Everton – Arsenal 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Arsenal á heimavelli í kvöld og þurfti sárlega á stigum að halda eftir erfitt leikjaplan og eyðimerkurgöngu í leit að stigum undanfarnar vikur. Þrátt fyrir fína frammistöðu leit út fyrir að þetta væri ekki dagur okkar manna en þessi síðari hálfleikur… maður lifandi.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Mina, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Gray, Townsend, Gordon, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Kenny, Holgate, Branthwaite, Gbamin, Delph, Gomes, Iwobi, Tosun.

Everton var með fín tök á leiknum í upphafi og þeir virkuðu ákafir og einbeittir. Lítið að frétta hjá Arsenal. Nei, eiginlega ekki neitt að frétta hjá þeim í fyrri hálfleik.

Richarlison sá hlaup hjá Godfrey upp kantinn og setti hann inn fyrir bakvörðinn með flottu ‘flick-i“ snemma leiks og Godfrey nýtti það til að taka sprettinn með bolta inn í teig vinstra megin. Völlurinn hins vegar aðeins of blautur og Godfrey skrikaði fótur þegar hann ætlaði að skjóta, einn á móti markverði. Dauðafæri forgörðum. Mígandi rigning á vellinum í upphafi leiks og framan af.

Gray fékk svo ágætis skotfæri utan af velli stuttu síðar en hitti ekki markið.

Mótmæla-fáninn fór á loft á 27. mínútu á pöllunum og örfáar hræður gengu út, eins og auglýst hafði verið fyrir leik. Ekki margir þó, enda Everton með fín tök á leiknum, þrátt fyrir að Arsenal væri meira með boltann. Hjálpaði kannski að Everton var hársbreidd frá því að komast yfir á sömu mínútu og átti að ganga út.

Mina fór hins vegar út af vegna meiðsla og Holgate kom inn á í kjölfarið.

Everton komst yfir á 44. mínútu, hélt maður allavega, þegar Townsend tók aukaspyrnu, háan bolta inn í teig frá hægri, sem Richarlison afgreiddi glæsilega í netið. En endursýning sýndi að hann var rangstæður, því miður.

Arsenal menn svöruðu með sókn á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks og náðu að setja mark. Ödegard var á auðum sjó inni í teig og fékk háan bolta sem hann setti í netið alveg út við stöng. Engan veginn það sem Arsenal liðið átti skilið. Búnir að vera mjög daprir og ekki búnir að skapa neitt fram að því.

When it rains, it pours. 0-1 í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af nokkrum krafti, sem við höfum svolítið tekið eftir að hefur verið raunin frá því að Benitez kom til liðsins. Gordon átti fyrirgjöf fyrir mark frá hægri sem endaði sem ‘skending’ því markvörður þurfti að slá bolta í horn sem stefndi í sveig í samskeytin. Hættulegur bolti inn í teig úr horninu en ekkert kom út úr því.

Aftur skoraði Everton á 57. mínútu og aftur var þar Richarlison að verki (!) og aftur (!!) var hann (eða kannski réttara sagt skóreimin) dæmd rangstæð. Og aftur fengu Arsenal menn færi strax í kjölfarið (!!) en í þetta skiptið kom ekkert úr því, sem betur fer. Pickford gerði þar vel að loka á og þrengja færi fyrir sóknarmanninn.

Mynd frá Sky Sports

En hérna, smá pæling… Ég er ekki að halda því fram að dómarinn hafi stolið marki af Everton (það eru engin Liverpool gleraugu í gangi á þessum bæ, get alveg sætt mig við mjög tæp rangstaða hafi verið rétt niðurstaða) — en… gat VAR sérfræðingurinn virkilega ekki dregið rauðu línuna með betri hætti en þetta? Ég minnist þess ekki að Richarlison hafi verið í trúðaskóm í leiknum, allavega ekki svo ég hafi tekið eftir… (það eru fleiri fleiri centimetrar í rauðu línuna). Pínu spes.

Tek líka fram að ég er mjög hlynntur VAR tækninni, þó maður fái (rétta) niðurstöðu stundum í andlitið. Var ekki talað um það í júní að prófa breiðari VAR línur fyrir þetta tímabil? Ef svo er, þá þarf kannski að breikka þær enn frekar (að ekki sé minnst á að draga þær rétt)?

Hvað um það. Gomes kom svo inn á fyrir Townsend á 65. mínútu.

En loksins, loksins (!), á tæplega 80. mínútu skoraði Everton jöfnunarmarkið. Gray átti frábært skot utan teigs, sem fór í sveig yfir markvörðinn og í slána. Boltinn barst út í teig, með markvörð Arsenal í grasinu, og Richarlison gerði vel og skallaði í autt markið. 1-1. Ekkert minna en Everton átti skilið.

Arsenal menn fengu frábært færi til að komast yfir stuttu síðar en Eddie Nketiah var upp við stöng og skallaði boltann í stöngina! Fékk boltann svo í höndina og þaðan fór hann út af. Mikill léttir fyrir Everton.

En rétt fyrir lok venjulegs leiktima átti Gray geggjað skot utan teigs, í stöngina hægra megin og inn. Óverjandi fyrir markvörðinn. Staðan orðin 2-1 og bara uppbótartíminn eftir. Gray að sýna enn á ný að í honum voru bestu kaup tímabilsins klárlega — aðeins tvær milljónir punda.

