Liðsstyrkur berst!

Mynd: Sky Sports og Daily Record (samsett).

Félagaskiptaglugginn opnaði aftur í janúar, líkt og fyrri ár, eins og öllum áhugamönnum um ensku Úrvalsdeildina ætti að vera ljóst. Klúbburinn okkar beið ekki boðanna heldur hefur nú þegar tryggt sér þjónustu tveggja bakvarða, sitt hvorum megin vallar. Lítum aðeins nánar á hvaða leikmenn þetta eru…

Vitaliy Mykolenko (vinstri bakvörður)

Strax á fyrsta degi ársins tilkynnti Everton um kaup á Vitaliy Mykolenko en hann er 22ja ára leikmaður sem kemur frá Dynamo Kiev þar sem hann komst í aðalliðið aðeins 18 ára gamall. Hann hefur leikið 132 leiki fyrir Dynamo, skorað 7 mörk og átt 20 stoðsendingar (sem þýðir að hann átti mjög stóran þátt í marki í um fimmta hverjum leik með þeim) og hjálpaði þeim að vinna deildina tímabilið 20/21 sem og bikarinn þar í landi tvisvar.

Hann hefur einnig spilað 21 leik með landsliði sínu, Úkraínu, og var einn af betri mönnum liðsins sem fór taplaust í gegnum undankeppni EM, endaði á toppi síns riðils (sem innihélt m.a. Portúgal) og náði að komast í fjórðungsúrslit á EM. Kaupverðið var ekki gefið upp en er talið vera allt að 17M, ef marka má BBC — þegar (og ef) allar árangurstengdar greiðslur eru teknar með. Hann skrifaði undir samning til sumars 2026. 

Mykolenko er sókndjarfur vinstri bakvörður, sem er í tísku í dag, en hann er einnig fjölhæfur leikmaður (sem hentar liðum með fámennan hóp, eins og Everton, vel) því hann getur einnig leikið sem miðvörður og sem „væng-bakvörður“ (e. wingback). Hann verður örugglega góð viðbót við hópinn, enda hefur Lucas Digne svolítið skort samkeppni, en Digne hefur jafnframt verið orðaður við önnur lið upp á síðkastið, jafnvel í skiptisamningum við leikmenn í öðrum stöðum. Það verður fróðlegt að sjá hvar það endar.

Hér má sjá stutt myndskeið af Mykolenko, en hann spilaði í treyju númer 16.

Nathan Patterson (hægri bakvörður)

Fyrr í dag fréttum við svo um kaup á hægri bakverðinum Nathan Patterson, en sú staða hefur verið forgangsatriði á innkaupalistanum um nokkurn tíma, til að veita Coleman samkeppni.

Patterson er aðeins tvítugur að aldri og kom fram í fréttatilkynningunni með kaupunum að hann sé einn af efnilegustu varnarmönnum Evrópu. Hann kemur úr unglingaakademíu skosku meistaranna Rangers, en hann komst í aðallið þeirra á síðasta tímabili og hjálpaði þeim að tryggja sér titilinn án taps.

Hann er rúmir 185 cm á hæð og þykir sprettharður mjög og, líkt og Mykolenko, er sókndjarfur bakvörður. Hann komst í sitt landslið (skoska) siðastliðið sumar og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í nóvember. 

Kaupverðið var ekki gefið upp en skv. BBC var það 11.5M punda, plús árangurstengdar greiðslur. Þetta er í annað ef ekki þriðja sinn sem Everton reynir að kaupa hann, en þáverandi stjóri Rangers (Liverpool maðurinn Gerrard) gat ekki hugsað sér að láta hann fara til Everton. Everton stökk hins vegar á tækifærið þegar Gerrard fór til Aston Villa.

Patterson skrifaði undir samning til sumars árið 2027 (fimm og hálft ár) og fær skyrtu númer 3.

Hægt er að sjá kappann á velli hér:

Við biðjum þá báða kærlega velkomna til Everton og óskum þeim velfarnaðar!

2 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Vel gert að fá þessa tvo. Hlakka til að sjá þá spila með liðinu.

    • Ari S skrifar:

      Sagt er að Newcastle United hafi boðið Everton 22.5 milljónir punda plús Sean Longstaff fyrir Lucas Digne. Ágætis tilboð og vonandi fáum við fleiri slík áður en að janúar er úti.

%d bloggers like this: