Fleiri nöfn eiga örugglega eftir að líta dagsins ljós. Endilega látið vita ef fleiri nöfn birtast. Hver er ykkar skoðun á þeim sem nefndir hafa verið?

6 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Everton þarf stjóra sem nær annars vegar að rétta af skútuna og til lengri tíma litið getur sýnt fram á stöðugleika og árangur (sem stjóri) í Úrvalsdeildinni.

  Það er pínu random hver getur veitt hið fyrrnefnda (rétta af skútuna), en það sem skiptir einnig miklu máli er að að fá stjóra með reynslu af Úrvalsdeildinni, sem getur sýnt fram á árangur.

  Ég hef ekki (í samtölum við fólk) farið leynt með skort minn á áhuga á því að fá einhvern fyrrum markaskorara til að stýra liðum í erfiðustu deild heims. Það er eitt að pota bolta í netið en allt annað að ná hámarks-afköstum úr hópi afreksmanna í íþróttum, með sín egó og umboðsmenn og önnur vandamál sem fylgja nútíma afreksmönnum. Mér finnst merkilegt að fólk tengi þetta tvennt saman (hæfileika með bolta og hæfileika með að vinna með fólk), enda eru bestu stjórarnir í dag alls ekki bestu fótboltamennirnir sem við höfum séð á velli. Svo þarf líka að hugsa um að passa upp á (með þann mannskap sem er í boði) að stjórinn bjóði upp á þann leikstíl sem vænlegur er til árangurs og stuðningsmenn búast við af klúbbnum.

  Að framansögðu ætti að vera ljóst að ég hef lítinn áhuga á Rooney, Lampard og/eða meira að segja Duncan Ferguson, sem næsta stjóra Everton, þó ég elski þá alla, nema Rooney og Lampard. Bilic heillar mig heldur ekki. Þar er ekki að finna sögu um árangur í Úrvalsdeildinni.

  Nuno Espirito Santo gerði ágæta hluti hjá Wolves en féll á prófinu hjá Tottenham og ég velti fyrir mér hvort þetta hafi virkað hjá honum með Wolves vegna þess að hópurinn sem hann hafði hentaði hans leikstíl vel frekar en að hann sé góður stjóri. Ég þekki það samt ekki nógu vel. Sé hann ekki passa inn í þann leikstíl sem stuðningsmenn Everton vilja.

  Paulo Fonseca og Kasper Hjulmand eru algjörlega óreyndir í Úrvalsdeildinni og þar með ekki gjaldgengir að mínu mati. Ég skil jafnframt ekki af hverju Roberto Martinez er enn orðaður við klúbbinn. Það ætti að vera fullreynt.

  Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessum orðrómum um Jose Mourinho, ef á að segja eins og er. Hann tikkar örugglega í öll boxin hjá Farhad Moshiri: þessi „Hollywood ráðning“ með glæsta sögu um árangur í Úrvalsdeildinni og víðar, en ég bara sé hann ekki virka til lengri tíma hjá neinu Úrvalsdeildarliði og hann virðist skilja eftir sig sviðna jörð alls staðar þar sem hann hefur verið.

  Eftir standa nöfn á borð við Sean Dyche og Graham Potter, sem eru kannski ekki til þess fallin að vekja hjá manni mikinn áhuga. Vissulega kom Sean Dyche Burnley tvisvar upp í Úrvalsdeildina og þaðan í Evrópukeppnina (sem er afrek fyrir Burnley), en þeir eru nú á botni Úrvalsdeildarinnar. Ekki beint til að hughreysta fólk, allavega miðað við stöðuna í dag.

  Graham Potter virðist vera að gera ágæta hluti með Brighton síðustu tvö (og einu) tímabilin sín í Úrvalsdeildinni, en þetta er hans fyrsta „gigg“ í Úrvalsdeildinni. Kannski er hann alveg rangt „fitt“ við leikmannahóp Everton. Maður veit aldrei.

  Líklega er það sama með stjórana og leikmenn. Janúar er yfirleitt ekki góður tími til að versla.

  #valkvíði

  • Gestur skrifar:

   Mér finnst nú Rafael Benitez pikka í flest ef ekki öll þessi box sem nefnir hér en hann fékk ekki þann tíma sem hann hefði þurft. Hann var nú samt að taka aðeins til og var bara á sínum fyrsta glugga sem hann mátti eyða einhverjum upphæðum sem gerir þennan brottrekstur ennþá furðulegri. Ég held að það sé eitthvað mikið að hjá Everton sem þarf að laga sem fyrst, get samt ekki bent á hvað það er. Mér líst ekki á marga sem eru nefndir hér uppi, kannski helst Lampard og svo er Scott Parker að gera flott hluti hjá Bournemouth en af hverju ekki að fara og ná í stjóra sem hefur ekki verið í úrvalsdeildinni eins og Sebastian Hoeneß hjá Hoffenheim, hann er líka þýskur sem er í tísku núna.

 2. AriG skrifar:

  Jæja þá er snillingurinn hann Benetez farinn eftir frábært starf hjá Everton. Honum tókst að rífja liðið upp í byrjun og svo brotnaði spilaborgin hans til grunna og skilur við liðið í tómu rugli. Svo er það spurningin hver á að taka við mundi alveg sætta mig við Ferguson út þetta tímabil ef enginn alvöru stjóri finnst. Veit ekki með Rooney hefur litla reynsu í þjálfun en hann stendur sig með Derby með enga peninga. Martinez úr leik enda á lið aldrei að ráða stjóra sem var rekinn áður mín skoðun. Ættum alls ekki að eltast við stjóru nöfnin hugsa bara um peninga og eiginn hag. Ætla ekki að spá neinu hver tekur við en vonandi fær eigandinn ekki að ráða í þetta skiptið treysti öðrum í það verkefni. Ferguson sá eini sem ég sætti mig við í bili en vonandi koma aðrir góðir valkostir kemur í ljós.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Nú þegar það er orðið staðfest að Ferguson tekur við liðinu amk fyrir komandi leiki, þá þætti mér skynsamlegast af stjórn félagsins að finna rétta manninn til að taka við sem yfirmaður knattspyrnumála.
  Hann á svo að ráða nýjan stjóra.
  En Everton er ekki mikið í því að gera skynsamlega hluti svo ég býst við að Mourinho verði næstur á himinháum launum og fimm ára samning.

 4. Ari S skrifar:

  Það verður fróðlegt að sjá hvernig Duncan gengur með liðið.

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég vil fá Favre eða Kocac.
  Báðir hafa reynslu af að taka við félagi af svipaðri stærð og Everton, í nákvæmlega sömu stöðu og Everton, snúa þeim á rétta braut og gera þau betri.