Iwobi hefði getað stráð salti í sár Arsenal manna og sett þriðja markið undir lokin en tókst það ekki í upplögðu færi. Það kom þó ekki að sök því Aubamegange klúðraði góðu færi á síðustu sekúndunum, sem var síðasta markverða atvikið í leiknum. 2-1 comeback sigur Everton staðreynd, þrátt fyrir tvö mörk sem dæmd voru af liðinu.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (8), Keane (7), Mina (6), Godfrey (6), Doucoure (7), Allan (7), Gray (8), Townsend (7), Gordon (7), Richarlison (8). Varamenn: Holgate (6), Gomes (7).

Fjórir með sjö hjá Arsenal, restin lægra — þar af fjórir með fimm.

Demarai Gray var valinn maður leiksins.

10 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Við Dylan erum að spá í að taka þennan á Spot Kópavogi. Kíkið við ef þið getið.

 2. Ari S skrifar:

  Mikill léttir í mikilvægum leik í kvöld. Everton 2 Arsenal 1.

 3. Finnur skrifar:

  Gríðarlegur léttir. Ég átti ekki orð yfir því hvað 1-0 forysta Arsenal var óverðskulduð í hálfleik, eftir að hafa verið í harðri samkeppni við Norwich um lélegustu frammistöðu mótherja Everton á Goodison Park á tímabilinu. Kannski var bara um vanmat hjá þeim að ræða og þeir bættu sig vissulega mikið í seinni hálfleik en okkar menn unnu þann hálfleik samt 2-0.

 4. AriG skrifar:

  Frábær sigur Everton kominn tími til. Einn besti leikur Richarlison sem ég hef séð spila fyrir Everton. Gray var líka frábær. Og aðrir líka. En ég ætla samt að velja Andre Gomes mann leiksins gjörbreytti sóknarleik Everton þegar hann kom inná. Hræðilegt að Yerry Mina meiðist aftur besti varnarmaður Everton í dag ef hann er heill. Benitez bjargar starfinu sínu eftir sigurinn í kvöld. Everton hefur alveg nógu góðan mannskap til að keppa um topp 8 tala ekki um ef allir bestu leikmennirnar mundi spila þá hefði verið rauhæfur möguleiki á 4 sætinu en það er kannski frekar óraunverulegt en með svona baráttu eins og Everton sýndu í kvöld sýnir að liðið getur þetta og hefur spilað langt undir getu síðustu leiki.

 5. GunniD skrifar:

  Horfði áleikinn með poolara og tveimur mánudagur mönnum og þeir áttu ekki orð yfir seinni rangstöðudómnum.Everton unnu seinni hálfleikinn klárlega 3-0.

 6. GunniD skrifar:

  Horfði áleikinn með poolara og tveimur man u mönnum og þeir áttu ekki orð yfir seinni rangstöðudómnum.Everton unnu seinni hálfleikinn klárlega 3-0.

 7. albert skrifar:

  Loksins sá maður leik sem gaman var að horfa á! Oftast verið erfitt að fá Arsenal á heimavöll. Hungrið í sigur var augljóst og sýnir að þetta lið getur þetta, þó það hafi verið laskað af meiðslum. Það á bara að vera nóg af mönnum sem geta stigið inn! Sumir leikmenn eru „seinir“ og þar er Coleman efstur hjá mér. Þarf að senda hann heim til Írlands. Getur þetta ekki lengur. Þessi frammistaða gerir það að verkum að leikmennirnir „geta“ unnið „stóru“ liðin og þeir verða að sýna það að þetta var ekki bara „one night show“. Stuðningsmenn liðsins áttu talsverðan þátt í þessum sigri! Áfram Everton.

 8. þorri skrifar:

  Sælir kæru félagar loksins kom sigur.Þarna kom rétti EVERTON andinn,og þeir héldu áfram að berjast þrátt fyrir 2 ragnsöðu dóma.Liðið á hrós skilið og vel það.Og hrikalega góðir.Er sammála að stuðnigsmenn okkar voru frábærir. ÉG spyr hvar eigum við að hittast næst er ekki kominn tími á það.OG KOMA SVO ÞAÐ ER BARA NÆSTI LEIKUR .AFRAM EVERTON

 9. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var óvænt og stórkostleg frammistaða og kærkominn sigur eftir allt of dapurt gengi liðsins undanfarið.
  Nú er bara að vona að liðið haldi áfram á þessari braut en detti ekki aftur í sama farið, því þá eru þessi úrslit eiginlega einskis virði.

  En þvílík rugl dómgæsla, ekki bara í þessum leik, heldur mörgum öðrum. Það liggur við að maður haldi að það sé verið að svindla á Everton miðað við dómgæsluna á tímabilinu. Ég get nefnt seinni rangstöðuna á Richarlison í gær, þegar varnarmaður Brentford togaði treyjuna yfir hausinn á Rondon inni í markteig eða þegar Loris braut á Richarlison en einhvern veginn komst dómarinn að því að hann hefði náð boltanum.

  • Erlingur hólm valdimarsson skrifar:

   Þetta voru dauðakippirnir hjá Everton, og eins og þegar markmannslufsan hjá ykkur slapp við rautt spjald, slapp leikmaður ykkar við rautt spjald / steig á andlitið munið þið.